Fréttir

31.5.2016

Mikilvægi ferðaþjónustunnar- tækifæri og ógnanir

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Rótarýfundurinn 31. apríl var á vegum Alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var fyrirlesari á fundinum. Þriggja mínútna erindi flutti Vilhjálmur Einarsson.

Gestur fundarins var enskur maður, Mike Stonham, frá Rótarýklúbbnum Nortwick Park í London. Hélt hann stutt erindi um klúbbinn sinn en meðlimir hans eru 36 talsins.

Kristófer Þorleifsson kvaddi sér hljóðs og ræddi um útskrift sem hann sótti fyrir hönd Rkl. Kópavogs í Menntaskólann í Kópavogi. Þar afhenti hann 80 þús. króna styrk Rkl. Kóp. þeim nemenda sem bestum árangri náði í raungreinum, ungri stúdínu Guðfríði Daníelsdóttur. (Sjá einnig sérstaka frétt á heimasíðunni)

Þriggja mínútna erindi flutti Vilhjálmur Einarsson og ræddi hann um fasteignamarkaðinn og vék í máli sínu að á þeim miklu breytingum sem orðið hafa á þeim markaði frá því hann byrjaði að starfa við hann í Kópavogi fyrir nokkrum áratugum þegar íbúar Kópavogs voru 12300 talsins. Megin inntakið í erindi Vilhjálms voru varnaðarorð vegna þeirrar þenslu sem nú ætti að blasa við öllum óbrjáluðum mönnum. Vilhjálmur sagði að hækkanir væru að hluta til knúnar áfram af fjárvana og allt að því gjaldstola sveitarfélögum sem leitt hefði til 55 % hækkunar á leigu á stuttum tíma. Þessi markaður á eftir að hrynja, sagði Vilhjálmur og bað menn að hugleiða möguleika ungs fólks til að koma þaki yfir höfuðið eða leigja á okurverði.

Aðalerindi fundarins flutti Ragnheiður Elína Árnadóttir atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Hallgrímur Jónasson formaður alþjóðanefndar kynnti Ragnheiði en gestur fundarins var auk Ragnheiðar aðstoðarmaður ráðherra, Ingvar Pétur Guðbjörnsson.

Erindi Ragnnheiðar bar yfirskriftina:

Mikilvægi ferðaþjónustunnar- tækifæri og ógnanir.

Ragnheiður hóf mál sitt á því að rifja upp myndbirtingu í blaði á dögunum og texti undir sem var á eitthvað á þessa leið: Maðurinn sem bjargaði Íslandi - þ.e.a.s. ferðamaðurinn. Mikið sannleikskorn væri í þessu. Hún sagði að fjölgun ferðamanna á Íslandi væri ævintýraleg og nú kæmu kæmu milljón fleiri ferðamenn til Íslands en komu árið 2013 þegar hún tók við þessum málaflokki í ríkisstjórn hefði - fjölgunin milli ára væri þetta 20-30-40 prósent. Ferðaþjónustan á Íslandi væri ekki lengur nein hobbígrein heldur stærsta útflutningsgrein Íslendinga og skipaði sjávarútveginum í annað sæti. Ástæðurnar fyrir túristasprengjunni mætti án efa rekja til lækkunar á gengi krónunna og að Ísland hafi upp frá því verið mikið í fréttum, fyrst í tengslum við Hrunið 2008 og síðar vegna gossins í Eyjafjallajökli. En margt fleira mætti án efa tína til.


Ragnheiður sagði að þessa dagana væri salernismál ferðamanna mikið í umræðunni en hún taldi að þau mál væru víða í góða lagi, lögð hafi verið áhersla á að kortleggja salernisaðstöðua um land allt og þannig fengist betri yfirsýn. Hún kvaðst hafa komið að Gullfossi eigi alls fyrir löngu og salernisaðstaða þar væri góð. Þá sagði hún að hagsmunaðilar greinarinnar ættu sífellt betra samstarf og að úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða hefðu úthlutanir aukist um þúsund prósent í sinni tíð. Niðurstöður úr könnum með ánægju ferðamanna í samhengi við þjónustu og upplifun hefðu verið jákvæðar. Þá væri mikil vinna í gangi í sínu ráðuneyti að áhættugreina ferðaþjónustuna.

Ragnheiðar tók að lokum saman og svaraði fjölmörgum spurningum sem fundarmenn báru upp og vörðuðu gjaldtöku ferðamanna. Ráðherra dró enga dul á ýmis ljón hefðu verið á veginum þegar koma átti á náttúrupassanum margumtalaða og miklar tilfinningar í málinu. Gamlir ráðherrar hefðu hótað því að henda sér í Öxarárfoss ef passinn yrði samþykktur og þar fram eftir götunum. Ragnheiður lofaði því að mest frestaða vegaframkvæmd Íslands, vegspottinn frá Þjóðavegi 1 að Dettifossi yrði lagaður.

Hinsvegar sagðí hún að það væri búið spil að ferðalangar með tjald frá Seglagerðinni Ægi gætu sett niður hæla sína og bönd við birkirunna og lækjarsprænu óáreittir úti í náttúrunni, fjarri traðki tjaldvagna og húsbíla. Þótti ritara þetta fremur vond tíðindi. Helgi Sigurðsson upplýsti að sérstök löggjöf gilti í Svíþjóð um aðgang fólks að slíkum stöðum.