Fréttir

23.12.2015

Ungir skákmenn úr Kópavogi fá viðurkenningu

Laugardaginn 19. desember fengu fjórir ungir skákmenn viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Kópavogs en klúbburinn hefur það á stefnuskrá sinni að styðja við bakið á ungum og efnilegum skákmönnum sem búsettir eru í Kópavogi.


2015-12-18 15.52.34

Fjórir ungir skákmenn fengu sl. laugardag viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Kópavogs en klúbburinn hefur það á stefnuskrá sinni að styðja við bakið á ungum og efnilegum skákmönnum sem búsettir eru í Kópavogi. Það var Helgi Sigurðsson læknir, formaður viðurkenningarnefndar Rótarýklúbbsins og fyrrverandi forseti klúbbsins sem afhenti viðurkenningarnar í Stúkunni á Kópavogsvelli sem í dag er helsti keppnisstaður skákarinnar í Kópavogi.

2015-12-18 15.48.20

Vignir Vatnar Stefánsson fékk afhent skjal til staðfestingar á stuðningi klúbbsins  við þátttöku hans á heimsmeistaramóti  ungmenna í Durban í Suður-Afríku í fyrra en klúbburinn lét af hendi rakna 120 þús. krónur vegna þátttöku Vignis. Vegna þátttöku bræðranna Björns Hólms Birkissonar, Bárðar Arnar Birkissonar og Dawid Kolka á heimsmeistaramóti ungmenna í Porto Carras í Grikklandi fyrir nokkrum vikum fékk hver kr. 40 þús. Fjórmenningarnar fengu allir afhent viðurkenningarskjal undirritað af Helga Sigurðssyni.

2015-12-18 15.46.59

Foreldrum var boðið að vera viðstaddir afhendinguna og í tilefni þess var borin fram dularfull súkkulaðikaka en í henni var skákþraut úr smiðju Sherlock Holmes. Hvítur  átti leik  og fengu viðstaddir  takmarkaðan tíma til að svara þeirri spurningu hver síðasti löglegi leikur svarts hefði verið – sjá meðfylgjandi mynd en andlitsfall Sherlocks og pípan er greypt í kökumynstrið.


Ofanritað er frétt á skak.is frá afhendingu viðurkenningar Rótarýklúbbs Kópavogs.