Sáttamiðlun og viðurkenning fyrir framlög til Rótarýsjóðsins
Rótarýfundurinn 12. apríl var á vegum alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari dagsins var Lilja Bjarnadóttir sáttamiðlari og nefndi hún erindi sitt "Sáttamiðlun og samskipti á vinnustöðum". Birna Bjarnadóttir úr Rkl. Borgum færði klúbbnum viðurkenningu frá Rótarýsjóðnum.
Birna Bjarnadóttir, Rkl. Borgum, kom færandi hendi og veitti Rkl. Kópavogs viðurkenningu fyrir framlög til Rótarýsjóðsins vegna alþjóðlegs átaks gegn lömunarveikinni sem alþjóðhreyfing ákvað að leggja því máli lið á sínum tíma. Það var Sigfinnur Þorleifsson varforseti sem veitti viðurkenningunni viðtöku en hún var undirituð af John Kenny sjóðsstjóra Rotary international og fyrrverandi forseta alþjóðasamtakanna og Gary C.K. Huang forseta alþjóðasamaka Rotary.
Aðalerindi fundarins flutti Lilja Bjarnadóttir lögfræðingur og fjallaði hún um það sem hún kallaði sáttamiðaða lausnaleið. ;Lilja starfar hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í sáttamiðlun. Kostir þess að leita sáttamiðlunar eru margir og má t.d. nefna að aðilar losna oft við mikinn lögfræðikostnað, starfsmannavelta fyrirtækja minnkar, fjarvistir vegna veikinda komast í eðlilget horf og svo mætti lengi telja. Lilja fjallaði um algengustu mistök sem fólk gerði í samskipum við aðra t.d. að hlusta ekki á aðra en sjálfa sig og bíða hreinlega eftir því að komast að. Tók hún dæmi af umræðuhefð í stjórnmálum. Hún rakti síðan helstu markmið sáttamiðlunar:
Sáttamiðlun er lausnamiðuð ráðgjöf sem stuðst er við þegar fólk lendir í átökum, ágreiningi eða deilum. Markmiðið er að finna varanlegar lausnir á samskiptaörðugleikum fólks á markvissan og sanngjarnan hátt. Kostir sáttamiðlunar eru meðal annars þeir að kostnaður er jafnan mikið minni en ef fólk fer hefðbundnar leiðir og mál eru leyst á mjög stuttum tíma.
Í sáttamiðlun er vandinn skoðaður með hverjum málsaðila fyrir sig og svo haldinn, ef fólk vill, sameiginlegur sáttafundur þar sem vandinn er ræddur undir stjórn hlutlauss sáttamiðlara. Hlutverk sáttamanns er að draga fram þekkingu og sköpunargáfu fólks við lausn vandans og hvetja til gagnkvæms skilnings og samvinnu.
Allt sem fer fram í sáttamiðlun er trúnaðarmál og allir taka þátt af fúsum og frjálsum vilja. Í sáttamiðlun gefst tækifæri til að lýsa sinni hlið málsins við öruggar aðstæður.