Frú Vigdís heimsækir klúbbinn - Fjórir skákmenn úr Kópavogi heiðraðir.
Vigdís Finnbogadóttir
Rótarýfundurinn 5. janúar var á vegum menningarmálanefndar. Gestur fundarins var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. Fjórir skákmenn úr Kópavogi hlutu viðurkenningu frá klúbbnum.
Gestur fundarins og fyrirlesari var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. Mæting var afar góð en 33 félagar mættu á fundinn sem gerir 75% mætingu.
Áður en Vigdís hóf mál sitt greindi Helgi Sigurðsson frá afhendingu viðurkenninga í Stúkunni á Kópavogsvelli frá RKl. Kópavogs til handa fjórum ungum skákmönnum úr Kópavogi sem teflt hafa á heimsmeistaramótum ungmenna í Suður- Afríku og Grikklandi.
Helgi Laxdal kynnti Vigdísi og minntist frönskukennslu hjá RÚV á áttunda áratug síðusu aldar sem Vigdís hafði umsjón með. Kvaðst Helgi hafa heillast mjög af frammistöðu Vigdísar í þessum þáttum.
Vigdís hóf mál sitt með því að segja frá kynnum sínum og veru í Rótarý-hreyfingunni sem hún líkti við „opinn háskóla“. Vigdís fjallaði um feril sinn sem forseti Íslands og þá stöðu að vera fyrsta konan í heiminum sem hlotið hafði þá kosningu sem hafði vakið geysilega athygli um allan heim. Í þessu samhengi nefndi hún aðra áfanga í jafnréttisbaráttu kvenna; nú væru 100 ár liðin síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi og fyrir 60 árum síðan sátu aðeins tvær konur löggjafarsamkundu þjóðarinnnar og þokaðist fjöldi kvenna á Alþingi ekkiyfir þá tölu.
Vigdís sagði að kvennafrídagurinn haustið 1975 hefði verið grundvöllur fyrir framboði hennar og síðar kjöri árið 1980 og rifjaði upp lítið bréf sem birtist í síðdegisblaði þar sem stungið var upp á henni sem frambjóðenda í komandi kosningum til forseta Íslands.
Hún kvaðst lengi hafa talið 12 ár nægilegan tíma í embætti forseta eða jafn lengi og Kristján Eldjárn gengdi stöðu sinni. En þegar árin 12 voru næstum því uppurin voru sum mikilvæg mál ekki á enda kljáð og nefndi hún nokkur dæmi þar um t.d. stóra ráðstefnu kvenna í Japan.
Vigdís fjallaði um námsár sín í Frakklandi og nám í leiklistarsögu sem hefði nýst henni margsinnis í starfi og ósjaldan hefði hún gripið til þeirra sagnahefðar sem Íslendingar þekktu t.d. frá dögum Snorra Sturlusonar. Hún hefði oft kynnst því hvernig okkar sér-norræna goðafræði kallaðist á við siðmenningu og sagnahefð annarra þjóða.
Vigdís fjallaði svo um störf sín eftir að hún lét af embætti forseta árið 1996. Meðal þeirra verkefna sem hún hefur tekið að sér er að vera „velgjörðarsendiherra“ UNESCO á sviði tungumála sem eru Vigdísi afar hugleikin. Hún sagði að um 6 þús. tungumál væru til í heiminum. Horfur væru á því að helmingur þeirra hyrfi á næstu 100 árum. Það væri markmið þessarar stofnunar að sporna við því og fjallaði Vigdís um margháttuð verkefni og áætlanir sem fyrir lægu. Tveim árum síðar var hún m skipuð forseti nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem m.a. fjallar um siðfræði tengdum vísindum og notkun upplýsinga. Þá fjallaði hún um hlutverk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og fjármögnun en verið er að byggja nýtt húsnæði við Háskóla Íslands sem á að hýsa þessa stofnun sem mun sinna rannsóknum og kennslu á tungumálum.
Helgi Laxdal og Jóhann Árnason hlusta hugfangnir á Vigdísi.
Að loknu erindi Vigdísar beindu nokkrir fundarmenn spurningum til Vigdísar.
Einokun enskunnar á ráðstefnum bar á góma var rætt og ensk áhrif væru mikil og áhyggjuefni – líka hjá Íslendingum.
Hún var m.a. spurð að því hverju hún væri stoltust af þegar hún liti til baka yfir feril sinn sem forseti Íslands. Hún sagði að framboð hennar árið 1980 og kosning til embættis hefði verið mögnuð reynsla og henni hefði tekist að blása kjarki í stúlkur og konur víða um heim. Þá hefði hún í heimsóknum sínum hér á landi - án þess þó að hugsa mikið um loftslagmál eða útblástur gróðurhúsalofttegunda - gróðursett tré og plöntur víða á Íslandi og með þeim hætti gert Ísland grænna og stuðlað að bindingu jarðvegs.
Tvær glæsilegar dísir, Vigdís og Bryndís, forseti klúbbsins!
Mikið þakklæti til Vigdísar Finnbogadóttur og vinarhugur einkenndi þennan fyrsta fund ársins 2016. Að honum loknum fór forseti með fjórprófið og sleit fundi kl. 13.15.