Starfsgreinaerindi
Guðný Helgadóttir
Rótarýfundurinn 24. maí var á vegum starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Benjamín Magnússon, Félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs, Guðný Helgadóttir, mun flytja starfsgreinaerindi sitt. Þriggja mínútna erindi flytur Friðbert Pálsson.
Í upphafi fundarins tilkynnti forseti að nú væri stefnt að hátíðarfundi í húsakynnum Siglingaklúbbsins í Kópavogi að kveldi 1. júlí nk. en þar munu félagar samfagna með Guðmundi Jens Þorvarðsyni sem tekur senn við stöðu umdæmisstjóra Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.
Þriggja mínútna erindi flutti Friðbert Pálsson. Hann fallaði um störf undirbúningnefndar vegna umdæmisþingsins í haust og verkefnin framundan sem tengdust útgáfu aðalrits umdæmisþingsins. Þó viðbrögð vær nokkuð góð væri mikið verk óunnið í sambandi við öflun auglýsinga en markmiðið væri að þær skiluðu ríflega 3 milljónum í tekjur. Enn væri langt í land að því marki væri náð og hvatti Friðbert alla félaga Rkl.Kópavogs til að finna kostunaraðila en blaðið á að vera tilbúið til prentunar í ágúst.
Nýr félagi Rkl. Kópavogs, Guðný Helgadóttir, flutti starfgreinaerindi sitt og fjallaði vítt og breitt um nám og störf. Hefur hún víða komið við á löngum ferli en í fyrra lét hún af störfum sem deildarstjóri i menntamálaráðuneytinu.
Guðný fjallaði um námsár sín í Kvennaskólanum í Reykjavík á sjöunda áratugnum en að námi loknu bauðst henni starf í menntamálaráðuneytinu en hún ákvað að mennta sig enn frekar og hóf nám við Kennaraskólann í Reykjavík með það að markmiði að ljúka stúdentsprófi þar að loknum hefðbundnu fjögurra ára námi. Á Kennarskólaárunum starfaði Guðný hjá Eimskipum og hélt síðan til V-Þýskalands til að sækja þýskunámskeið hjá Goethe institute. Að því búnu fór hún að starfa með Andra Ísakssyni hjá Skólarannsóknum en hann var samstarfsmaður Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra. Guðný kvað Gylfa hafa verið framsýnan ráðherra sem hefði fylgst vel með straumum og stefnum á alþjóðvettvangi og hafi hann leitt til lykta ýmis framfaramál fyrir íslenskt samfélag.
Skólarannsóknir störfuðu undir hatti menntamálaráðuneytis en um 1990 tók Guðný við starfi ritara hjá íslensku UNESCO nefndinni. Vann hún við það verkefni til hliðar við fullt starf í ráðuneytinu. Það var í tengslum við starf Guðnýjar hjá UNESCO sem hún réðst til starfa í París eða á árunum 2002-2006 og átti þar góða samvinnu við Svein Einarsson fyrrum leikhússtjóra hjá LR og Þjóðleikhúsinu. Meðal verkefna sem þau unnu að var Íslandskynningin í París haustið 2004
Guðný sagði að lokum að hún hefði byrjað á vakt Gylfa Þ. Gíslasonar og hætt þegar Illugi Gunnarsson var menntamálaráðherra. Alls hefur hún starfað hjá 17 menntamálaráðherrum og allir hafa þeir verið minnistæðir persónuleikar og áhugaverðir hver á sinn hátt.