Fréttir

18.11.2015

Klúbbþing

Rótarýfundurinn 17. nóvember var í umsjón stjórnar og á fundinum var haldið árlegt Klúbbþing Rótaryklúbbsins. Nýr félagi var tekinn inn í klúbbinn.

Fyrsta mál fundarins var kynning og inntaka nýs félaga í klúbbinn og kynnti Magnús Már hann og síðan tók forseti við og sá um önnur formlegheit. Sjá nánar í sérstakri frétt.

Ekkert þriggja mínútna erindi var flutt á fundinum.

Aðalefni fundarins var Klúbbþing, en slíkt þing var haldið fyrir rúmu ári síðan en þá hafði það ekki verið haldið lengi. Í fyrra voru sérstaklega boðaðir til þingsins stjórnarmenn og formenn nefnda og fundurinn var haldinn utan venjulegs fundartíma en almennum félagsmönnum var heimil þáttaka. Á þeim fundi fór fram svokölluð SVOT greining á klúbbnum en forseti taldi ekki ástæðu til að endurtaka það starf, þar sem lítið hefði breyst í klúbbnum sem hefði áhrif á niðurstöðuna.

Forseti fór yfir þau verkefni sem hver nefnd á vegum klúbbsins ætti að sinna og sagði að þeim þætti sem snéri að fundunum væri vel sinnt en lagði áherslu á að nefndirnar sinntu einnig öðrum málum sem þeim væru falið í reglugerð.

Á eftir inngangi forseta tóku nokkrir félagar til máls og var Helgi fráfarandi forseti fyrstur. Helgi fór yfir skiptingu klúbbfélaga með tilliti til starfsgreina og taldi þá skiptingu alls ekki slæma en nefndi þó nokkrar greinar sem vantaði fulltrúa fyrir. Má þar nefna ýmsa þætti ferðaþjónustu sem er vaxandi grein en einnig bankamál,bæjarstarfsmenn, löggæslu, ýmsar greinar heilbrigðisþjónustu o.fl. hins vegar væri klúbburinn tiltölulega velbúinn að ýmis konar tæknimönnum.  Helgi taldi að tala félagsmanna rúmlega fimmtíu eins og hún er í dag væri alveg nægileg en aldursdreifing er vandamál þar sem við þyrftum fjóra nýja félaga um fimmtugt á hverju ári til að halda óbreyttum meðalaldri og því miður hefur reynslan verið sú að okkur helst ekki nógu vel á nýjum félögum.

Helgi ræddi ennig um Viðurkenningarnefnd sem fyrst og fremst annaðist útnefningu Eldhugans en gæti einnig séð um fleiri viðurkenningar t.d. fyrir skák eða fyrir frábær erindi á fundum.

Ásgeir fór yfir þær reglur sem hefðu gilt um Eldhugann en það skyldi vera maður sem setti svip sinn á mannlíf í Kópavogi og var búseta í Kópavogi skilyrði í upphafi. Einnig var horft til þess í upphafi að menn væru heiðraðir fyrir það sem menn gáfu af sér en ekki fyrir aðalstarf sitt. Ásgeir taldi að reglurnar ættu ekki að vera ósveigjanlegar en menn skyldu túlka þær þannig að okkur væri sómi að.

Benjamín gerði tillögu um breytingu á félagatalinu í þá átt að greinilega kæmi fram við nafn hvers félaga í hvaða nefndum hann starfaði.

Kristófer sagðist hafa verið rótaryfélagi frá því um þrítugt og gerði að umtalsefni hve erfitt væri að fá unga félaga núna sérstaklega í klúbb með okkar meðalaldur.