Fréttir

21.4.2016

Sunnuhlíðarsamtökin

Á Rótarýfundinum 19. apríl flutti Eiríkur Líndal skýrslu Sunnuhlíðarsamtakanna. Sigfinnur Þorleifsson flutti 3ja mínútna erindi.

Þriggja mínútna erindi flutti Sigfinnur Þorleifsson. Vegna tíðinda gærdagsins lagði hann að sumu leyti út frá yfirlýsingu forseta Íslands um framboð sitt og sagði Sigfnnur frá því að hann hefði nú starfað í 32 ár sem sjúkrahúsprestur eða átta kjörtímabil alls. Hann rifjaði upp ýmis ummæli vinar síns og kollega Sveinbjörns í Hruna sem hafi eitt sinn verið fenginn til að brjóta heilann um ákveðið mál en eftir dágóða stund hefði hann kveðið upp úr með svofelldum orðum: „Það veit ég ekki heldur“.

Á þeim degi er Sveinbjörn í Hruna kvaddi söfnuð sinn sagði hann einfaldlega: „Það er yður fyrir bestu að ég fari burt.“

Sigfinnur ræddi um þá tilhneigingu sumra að geta með engu móti slitið prívatpersónu sína frá starfinu og tók dæmi af gömlum presti sem hefði alltaf byrjað á því að skrifa titilinn séra á þær ávísanir sem hann gaf út. Sigfinnur bætti því við að prestskraginn kæmi að litlu gagni heima hjá sér t.d. þegar hann kæmi þreyttur heim eftir vinnu en væri svo fyrirvaralaust sendur út með ruslið af hæstvirtri eiginkonu.

Aðalefni fundarins var skýrsla um málefni Sunnuhlíðar en hana flutti formaður nefndarinnar Rkl. Kóp. Eiríkur Jón Líndal. Hann minnti á að upphaflega hefð Rotary-hreyfingin og ýmis félagasamtök staðið að byggingu Sunnuhlíðar sem skiptist í hjúkrunarheimili, þar sem íbúum er tryggð hjúkrunar- og umönnunarþjónusta allan sólarhringinn, og sérbýli þar sem margir hefðu búið áratugum saman. Aðstaða hefði alla tíð verið til fyrirmyndar. Hann rakti þá stöðu sem komin væri upp hjá Sunnuhlíðarsamtökunum en ríkið hefði yfirtekið hjúkrunarheimilið. Fundir hefðu ekki verið haldnir á réttum tíma og heilmikil óvissa skapast þrátt fyrir aðkomu ríkisins.

Miklar umræður spunnust eftir flutning Eiríks á skýrslunni. Ásgeir Jóhannesson, sem skrifað hefur sögu Sunnuhlíðarsamtakanna, lýsti atburðarás frá því að Sunnuhlíðarsamtökin vígði húsnæðiðfyrir tæplega 30 árum síðan eða árið 1987. Þá mættu 3 þús manns við opnunarathöfn. Ásgeir sagði að vel hafi verið vandað til verka og húsakynnin hefðu staðist tímans tönn; þar væri engin mygla eða leki enda hefðu húsakynnin verið klædd þannig að utan að í dag væri lítil þörf á endurbótum. Ítrasta kostnaðaraðhaldi var beitt á sínum tíma og það hefði jafnvel skapað ákveðinn fordæmisvanda við fjáhagsáætlanir hins opinbera og annarra aðila við sambærilegar framkvæmdir.

Jón Sigurðsson kvast hafa komið á fund beint frá fundi hjá Eir en sá vandi sem þar hefði komið upp eftir Hrunið hafi sumpart verið leystur hvað varðaði hjúkrunarplássin en með blóðugum niðurskurði þó. Öðru máli gengdi um sérbýlin. Jón lýsti því þeirri skoðun sinni að sá samfélagsauður sem margir hefðu talið að finna mætti í starfssemi hjúkrunarheimilanna og skildri starfssemi þeirra væri lítil viðing sýnd. „Stefnt er að því leynt og ljóst að rústa þessu kerfi,“ sagði Jón og var þungorður um stöðu mála.

Ýmsir aðrir tóku til máls t.d. Guðmundur Jens Þorvarðarson og Jón Ögmundsson. Sá fyrrnefndi sagði að kröfurnar væru alltaf að aukast en daggjöldin stæðu ekki undir þeim. Jón Ögmundsson tók í sama streng og taldi tímabært að hugsa málin sem varða aðstæður og aðbúnað aldraðra upp á nýtt.