Fréttir

7.7.2016

Gljúfrasteinn

Guðný Dóra Gestsdóttir

Rótarýfundirnn 5. júlí var á vegum menningarmálanefndar en formaður hennar er: Jón Sigurðsson. Aðalerindi fundarins flutti Guðný Dóra Gestsdóttir  forstöðumaður Gljúfrasteins. Kristófer Þorleifsson og Magnús Már Harðarson fluttu 3ja mínútna erindi.

Enginn hafði verið skráður fyrir 3ja mínútna erindi en umsvifalaust komu tveir sjálfboðaliðar og fluttu þeir báðir sín erindi.

Fyrra erindið flutti Kristófer Þorleifsson. Hann sagðist ekki ætla að tala um fótbolta þrátt fyrir ættartengsl sín við tvo liðsmenn á nýafstöðnu EM móti. Hins vegar gæti hann ekki annað en minnst á að sér finndist lagið sem stuðningsmenn syngju ekki njóta sín nema í flutningi Óðins Valdimarssonar. Hann ræddi svo um að hann hefði verið í mjög skemmtilegum hátíðahöldum 50 ára stúdenta við útskrift stúdenta frá Menntaskólanum á Akureyri, enda stóðu herlegheitin í fjóra sólarhringa.

Síðara erindið flutti Magnús Már Harðarson. Hann kallaði erindi sitt \"Starfsreynsla og golf\" en hann starfar hjá golfklúbbi og með honum 4 starfsmenn sem allir hafa að baki sér fjölbreytta starfreynslu. Það var þó ekki fyrr en níu ára sonarsonur Magnúsar mætti honum til aðstoðar að sá yngri benti á byltingakenndar breytingar á verklagi starfseminnar.

Jón Sigurðsson formaður Menningarmálanefndar kynnti fyrirlesarann Guðnýju Dóru. Hún átti mjög fjölbreyttan starfsferil áður en hún kom að Gljúfrasteini en hún hefur verið forstöðumaður \"Húss Skáldsins\" sem opnað var á heimili Halldórs og Auðar árið 2004. Jón benti á að húsið á Gljúfrasteini hefði nú verið lokað síðan fyrir jól vegna viðhalds.

Guðný sagði í upphafi máls síns frá Vinafélagi Gljúfrasteins sem var stofnað 2010 en tilgangur þess er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness. Fyrsti formaður félagsins var Jón Sigurðsson en nú er Guðrún Pétursdóttir formaður. Guðný fór síðan yfir starfsemina og sýndi myndir frá safninu. Fram kom að árlega kæmu um 7000 gestir og ríflega þriðjungur þeirra útlendingar og væri leiðsögn um safnið á ensku, dönsku, þýsku og sænsku.

Hún sagði að talsvert væri um heimsóknir hópa úr skólum og safnið stæði einnig fyrir ýmis konar viðburðum, en hlutfall erlendra aðila sem kæmi í heimsókn færi þó stöðugt hækkandi.

Þegar safnið tók til starfa 2004 var húsið gert upp en um síðastliðin áramót var ákveðið að loka safninu vegna viðhalds og var í upphafi reiknað með um tveimur mánuðum en viðhaldsvinnan reyndist mun umfangsmeiri en ætlað var og er nú reiknað með að opna safnið aftur í haust. Starfsmenn safnsins hafa þennan tíma fengið starfsaðstöðu hjá Mosfellsbæ og hafa m.a. unnið að því að endur bæta skráningakerfi fyrir muni á safninu.

Ásíðasta ári voru 60 ár liðin frá því að Halldór fékk Nóbelsverðlaunin og í tilefni af því var í vor samþykkt þingsályktunartillaga um stofnun Laxnesseturs þar sem megináhersla verði lögð á líf og starf Halldórs, en húsið verði einnig alhliða menningarsetur með áherslu á bókmenntir, rannsóknir, fræðslu og miðlun. Guðný benti einnig á hugmyndir um að byggja móttökuhús handan Köldukvíslar en þar á ríkið landsskika. Þar sem Gljúfrasteinn er í alfaraleið til Þingvalla væri líklega mjög auðvelt að gera safnið að vinsælum áfangastað fyrir menningarsinnaða túrista.