Fréttir

27.9.2016

Héraðsskólar, fjötrar eða fyrirheit?

Aðalsteinn Eiríksson

Rótarýfundurinn 27. september var á vegum Menningarnefndar, formaður Guðný Helgadóttir. Fyrirlesari dagsins var Aðalsteinn Eiríksson, f.v. skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, og fjallaði hann um héraðsskólana, sem voru stór þáttur í menntakerfi landsins á seinustu öld. Þriggja mínútna erindi flutti Bergþór Halldórsson.

Guðmundur Ólafsson minnti á að tæpar tvær vikur væru í umdæmisþing og þar sem við værum gestgjafar hvatti hann alla til að mæta eins og þeir gætu.

Þriggja mínútna erindi flutti Bergþór Halldórsson og lagði út frá ferðalagi um Serbíu og nálæg lönd.  Hann benti á hve mótsagnakenndar ákvarðanir stjórnvalda og samtaka geta verið og benti í því sambandi á afstöðu vestrænna þjóða annars vegar í deilunni um Kosovo og hins vegar í deilunni á Krím og í Úkraínu.

Fundurinn var í umsjón Menningarmálanefndar og kynnti Guðmundur Ólafsson fyrirlesarann  Aðalstein Eiríksson, en þeir voru gamlir skólabræður og eru auk þess fjórmenningar.. Aðalsteinn var fæddur og uppalinn á Núpi í Dýrafirði en var síðar kennari og skólameistari Kvennaskólans, en lauk sínum formlega starsferli í Menntamálaráðuneytinu. Síðustu ár hefur hann unnið við að taka saman sögu Núpsskóla.

Í kynningu var sagt að Aðalsteinn myndi ræða um héraðsskólana á síðustu öld en hann sagðist tala um þetta úr þrengra sjónarhorni og vísaði þá til sérþekkingar sinnar á Núpsskóla.  En raunin varð sú að Aðalsteinn fór vítt og breitt yfir skólakerfið á fyrri öld og ræddi um undirliggjandi hugmyndafræði sem m.a. fólst í því að halda fólki heima í dreifbýlinu. Þá ræddi hann einnig um stefnur eins og þjóðernisstefnur og sveitarómantík og lét engin landamæri stöðva sig í þeim efnum. Erindið varð að lokum svo langt að lítið rúm var fyrir umræður. Þó tókst að skjóta inn stuttum athugasemdum frá Kristófer og Ásgeiri.