Fréttir

11.5.2016

Stríðsárin á Íslandi

Páll Baldvinsson

Rótarýfundurinn 10. maí var á vegum Ferðanefndar en formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson. Páll Baldvinsson sagnfræðingur fjallaði um hið mika verk sitt: Stríðsárin á íslandi 1938-´45. Þriggja mínútna erindi flutti Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Þriggja mínútna erindi flutti Sveinn Hjörtur Hjartarson. Hann kallaði erindi sitt ferðalýsingu á Strandakirkjugöngu en Strandakirkja hefur fyrir löngu síðan öðlast sérstakan sess í hugum fólks. Sveinn nefndi í því sambandi að ákveðin helgi hvílir yfir mörgum áfangastöðum og þarf ekki að nefna annað en Jakobs-veg, sem liggur um slóðir nokkurra Evrópulanda, og Péturskirkju í Róm. Margir hafa lagt stund á Strandakirkjugöngu en gönguferðina má skipta upp í ytri og innri göngu þar sem fyrri þáttur snýr að stælingu líkamans en í öðrum þætti ganga menn til móts við samtíð sína, fortíð og framtíð, hitta fyrir samferðamenn, fugla himins, lækjarlontur og kvikfénað, góða vætti og að endingu kannski - sjálfa sig.


Aðalerindi fundarins flutti Páll Baldvin Baldvinsson. Fjallaði hann um hið mikla verk sitt Stríðsárin á Íslandi 1938 - ´45. Páll hóf mál sitt á að skýra betur tímaskeið bókarinnar en hann kaus að tefla fram þeim þjóðfélagsaðstæðum sem ríktu á Íslandi árið 1938 og uppgangi efnahagslífsins í kjölfar hernáms Breta þann 10. maí árið 1940 allt fram til ársins 1945. Hann hikaði ekki við að fullyrða að stríðsárin væri merkasta tímabil i sögu þjóðarinnar og hafi leitt yfir þjóðina meiri breytingar en nokkurt annað skeið. Árið 1938 var þjóðin að súpa seyðið af lokun saltfiskmarkaða vegna Borgarstyrjaldarinnar á Spáni. Mikil fátækt og eymd ríkti yfir þjóðlífinu sem kom m.a. fram í því að í framlög hins opinbera stóðu í því hlutfalli að af hverjum 10 krónum runnu fjórar til opinberrar aðststoðar. Drykkjuskapur var landlægur, unglingar verkefnalausir og útbrot þessa ástands komu fram í hnupli og ýmsum smáglæpum. Þó að skilningur hafi ríkt á því að bregðast þyrfti við voru opinberar stofnanir fjárvana. Ríkið átti ekki fyrir afborgunum. Veitustofnanir gátu ekki einu sinni annast eðlilegt viðhald hvað þá aukið við verkefni sín. Lánalínur voru lokaðar og vestur í Bandaríkjunum ræddu Thor Thors og Vilhjálmur Thor þá hugmynd að Ísland gengist undir Bandaríkin. Jafnframt var mikil spenna í alþjóðlegum stjórnmálum vegna uppgangs fasismans og þann 1. september 1939 var friðurinn endanlega úti þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland og Seinni-Heimsstyrjöldin hófst. Stríðið breytti öllu á Íslandi.

Páll rakti ýmsa þætti hersetu Breta og síðar Bandaríkjamanna sem tóku við árið 1941. Efnahagsbati þjóðarinnar kom strax fram í auknum fiskútflutningi og í Bretavinnunni sem svo var kölluðu og varð til þess að ungir menn úr sveitum landsins leituðu á önnur mið. Hin nýju atvinnutækifæri kölluðu fram gullgrafaræði þar sem ýmis kjör voru í boði og alls kyns smásvindl þreifst. Sambúð hernámsliðs og Íslendinga er svo sérstakur kapítuli út af fyrir sig sem ekki verður rakinn hér. Með komu Bandaríkjahers 1941 hófst mikill innflutningur alls kyns tækjabúnaðar. Menning borgaranna tók stakkaskiptum. Í stríðslok og eftir stofnun lýðveldisins var ásýnd lands og þjóðar allt önnur en árið 1938.

Verk Páls Baldvins er mikið af vöxtum og var gefið út af JPV útgáfu. Páll rakti tilurð þess og í lok fundar gafst félögum tækifæri til að skoða það betur.