Fréttir

14.6.2016

Fjármálakreppur á Íslandi í sögulegu samhengi

Sr. Geir Waage

Rótarýfundurinn 14. júní var á vegum Þjóðmálanefndar en formaður hennar er Kristinn Dagur Gissurarson. Séra Geir Waage prestur í Reykholti flutti aðalerindi fundarins og bar það yfirskriftina:  Íslensk fjármál í sögulegu samhengi. Þriggja mínútna erindi flutti Ásgeir Jóhannesson.

Guðmundur Jens Þorvarðarson minnti á þá ákvörðun að halda hátíðarfund föstudaginn 1. júlí kl. 18.00 í Félagsheimili Siglingaklúbbs Kópavogs að Naustavör 20 Kópavogi, en þann dag mun Guðmundur taka við embætti sem umdæmisstjóri Rótaryhreyfingarinnar á Íslandi. Rótaryfundur 28. júní fellur niður í staðinn. Guðmundur sagðist vonast til að sjá sem flesta félaga úr klúbbnum ásamt mökum við kvöldverðinn.

3ja mínutna erindi flutti Ásgeir Jóhannesson. Hann horfði til sjónvarpsþáttanna \"Eyðibýli\". Eyðibýlið sem hann tók fyrir var Grásíða í Kelduhverfi og sagði hann þrjár örsögur frá íbúum þess bæjar.

Fyrsta sagan var um það að bóndinn á Grásíðu hafði grafið upp mannabein nálægt bænum, sem reyndust vera frá fyrstu öldum íslandsbyggðar. Sérstakt við höfuðkúpuna var að það vantaði augntönn öðru megin sem virtist aldrei hafa verið þar og kom í ljós að a.m.k. tvær konur á svæðinu voru með þetta sama einkenni tæplega þúsund árum síðar. Önnur sagan var um konu sem hafði eignast barn í lausaleik og mál í framhaldi af því, þar sem það reyndist ekki rétt feðrað í upphafi. Þriðja sagan sagði frá að bóndinn á Grásiðu þá kominn á fertugsaldur óskaði eftir að fá að keppa á Landsmótinu á Laugum 1946 í langhlaupum. Hann gerði það og varð annar í 1500m hlaupi og vann síðan 3000m víðavangshlaup og mun það vera í eina skiptið sem Norður-Þingeyjingur vinnur íþróttagrein á Landsmóti.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Jón Emilsson nefndarmaður fyrirlesarann Geir Waage en Geir lauk prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1978 og var síðar það sama ár vígður sóknarprestur í Reykholti, þar sem hann starfar enn. Jón minntist sérstaklega á starf hans við uppbyggingu staðarins í Reykholti og fyrirlestra hans um staðinn bæði hér heima og erlendis.

Geir sagðist ætla að tala um þrjár fjármálakreppur sem þjóðin hefði gengið í gegnum og þar var ekki meðtalin sú sem við þekkjum best og er tiltölulega nýafstaðin.

Fyrsta kreppan var á Sturlungaöld og hófst með upptöku tíundar árið 1096 sem skyldi skiptast í fjóra jafna hluta milli kirkju, presta, fátækra og byskups. Þetta bauð upp á möguleika fyrir kirkjueigendur að eignast mikla og vaxandi fjármuni og hófst þar þróun með mikilli stéttaskiptingu sem endaði með að íslendingar gengum Noregskonungi á hönd.

Önnur kreppan gerðist við siðaskiptin eða siðbótina sem Geir dró í efa að hefði verið nokkur bót. Íslendingar höfðu í nokkrar aldir þar á undan hagnast verulega á Grænlandsverslun sem byggðist á sölu á fálkum, einhyrningshornum, sem voru rostungstennur, selskinnum og fleiri vörum sem voru miklu verðmætari en það sem íslendingar framleiddu sjálfir sem var mest tólg og smjör. Á þessum tíma voru bankar landsmanna hjá kirkjunni og konungur sem nýr yfirmaður kirkjunnar hirti allt lausafé landsmanna.

Þriðja kreppan hófst 1789 með tilskipun um að selja skyldi allar jarðeignir kirkjunnar og var það gert á næstu áratugum þar á eftir. Konungur átti að fá greitt í silfri. Árið 1813 varð ríkisgjaldþrot í Danmörku en eiganda ríkisbankans þ.e. konungi tókst með snarræði að koma hlutum þannig fyrir að tekjur af sölu jarðeignanna lenti í hirslum konungs.