Fréttir

27.8.2016

Garðsaga Íslands

Einar E. Sæmundsen

Rótarýfundurinn 30. ágúst var í umsjón Landgræðslunefndar. Fyrirlesari var Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og fjallaði hann um garðsögu Íslands. Þriggja mínútna erindi flutti Björgvin Skafti Vilhjálmsson.

Forseti Sigfinnur Þorleifsson hafði boðað forföll og sinnti Bryndís Hagan fyrrverandi forseti skyldum hans á fundinum.

Þriggja mínútna erindi flutti Björgvin Skafti Vilhjálmsson. Í erindi sínu talaði Björgvin um minningar sínar úr uppvexti sínum í Kópavogi þar sem frásagnir af slysum og óhöppum voru ekki undanskildar.

Vilhjálmur Einarsson formaður Landgræðslunefndar kynnti fyrirlesarann Einar E. Sæmundsen  sem er raunar bróðir Vilhjálms.  Einar er landslagsarkitekt menntaður í Danmörku og var hann um tíma Garðyrkjustjóri í Kópavogi, en hefur undanfarið unnið hjá Landmótun sem er fyrirtæki sem hann stofnaði með nokkrum öðrum arkitektum.

Einar er að leggja lokahönd á rit sem nefnist  "Garðsaga - Að gera garð" og mun það rit væntanlega koma út á næsta ári. Í erindi sínu fór Einar nokkuð í efni ritsins en þar er reynt að skrá minjar um garðrækt frá upphafi á Íslandi. Hann nefndi nokkra almenningsgarða frá því um og fyrir aldamótin 1900 svo sem Alþingisgarðinn, Hellisgerðií Hafnarfirði, Skrúð á Núpi, Lystigarðinn á Akureyri og Austurvöll.  Af þeim mun Austurvöllur vera elstur og áreiðanlega mest almennings- af þeim öllum.