Tilnefningar til stjórnar klúbbsins 2016-2017
Rótarýfundurinn 10. nóvember var í umsjón stjórnar. Á fundinum fór fram tilnefning í stjórn klúbbsins fyrir starfsárið 2016-2017. 3ja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson.
Þriggja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson og hóf hann erindi sitt með stuttri gamansögu sem gæti verið sönn, en hún verður samt ekki endursögð hér en í framhaldinu kom hann með tvær sögur tengdar flugi sem væru örugglega sannar enda væru margir flugmenn í hans fjölskyldu og allar sögur því frá fyrstu hendi.
Í fyrri sögunni sagði frá því að flugmenn hefðu haft áhyggjar að bremsuskilyrðum á flugvellinum og fengu það loks í gegn að keypt voru tæki frá Bretlandi til að mæla skilyrðin. Þegar svo var farið að nota tækin voru þeir ekki ánægðir með niðurstöðuna þar sem þeir töldu að raunverulegar aðstæður væru mun verri en tækin sýndu. Þegar var farið að kanna málin kom í ljós að starfsmenn vallarins höfðu sett nagladekk undir tækin.
Hin sagan var nær sviði Magnúsar sem forstjóra Sálarrannsóknarfélagsins en hún snérist um að flugmenn hefðu haft bænahring þar sem miðill var kallaður til. Miðillinn kom með sérstök skilaboð til flugmanns sem átti að fljúga til Kaupmannahafnar daginn eftir um að alvarleg bilun myndi koma upp í mótor í flugvélinni. Flugferðin út gekk vel og flugmenn skoðuðu allt sem þeir höfðu tök á fyrir heimferðina án þess að sjá neitt athugavert. Að lokum leituðu þeir til SAS og fengu flugvirkja til að yfirfara vélina. Eftir þá skoðun tjáði hann flugstjóranum að hann hefði aldrei komist á vélinni heim til Íslands í því ástandi sem hún var í.
Eftir þriggja mínútna erindið kvaddi Kristinn Dagur sér hljóðs og gerði að umræðuefni slælega framgöngu Kópavogsbæjar í málefnum Tónlistarsafns Íslands sem bærinn hefði tekið að sér að reka. Öðrum tveggja starfsmanna hefði verið sagt upp störfum og gefið út að aðstaða safnsins ætti að veri inni á Héraðsskjalasafninu. Kristinn sagði alveg ljóst að það yrði aldrei þar sem svona safn þyrfti mun meiri og betri aðstöðu en þar væri hægt að veita. Hann taldi þar með greinilegt að þarna væri algerlega röng aðferðafræði notuð sem ekki væri í samræmi við þann samning sem ríkið og bærinn gerðu þegar ákveðið var að byggja upp þetta safn. Í umræðum í framhaldinu var bent á að í Fréttablaðinu þennan sama dag væri grein eftir Hrein Valdimarsson sem gengi mjög í sömu átt og athugasemdir Kristins.
Aðalefni fundarins var tilnefning manna til stjórnarstarfa í klúbbnum árið 2016 - 2017.