Fréttir

19.1.2016

Hagstjórn og pengingastefna

Lúðvík Elíasson

Rótarýfundurinn 19. janúar var á vegum þjóðmálanefndar en formaður er Kristinn Dagur Gissurarson. Aðalerindi fundarins flutti Lúðvík Elíasson hagfræðingur Seðlabanka Íslands á fjármálastöðugleikasviði. Jón Ögmundsson flutti þriggja mínútna erindi.

Í þriggja mínútna erindi sínu fjallaði Jón Ögmundsson um tónlistarmanninn Dawid Bowie sem féll frá á dögunum en áhrifa hans gætti víða ekki aðeins í heimi tónlistar heldur einnig í tískuheiminum og hann átti stóran þátt í að móta strauma og stefnu á hverjum tíma og snillingur í að endurskapa sjálfan sig. Í tónlist hans komu fram áhrif frá félögunum Bertolt Brecht og Kutt Weil, beint úr andrúmslofti millistríðsáranna ú Berlín, hann var einnig innblásinn af beat-skáldinu William Burroghs einkum þó höfuðverki hans Naked lunch. Bowie átti stóran þátt í endurvekja áhuga á verki George Orwells, 1984. Þó að tilraun hans á áttunda áratugnum til að setja á svið söngleik byggða á bókinni hafi fallið í grýttan jarðveg hjá erfingjum Orwells er ekki að efa að hann ruddi brautina fyrir kvikmyndinni 1984 með Richard Burton og John Hurt í stórum hlutverkum.

Að loknu skemmtilegu erindi Jóns kynnti Kristinn Dagur Gissurarson aðalfyrirlesara fundarins, Lúðvík Elíasson hagfræðing hjá Seðlabanka Íslands sem starfar á stöðugleikasviði bankans.

Lúðvík fór vítt og breytt yfir hlutverk Selabankans og ræddi um þau hagstjórnartæki sem bankinn hefur til að dempa sveiflur sem gerist með vaxtaákvörðunum, gengisstefnu og verðbólgumarkmiðum. Nú um stundir, þegar losun gjaldeyrishafta væri mál málanna sveiflur, lægi fyrir að bankar hefðu ekki sömu heimildir og áður þar sem Seðlabankinn hefði reist ýmsar skorður við útstreymi gjaldeyris. Lúðvík bar saman þann raunverleika sem þjóðin yrði að lifa við í dag í samhengi við veltuárin miklu fyrir hrun. Seðlabankinn er banki bankanna og því lánveitandi til þrautavara. Hann sinnir ákveðnu eftirliti með bönkum. Bankinn gætir þess að reglur um lausafé og gjaldeyrisjöfnuð séu virtar. Lúðvík fór yfir þá skoðun sína, og reyndar staðreynd, að fyrir Hrun hefði aðaláherslan verið á peningastefnuna. Þar hefðu verið sett sérstök verðbólgumarkmið og stýrivöxtum beitt til að vera sem næst yfirlýstu markmiði, sem var 2.5% . Árangur þessarar aðferðafræði var ekki góður eins og hann sýndi á grafi og minnti einnig fundarmenn á hvernig vextirnir ruku upp í aðdraganda hrunsins. Þetta stjórntæki hefði því ekki virkað í raun.

Eftir hrun sagði Lúðvík að miklar breytingar hefðu átt sér stað í Seðlabankanum. Peningastefnan endurskoðuð, sérstakar varúðarreglur settar og aukin áhersla lögð á fjármálastöðugleika. Þá fjallaði Lúðvík um það sem hann kallaði Þjóðhagsvarúð og nefndi í því sambandi skýrslu Seðlabankans til efnahags- og viðskiptaráðherra frá árinu 2012. Þar komi fram atriði sem þarfnist sérstakrar varúðar.

Niðurstaða Lúðvíks er að sú að núverandi Seðlabanki er ekki sá sami og Seðlabankinn fyrir Hrun þótt hann beri vissulega sama nafn. Menn hafi, jú, eitthvað lært af hruninu.

Að loknu erindi Lúðviks spunnust fjörugar umræður um ýmis álitamál.