Auglýsingar í ljósvakafjölmiðlum
Sigurjón M. Egilsson
Rótarýfundurinn 6. september var í umsjón Klúbbþjónustunefndar, en formaður hennar er Magnús Már Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Hringbrautar og fjallaði hann í erindi sínu um fjölmiðlamarkaðinn og auglýsingar í ljósvakafjölmiðlum hér á landi.
Gestir fundarins voru Sigurjón M. Egilsson ritstjóri, sem var fyrirlesari fundarins, Heimir Björgvinsson úr Rótarýklúbbnum Þinghóli, Vilhjálmur Bjarnason Rótarýklúbbnum Görðum og Pen Lin, Hsi Ching forseti Rótarýklúbbs Changhwa í Taiwan ásamt eiginkonu sinni Sunghuichun Lin.
Ljóð dagsins „Sparnaður“ var eftir Jónas Hallgrímsson.
Guðmundur Ólafsson, formaður undirbúningsnefndar fyrir Umdæmisþing Rótarý í Kópavogi dagana 14.-15. október, kynnti glæsilegt tímarit sem gefið er út í tilefni þingsins. Hann þakkaði ritnefndinni vel unnin störf, sem innt voru af hendi á skömmum tíma, og þá sérstaklega ritstjóranum Jóni Sigurðssyni fyrir dugnaðinn.Guðmundur kynnti því næst sjö starfshópa sem sjá munu um framkvæmd þingsins auk væntanlegra þingforseta, Helga Laxdal og Jóns Ögmundssonar.
Forsetar Rótarýklúbbs Kópavogs og Rótarýklúbbs Changhwa skiptust á fánum klúbba sinna.
Magnús Már Harðarson kynnti fyrirlesara dagsins Sigurjón M. Egilsson ritjóra Hringbrautar. Hann fjallaði í erindi sínu um fjölmiðlamarkaðinn og auglýsingar í ljósvakafjölmiðlum hér á landi. Sigurjón talaði m.a. um ójafnræðið sem ríkti með ríkisfjölmiðlunum og fjölmiðlum á frjálsum markaði. Hrósaði hann RÚV fyrir vandaða menningartengda þætti og vildi meira af slíku á þeim bæ en aukið vægi frjálsra fjölmiðla á þeim vettvangi þar sem þeir gera jafnvel eða betur en ríkisfjölmiðlarnir. Sigurjón átti þó ekki von á miklum breytingum. Kerfið ver sjálft sig og viðheldur, sagði Sigurjón og vitnaði í þá skeleggu baráttukonu og orðasmið Vigdísi Hauksdóttur formannn fjárveitingarnefndar Alþingis. Valdið er kerfisins, stjórnmálamenn breytast ekki en tækninni fleygir fram og þar eru möguleikarnir á breytingum til batnaðar, sagði Sigurjón efnislega.