Fréttir

23.2.2016

Stofnfrumurannsóknir – Tækifæri eða tálsýn

Sveinn Guðmundsson

Rótarýfundurinn 23. febrúar var á vegum starfsþjónustunefndar. Kristófer Þorleifsson kynnti fyrirlesarann, Svein Guðmundsson forstöðumann Blóðbankans og og fjallaði hann m.a. um stofnfrumur og notagildi þeirra. Þriggja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson

Í upphafi fundar fór fram nokkur umræða um fána Rkl. Kópavogs og liggur niðurstaðan ekki fyrir um hvenær eða hvort honum verði breytt en meirihluti virðist þó vera fyrir því að ráðist verði í breytingar á fánanum.

Magnús Már Harðarson mætti til fundar vel birgur af Rótarý-kökunni en fjölmargir félagsmenn keyptu kökuna og styrktu hreyfinguna í leiðinni um eitt þúsund krónur.

Í þriggja mínútna erindi sínu fjallaði Magnús Már Harðarson um íslenskan vinnumarkað með tilliti til framleiðni og vitnaði upphafi í máls síns í orð Abraham Lincoln sem voru eitthvað á þá leið, að vel unnið starf hljóti að eiga kröfu á réttlátri umbunun. Tölur frá OECD setja Íslendinga fremur neðarlega meðal þjóða sem við viljum bera okkur saman við eða í 17. sæti. Það einkennir Íslendinga að þeir hafa tilhneigingu til að sækja hagsæld með lengri vinnudegi og tók Magnús nokkur dæmi af reynslu sinni sem starfsmannastjóri Vífilfells um það hvernig menn hefðu teygt lopann fram eftir degi í þeim tilgangi að ná fram ákveðnum fjölda vinnustunda. „Framleiðnin“ var í einu eftirminnilegu tilviki fengin með daglegu glápi á vídeómyndir. Vífilfell hefðu brugðist við með þeim hætti því að semja upp á nýtt við starfsmenn og hefði það skilað betra starfi þeirra – aukinni framleiðni. Magnús vék einnig að framleiðni opinberra starfsmanna en könnun sem gerð var á  sínum tíma leiddi í ljós að 30 – 50 óunnar vinnustundir mætti merkja við hvern starfsmann. Það myndi ekki teljast mikil framleiðni í einkageiranum.

Aðalerindi fundarins flutti yfirlæknir Blóðbankans, Sveinn Guðmundsson. Það var Kristófer Þorleifsson sem kynnti Svein.

Sveinn sagði frá því að innan skamms myndi hann flytja búferlum til Uppsala í Svíþjóð og hefja þar störf og væri því að kveðja sinn gamla vinnustað hjá Blóðbankanum. Yfirskrift erindis hans var: Stofnfrumurannsóknir – Tækifæri eða tálsýn. Áður en Sveinn einhenti sér í þann málaflokk dró hann saman í nokkrum orðum ýmsa þætti starfssemi Blóðbankans, starfsmannafjölda, birgðahald, bíl blóðbankans, gæðavottanir, öryggisnet, hina sjö þúsund blóðgjafa Blóðbankans og margt fleira. Í stuttu máli sagt þá er starfssemin til mikillar fyrirmyndar en net Blóðabankans nær víða og fullyrti Sveinn að Blóðbankinn ræki fleiri útibú á landinu en sjálfur Landsbankinn. Sveinn sagði að um 3 þús. manns fengu blóðgjöf á ári hverju en farið væri sparlega með blóðgjöf sem úrræði og tölur benda ti þess að þar standi Íslendingar sig vel í alþjóðlegum samanburði.

Stofnfrumur eru grunnurinn að öllum vefjum líkamans. Helsti eiginleiki stofnfrumna er að þær geta endurnýjað sjálfar sig en jafnframt myndað sérhæfar frumur með frumuskiptingu. Miklar vonir eru bundnar við að hægt verði að nýta stofnfrumur til lækninga á alvarlegum og ólæknandi sjúkdómum. Talið er líklegt að við sjúkdómum þar sem vefjaskemmdir eru vel skilgreindar, eins og til dæmis í sykursýki, Parkinson, hjartadrepi, MND og MS muni stofnfrumur nýtast sem meðferðarúrræði. Sveinn fjallaði um beinmergsskipti og söfnun og gagnsemi naflastrengsblóðs nýbura sem hefur miklvæga eiginleika.

Sveinn sagði að margt væri fólki hulið í sambandi við stofnfrumurannsóknir og óprúttnir aðilar reyna oft að vekja með veiku fólki tálvonir og til væri nokkuð sem kalla mætti \"stofnfrumuferðamennska\".