Fréttir

22.6.2016

Rússland

Guðmundur Ólafsson

Rótarýfundurinn 21. júní var á vegum Alþjóðanefndar en formaður henjnar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari var Guðmundur Ólafsson hagfræðingur og sérfræðingur um málefni Rússlands. Bergþór Halldórsson flutti 3ja mínútna erindi.

Í 3ja mínútna erindi sínu ræddi Bergþór málefni flóttamanna og hælisleitenda sem leita hjálpar á Íslandi. Hann sagði frá stofnun og verkefnum Útlendingastofnunar sem í upphafi var sett á laggirnar til að koma í veg fyrir að „óæskilegir aðilar“ flyttu til landsins. Það eru síðan lög frá 2012 sem liggja til grundvallar starfsemi stofnunarinnar í dag. Bergþór nefndi einnig þátt Dyflinarsáttmálans svokallaða um meðferð og úrlausnir fyrir flóttamenn. Hann nefndi nokkur dæmi sem fjölmiðlar vöktu athygli á um meðhöndlun og afgreiðslu óska þessa fólks hjá Útlendingastofnun sem hann sagði vera allt of lengi að afgreiða þessar umsóknir. Bergþór sagði að vistin hér auðveldaði ekki þessu fólki biðin eftir úrskurði í sínum málum. Hann sagði að stofnanir okkar ættu að líta á þetta fólk sem skjólstæðinga og koma fram af alúð við þessa aðila sem margir hverjir ættu um sárt að binda.

Sævar Geirsson bauð gest fundarins og fyrirlesara velkominn, Guðmund Ólafssson hagfræðing. – Guðmundur kvaðst vera úr Borgarfirði og eftir margháttað ferðalag í námi og starfi væri hann kominn þangað aftur sem kennari við háskólann á Bifröst.

Erindi Guðmundar fjallaði um Rússland. Hann brá upp korti af Kænugarðsveldinu og segir í stuttu máli sögu þess. Víkingar stofnuðu Hólmgarð sem er um árið 800 orðið stórt ríki. Víkingar eru þar höfðingjar og höfðu með sér lögbækur sem Slavarnir áttu ekki. Kænuveldið notar síðan það sem þeir nefndu „Gömul lög“ sem eru hliðstæð við Grágás.- Lög Rússa þróast svo þannig að keisarinn á allt, jörð, menn og fugla, sagði Guðmundur. Hann nefnir valdatíð Péturs mikla sem tapar stríði við Svía árið 1700 og hvernig hann breytti og þróaði varnir landsins í framhaldinu. Guðmundur sagði einnig frá valdatíð Katrínar miklu sem spannaði 50 ár í sögu Rússlands og umbætur sem verða í hennar valdatíð, lög hliðstæð og í öðrum Evrópulöndum, nema eignarétturinn, hann hélst óbreyttur, þ.e. keisarinn átti allt.

Guðmundur rekur síðan eftirkomanda Katrínar miklu á keisarastóli allt fram að byltingunni 1918 en með henni breyttist ekkert fyrir venjulegt fólk. Ríkið átti áfram allt þó keisarinn væri farinn, sagði Guðmundur. - Sovétríkin sem samanstóðu af 15 lýðveldum voru svo lögð af þegar öll 15 lýðveldin sögðu sig úr sovétsamstarfinu árið 1991.

Guðmundur rekur síðan í stuttu máli árin fram að valdatíð Vladimir Putin og Dmitry Medvedev sem nú eru við völd í Rússlandi. Báðir eiga það sameiginlegt að vera lærisveinar Anatoly Sobchak sem var fyrsti lýðræðislegi kjörni borgarstjóri Leningrad sagði Guðmundur Ólafsson. ( innskot ritara: Sobchak er meðhöfundur að núgildandi stjórnarskrá Rússlands og var prófessor í lögum við Leningrad Háskóla )

Guðmundur Ólafsson segir Rússland ekki vera stórveldi heldur „stórt veldi“ segir hann. Putin er umdeildur á Vesturlöndum enda harður í horn að taka. Þjóðartekjur á mann hafa 10 faldast í valdatíð Putins, því er hann svo vinsæll sagði Guðmundur, en Úkranía er t.d.með 25% af þjóðartekjum Rússa á mann. - Guðmundur sagði að Rússum hefði ekki enn tekist að koma á réttarríki þrátt fyrir framfarir á mörgum sviðum, í lok máls síns um Rússland.