Fréttir

4.2.2016

Hrunið, siðfræðin og lögin

Arnar Þór Jónsson

Rótarýfundurinn 2. febrúar var á vegum laganefndar en formaður hennar er Jón Ögmundsson. Arnar Þór Jónsson lektor í HR fjallaði almennt um hrunmálin út frá siðfræðilegu og lagalegu sjónarhorni. Þriggja mínútna erindi flutti Kristinn Dagur Gissurarson

Í þriggja mínútna erindi sínu gerði Kristinn Dagur Gissurarson lýðræði og völd að umtalsefni sínu en honum virtist að á köflum stæði lýðræðið vart undir nafni þó menn hikuðu ekki við að skáka í skjóli þess enda hugtakið fagurt. Áformað væri að flytja skrifstofur bæjarins í Norðurturninn við Smáralind, sagði Kristinn Dagur en slík ráðstöfun kostaði vart undir tveimur milljörðum og í samhengi við miklar skuldir bæjarfélagsins væri það hæpin ráðstöfun. Einnig orkaði það tvímælis að stjórnsýsla bæjarins færi á nokkrar hæðir í 14 hæða glerturni með allt annarri starfsemi. Nær væri að byggja á eigin lóð austan við Reykjanesbrautina ef flutningur yrði á annað borð. Ekki taldi Kristinn Dagur það víst að þorri Kópavogsbúa væru meðvitaðir um þessa ætlun sumra ráðamanna í Kópavogi og að meirihluti væri ekki fyrir þessari niðurstöðu ennþá í bæjarstjórn. En dropinn holar steininn og nú skyldi efnt til borgarafundar og freista þess að sannfæra hina efagjörnu um að það væri hið eina rétta að flytja af menningartorfunni. Það væri gömul saga og ný að fundum væri stillt upp þannig að þeir sem halda um valdataumana hafi yfirhöndina um efnistök og framsetningu.

Fundurinn var á vegum vegum laganefndar og kynnti Berglind Svavarsdóttir fyrirlesarann, Arnar Þór Jónsson lektor við Háskólann í Reykjavík. Erindi hans bar yfirskriftina: Hrunmálin út frá siðfræðilegu og lagalegu sjónarhorni. Arnar Þór kvaðst hafa komið að uppgjörsmálum frá ýmsum hliðum, sem fræðimaður, lögmaður og dómari.

Nú væru liðin rúm sjö ár frá Hruninu í október 2008. Hið samfélagslega uppgjör hefði átt sér stað þó ekki væru öll kurl komin til grafar. Sérstæða Íslands meðal vestrænna ríkja væri sú að sumir helstu leikendur hrunsins sem áður höfðu notið athygli og aðdáunar sætu nú í fangelsi. Arnar Þór sagði að í sér bærust alls kyns tilfinningar varðandi þessa dóma m.a. vegna þess að hlutaðeigendur hefðu margir hverjir orðið að bíða í mörg ár eftir niðurstöðu og slíkt reyndi verlega á þolrifin hjá öllum, ekki síst aðstandendum.

Hann nefndi að millistjórnendur hefðu á sínum tíma oft verið settir í erfiða aðstöðu, gagnvart boðvaldi yfirmanna sinna og ekki haft hugmynd um að með gjörðum sínum væru þeir að frema lögbrot.

Arnar Þór gerði að umtalsefni grein sem birtist í Morgunblaðið fundardaginn 2. febrúar rituð af Sverri Ólafssyni prófessor sem vitnaði í ummæli Símons Sigvaldasonar formanns Dómarafélags Íslands.
„ Við megum ekki gleyma því að dómstólarnir eru sprottnir upp úr okkar eigin sannfæringu og eiga að endurspegja viðhorf okkar til málefna líðandi stundar. Dómararnir koma því úr sama umhverfi. Það er mjög eðlilegt að dómarar endurspegli samfélagsvitundina.“

Ekki gat greinarhöfundur né Arnar Þór fallist á þau viðhorf sem þarna komu fram en Arnar Þór nefndi að umræða færi nú fram á alþjóðavettvangi um það hvort ekki mætti eftirláta tölvuforritum einfaldari mál sem gætu þá fellt viðhlítandi dóma án tafar.

Helgi Sigurðsson fyrrum forseti Rkl. Kópavogs stjórnaði fundi í fjarveru Bryndísar Torfadóttur forseta.