Fréttir

5.11.2015

Sjúkra og styrktarsjóður verslunarmanna í Reykjavík

Ásbjörn Einarsson

Rótarýfundurinn 3. nóvember  var í umsjón Alþjóðanefndar, en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson.
Fyrirleari dagsins, Ásbjörn Einarsson formaður SSVR, sagði frá Sjúkra og Styrktarsjóði verslunarmanna í Reykjavík. 3ja mínútna erindi féll niður.

Stefán Sigurðsson kynnti Ásbjörn Einarsson ræðumann dagsins en hann á og rekur Verkfræðiþjónustu Ásbjörns Einarssonar. Auk starfa sinna hjá Verkfræðistofunni hefur Ásblörn sinnt mörgum öðrum störfum og kenndi m.a. lengi við Verkfræðideild Háskóla Íslands. Ásbjörn er kvæntur Jónu Sesselju Guðbrandsdóttur og eiga þau tvö börn: Einar Jón og Elínu Björk.


Ásbjörn sagði í erindi sínu frá SSVR sem er Styrktar- og sjúkrasjóður verslunarmanna í Reykjavík. Sjóðurinn er nú elsta starfandi líknarfélag landsins en hann var stofnaður árið 1867 og verður því brátt 150 ára. Aðdragandann að þeim félagsskap rakti Ásbjörn alveg aftur til aldamótanna 1800 og jafnvel aðeins lengra en þá var stofnað félag sem kallaðist Handelsforeningen. Eins og nafnið bendir til var aðaltungumál verslunarstéttarinnar á þessum tíma danska og samkvæmt heimildum var félagið fyrst og fremst gleðskaparfélag og efni funda félagsins að þar var etið, rabbað, spilað reykt og drukkið.

Þegar sjúkrasjóðurinn var stofnaður 1867 var reglugerð um sjóðinn á dönsku en sjóðurinn veitti fljótt mjög víðtæka aðstoð til félagsmanna og var starfssvæði sjóðsins allt Faxaflóasvæðið frá Búðum til Keflavíkur.Sjóðurinn veitti mjög mismunandi styrki og má þar nefna sjúkrastyrki, ellistyrki, atvinnuleysisstyrki, ekknastyrki og útfararstyrki. Á þennan hátt starfaði sjóðurinn fram yfir seinni heimsstyrjöld en þá tók að halla undan fæti með tilkomu lífeyrissjóða og almannatrygginga og einnig reyndust ýmsir þættir svo sem ekknastyrkurinn sjóðnum þungir þar sem konur sem fengu slíkan styrk héldu honum til æviloka.

Upp úr 1960 var nánast búið að ákveða að leggja niður sjóðinn og átti að gefa eignir hans til elliheimilisins Grundar en á fundinum sem átti að ganga frá málinu mættu félagar aðallega úr Héðni sem yfirtóku félagið og breyttu því í það form sem er á félaginu í dag þ.e. hreint líknarfélag. Félagsaðild er heldur ekki lengur bundin við verslunarstéttina heldur getur hver sem er sem vill styðja við málstað félagsins gengið í það. 

Undanfarna áratugi hefur sjóðurinn veitt marga styrki til ýmissa málefna og hefur Reykjalundur notið mjög góðs af styrkveitingum sjóðsins en einnig hafa fleiri aðilar svo sem Landsspítalinn fengið góðar gjafir. Nú er í undirbúningi hjá sjóðnum að gefa út afmælisrit vegna 150 ára afmælis félagsins.