Fréttir

16.5.2016

Thomas international - persónuleikamat og starfsgreining

Magnús Már Harðarson

Rótarýfundurinn 17. maí var á vegum klúbbþjónustunefndar. Fyrirlesari dagsins var Magnús Már Harðarson, félagi í Rkl. Kópavogs. Þriggja mínútna erindi flutti Sævar Geirsson.

Þriggja mínútna erindi flutti Sævar Geirsson. Hann fjallaði um Rotaryfund sem hann sótti í vetur sem leið á Sauðárkróki. Klúbburinn þar er eingöngu skipaður körlum og er helsta ástæða þess sú, að heima fyrir ráða konurnar öllu. Starfssemin er að öðru leyti svipuð og hjá Rkl. Kópavogs en þó má nefna að í stað þriggja mínútna erindis flytja menn ljóð og svo eru þeir með fyrirlesara öðru hverju. Þann dag sem Sævar sóttu fundinn var frumsýnd kvikmynd þar sem klippt var saman atriðum úr stórmyndinni Everest og látið líta að því liggja að söguþráðurinn væri úr skagfirskum veruleika þar nyrðra. Grínið fólst m.a. í því að myndavélinni var hallað um 45 gráður. Meðal fastra liða í starfsseminni klúbbsins er opinn vorfundur og fer þá fram leiðsögn um „skagfirska efnahagssvæðið,“ eins og það er orðað. Um jólin bjóða félagar Rkl. öllum bæjarbúum í jólahlaðborð og mæta þetta 500-700 manns. Félagar sinna ýmsum samfélagsverkefnum, skrá t.d. örnefni í bænum og grennd og margt fleira mætti tína til.

Aðalerindi fundarins flutti Magnus Már Már Harðarson og bar það yfirskriftina Thomas international - persónuleikamat og starfsgreining. Magnús fjallaði um ferla við starfsráðningar og sem oft á tíðum væru æði tímafrekir og stundum ómarkvissar. Nefndi Magnús t.d. 600 spurninga lista sem stundum væru eru lagðar fyrir umsækjendur. Það kerfi sem Magnús hefur sérhæft sig í og er skammstafað DISC, sem tákna fjóra ása þar sem D merkir á enskri tungu dominance, I =Influence, S =steadiness og C = concientiousness. Eða á íslensku: Yfirráð, Áhrif, Staðfesta og Eftirfylgni.

Án þess að fara í nánari skilgreiningar á þessum hugtökum er vert að geta þess að kerfið samnstendur af 24 lykilspurningum sem lagðar eru fyrir umsækjendur. Það tekur aðeins 8 mínútur að ljúka við að svara spurningunum í Thomas Intl. persónuleikamatinu. Persónuleikamatið er skráð hjá Bresku sálfræðingasamtökunum og hefur verið endurskoðað reglulega á tveggja ára fresti, með tæknilegum viðmiðum frá Samtökum evrópskra sálfræðinga.

Magnús sagði að helsti gallinn við ráðningar væri sá að í 90% tilvika væru stjórnendur að spegla sjálfa sig í umsækjendum og afleiðingin gæti orðið sú að oft væri girt fyrir þann möguleika að hæfasta fólkið væri fengið til starfa og ákveðin einsleitni yrði stundum niðurstaðan. Við úrlausnir á persónuleikamatinu fengist greinargott mat á hæfni umsækjenda og hvar hæfleikar þeirra liggja. Spurningarlistinn hefur einhverskonar greiningu að markmiði og niðurstaðan stundum orðið sú að ákveðnir hæfileikar fyrirfinnast sem hvorki umsækjendur né ráðningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að væri til staðar. Þá gefur persónuleikamatið öryggi við ráðningar, auðveldar gerð kostnaðaráætlana vegna endurmenntunar og námskeiðahalds.