Fréttir

17.3.2016

Er Ísland of lítið? Hvert á það að leita?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Rótarýfundurinn 15. mars var á vegum þjóðmálanefndar en formaður hennar er Kristinn Dagur Gissurarson. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, var ræðumaður dagsins. Erindi sitt kallaði hann; Er Ísland of lítið? Hvert á það að leita? Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Tómasson.

Í þriggja mínútna erindi sínu rifjaði Ólafur upp ferðalag til eyjarinnar Jersey fyrir 30 árum en á því ferðalagi vatt sér að honum maður og spurði Ólaf og konu hans hvort þau væru Íslendingar. Kom á daginn að þessi maður hafi verið í breska hernámsliðinu sem gekk á land þann 10. maí 1940 en eitt fyrsta verk hans var að finna í fjöru og handtaka aðalræðismann Þjóðverja á Íslandi, nasistann dr. Werner Gerlach. Gerlach var grunaður um að hafa í fórum sín njósnatæki og fundust þau síðar í ferðatösku. Ólafur rakti samskipti sín og fjölskyldu sinnar við þennan breska mann sem hann hitti á sínum tíma og upplýsti að hann hefði fundið góðan þátt um þessi á mál á vef RÚV.

Aðalerindi fundarins flutti Hannes Hólmsteinn Guissurarson prófessor við Háskóla Íslands. Kristinn Dagur Gissurarson bróðir Hannesar kynnti Hannes stuttlega en lét þess jafnframt getið að sennilega væri það óþarfi. Yfirskrift erindis Hannesar var: Er Ísland of lítið? Hvert á það að leita?

Hannes leitaðist við að svara þessum spuyrningum sem ýmsir valinkunnir menn hafa varpað fram og nefndi Hannes sérstaklega samkennara sinn við HÍ, Baldur Þórhallsson og einnig Ann Sibert hagfræðiprófessor en þau hafa bæði látið sig varða umræðuna um efnhag Íslands fyrir og eftir bankahrun.

Hannes sem er að vinnna að skýrslu um helstu ástæður efnahagshrunsins velti því fyrir sér hvort Íslendingar hefðu staðið öðru vísu að málum en bankamenn og fjárfestar meðal annarra þjóða. Hann sagði að íslenskur bankamenn hefðu vissulega verið alltof miklir glannar og eyðilagt það góða góða orðspor sem íslenskir bankar hefðu byggt upp á árunum 1991-2004, en minnti þó að þeir hefði ekki verið að fikta með libor-vexti eða átt frumkvæði að vafningsviðskiptum serm tengdust húsnæðisbólunni bandarísku sem lagði stóra bandaríska banka og fjarmálastofnanir á hliðina. Íslenskir bankamenn hefðu haft litla þekkingu á viðskiptum sem vörðuðu afleiður, skuldatryggingarálag o.þ.h. Þá sagði hann að framganga breskra stjórnvalda, að setja Ísland á lista yfir hryðjuverkaríki, hefði verið með eindæmum ófyrirleitin og valdið þjóðinni miklum skaða; hann kvaðst eitt sinn hafa fengið tækifæri til að ræða þau mál við Alistair Darling fyrrum fjármálaráðherra Breta. Í þeim samræðum hefði Darling raunverulega játað að bresk stjórnvöld hefðu mismunað fjármálstofnunum, þannig var t.d. gengið á milli bols og höfuðs á Singer and friedland sem var breskur banki, en hlaupið hafi verið undir bagga með öðrum sambærilegum breskum fjármálastofnunum og nefndi Hannes þar banka með skoskan uppruna og þar hafi komið fram sérkennilegt framlag Alistair Darling til sjálfstæðisbaráttu Skota sem var í brennudepli á þessum róstursama tíma.

Hannes vék einnig að ýmsum ranghugmyndum manna um það hvernig kaup á ríkisbönkunum í kringum 2003 hafi verið fjármögnuð. Miklu meira eigið fé hefði runnið frá hinum nýju eigendum en menn virtist halda. Bankarnir hafi ekki að öllu leyti verið keyptir á slætti.

Hannes kvaðst vera á þeirri skoðun a þrátt fyrir ýmsa galla smæðarinnar hefði hún líka kosti, Íslendingar væru t.d. ekki að burðast með mikil hernaðarútgjöld og löggæsla væri ódýr. Í greiningum hagfræðinnar væri stundum nefnd hætta á nátturuhamförum og að í litlum hagkerfum væri hætta á meiri sveiflum sakir fábreytni í atvinnu- og efnhagslífi. En Íslendingar hefðu í gegnum tíðina náð sér fljótt og vel eftir óáran í efnhagslífinu og væri staðan eftir Hrun gott dæmi þar um. Hann minnti einnig að ríkustu þjóðir heims væru fremur fámennar og nefndi þar Noreg, Sviss og Hong Kong.

Hannes ræddi setu sína í bankaráði Seðlabankans og á þeim tíma hefði formaður bankastjórnar, Davíð Oddsson, sótt fundi í Davos í Sviss og hlustað á ræður manna á borð við Alan Greensepan Seðlabankastjóra Bandaríkjanna sem kalla mætti höfund slaka á regluverki og lágvaxtastefnu í Bandaríkjanna í kringum síðustu aldamót. Greenspan hefði ekki frekar en aðrir séð fyrir þau áföll sem skullu á heimsbyggðina á haustdögum 2008. Hannes nefndi þær hugmyndir áðurnefndra fræðimanna að til greina kæmi fyrir Íslendinga að leita skjóls hjá stærri þjóðum en minnti menn þá hressilega á að saga Íslands kenndi okkur, svo ekki væri um villst, að að ekki væri skjólbetra hjá Norðmönnum eða Dönum og hefðu þeir síðarnefdu reynst vita gagnslausir þegar hingað komu ofbeldismenn - Hundtyrkinn frá Alsír árið 1627. Íslenska þjóðin hefði öldum saman verið smáð og lítils virt. Ísland var margissins falboðið þ.á.m. Hinriki áttunda, sagði Hannes en hann hafði þá öðrum hnöppum að hneppa, og sýndi þeim viðskiptum lítinn áhuga. Hannes vék að sjálfstæðisbaráttu Jóns Sigurðssonar og hvernig Jón brýndi fyrir landsmönnum mikilvægi verslunarfrelsis og öll sú barátta hefði orðið þjóðinni til góðs. Hannes kvað það bjargfasta skoðun sína að Íslendingar ættu alls ekki að binda sig á klafa Evrópusambandsins, heldur miklu frekar sækja eftir eftir viðskiptum við Bandaríkin, Kanada, Kína, og Japan.

Hannes flutti mál sitt sköruglega og skemmtu fundarmenn sér vel. Á eftir fylgdu fjörugar umræður. Að því búnu fóru fundarmenn með fjórprófið og um kl. 13.15 sleit forseti fundi.