Fréttir

23.10.2016

Ferðanefnd og Rótarýtónleikarnir 8. janúar

Rótarýfundurinn 25. október var í umsjá Ferðanefndar en formaður hennar er Sigurjón Sigurðsson. Minnt var á Rótarýtónleikana, sem verða 8. janúar. Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur B. Lýðsson.

Forseti bauð gesti fundarins  velkomna en Þeir voru Mariano Ramirez skiptinemi frá Argentinu og Georg Hannah úr Rótaryklúbbi Keflavíkur. Forseti sem ekki hafði verið viðstaddur Umdæmisþingið þakkaði félögum og þá sérstaklega þeim sem voru í undirbúningsnefndinni fyrir frábæra frammistöðu.

Guðmundur Jens umdæmisstjóri kvaddi sér hljóðs og þakkaði mönnum fyrir góða frammistöðu á þinginu og við undirbúning þess. Hann sagðist aðeins hafa heyrt jákvæð viðbrögðum þingið þar sem hann hefði komið.

Jón Ögmundsson kvaddi sér hljóðs til að ræða um Stórtónleika Rótary en hóf mál sitt á því að taka undir með fyrri ræðumönnum og þakka félögum fyrir frábæra frammistöðu á umdæmisþinginu.    

Rótarytónleikarnir verða 8. janúar 2017 í Norðurljósasalnum í Hörpu og er undirbúningur tónleikanna í höndum Rótaryklúbbs Kópavogs í samráði við Tónlistarsjóð Rótary. Sala miða á tónleikanna er að hluta til í höndum klúbbsins auk þess sem hann mun afla styrktaraðila vegna tónleikanna.

Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur Lýðsson en hann sagði frá Óvissuferð sem hann fór í um Kópavog sem skipulögð var fyrir maka þingfulltrúa undir leiðsögn Kristjáns Guðmundssonar frv. bæjarstjóra. Sérstakur maður var síðan fenginn til að kyssa hverja konu að ferð lokinni og tókst það mjög vel. Í því tilefni kallaði hann Guðmund Ólafsson upp og færði honum rós að gjöf svipaða þeim sem kratar úthlutuðu fyrir nokkrum árum.  

Fundurinn var í umsjá Ferðanefndar og ræddi Sigurjón Sigurðsson formaður um þær hugmyndir sem nefndin hefði um verkefni starfsársins. Annars vegar var ferð í Borgarnes og heimsókn á Landnámssetrið á sýningu þar og hins vegar einhver ferð í vor. Hann vildi fá álit fundarins á því hvort betra væri að hafa Borgarnesferðina fyrir eða eftir áramót og hvort vorferðin ætti að vera innanlands eða utan. Hann fékk mjög afgerandi svör um að Borgarnesferðin verði eftir áramót og vorferðin verði innanlands og mun ferðanefnd vinna samkvæmt því.