Kínverski hlutabréfamarkaðurinn og efnahagshorfur í Kína
Hafliði Sævarsson
Rótarýfundurinn 16. febrúar var í umsjón alþjóðanefndar, formaður Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari var Hafliði Sævarsson viðskiptafræðingur og fjallaði hann um fall kínverska hlutabréfamarkaðarins og efnahagshorfur í Kína. Þriggja mínútna erindi flutti Helgi Sigurðsson.
Í upphafi fór fram umræða um Rótarýdaginn 27. febrúar og kynnti Magnús Már Harðarson þá fyrirætlan að selja félagsmönnum „Rótarý-kökuna“ en hún kostar kr. 2500 þar af ganga þús krónur til Rótarý.
Helgi Sigurðsson flutti 3 mín erindi í forföllum bróður síns Stefáns og var stefið eignarétturinn. Helgi rifjaði upp skilgreiningar hins rómverska réttar á eignaréttinum og það hvernig indjánar höfnuðu þeirri hugmynd að nokkur maður gæti slegið eign sinni á frumgæði þau sem í náttúrunni búa. Helgi vék að dvöl sinni í Perú fyrir nokkrum árum en þar hefðu auðhringar bókstaflega sölsað undir sig gæði landsins og arðrænt þjóðina sem væri sárafátæk þrátt mikil náttúruleg verðmæti. Vinnubrögðin þar hefði minnt á það hvernig bandaríska stórfyrirtækið Enron hefði staðið að málum, t.a.m skammtað orku í þeim tilgangi að hækka gjaldskrár vegna aukinnar eftirspurnar. Skilgreining Finna á vatnsbólum og ám gerði Helgi einnig að umtalsefni sínu.
Aðalerindi fundarins flutti Hafliði Sævarsson og var umræðuefni hans hlutabréfamarkaðurinn í Kína. Sævar Geirsson kynnti Hafliða.
Hafliði rifjaði upp að á þeim tíma sem hann starfaði hjá Glitni hafi honum verið falið að leita viðskiptatækifæra í Kína. Vegna leikreglna í kínversku kauphöllinni hafi ekki verið auðvelt fyrir Glitni að að komast inn á hlutabréfamarkaðinn þar sem norski olíusjóðurinn og risar alþjóðlegra viðskipta hefðu orðið að eiga í fórum sínum milljarð dollara sem einhverskonar inngöngugjald. Glitni var ekki langt frá því marki en árið 2007 varð mikið fall í kínversku kauphöllinni og staðan í dag væri lítt betri nú eftir samfellda lækkunarhrinu undanfarna mánuði. Enginn ágreiningur væri um það meðal fjárfesta og fræðimanna að um „beygðan markað“ væri að ræða en í þrígang síðustu sex mánuði hefði úrvalsvísitalan fallið um 20%.
Það sem einkenndi markaðinn er að stór hluti almennings fjárfestir hjá alls kyns miðlurum og tjón einstakiga væri mikið þegar gríðarlegar upphæðir þurrkast burt. Taldi Hafliði að 325 milljón kínversk heimli væru meðal þátttakenda í hlutabréfamarkaðinum.
Inngrip stjórnvalda væru talsverð enda settu þau leikreglurnar. Til þess að stemma stigu við lækkun hlutabréfaverðs dældu stjórnvöld óheyrilegum upphæðum úr gjaldeyrisvarasjóði Kína sem væri sá stærsti í heimi og metinn á 3 þús milljarða dollara þegar hann stóð hæst. Ráðstafanir stjórnvalda, alls kyns þvergirðingar sem vart þekktust annarsstaðar, hefðu þó ekki komi í veg fyrir stórkostlegar lækkanir og áfram héldi varasjóðnum að blæða, 15 % hans hefðu farið í sértækar aðgerðir til að stemma stigu við lækkunum.
Hafliði taldi síg sjá merki þess að lækkun á kínverska hlutabréfamarkaðinum og lækkun kínversku myntarinnar juans-ins hefði áhrif á olíu- og álverð á heimsvísu. Viðskipti Kína og Bandaríkjanna væru undir en þessi tvö stærstu hagkerfi heims væru raunverulega háð hvort öðru.
Um þá sem halda um stjórnartaumana kvaddi spámaður nokkur sér hljóðs eigi alls fyrir löngu og sagði: \"... að þegar rollur koma í hópum saman um koldimma nótt vissu þær bara alls ekki hvað þær ættu að gera ef skyndilega kviknaði skær ljósbjarmi.\"