Hvar á ný Valhöll að rísa?
Ólafur Örn Haraldsson
Rótarýfundurinn 27. október var í umsjón ferðanefndar, formaður Guðbergur Rúnarsson. Fyrirlesari dagsins var Ólafur Örn Haraldsson, Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og nefndi hann erindi sitt: Hvar á ný Valhöll að rísa á Þingvöllum? Berglind Svavarsdóttir flutti 3ja mínútna erindi
Berglind Svavarsdóttir flutti 3ja mínútna erindi. Hún gerði að umræðu efni sínu sama efni og Siv Friðleifsdóttir hafði rætt á fundinum á undan. Fyrst minntist hún á skoðanir og hugmyndir Sivjar í áfengismálum en hún var mjög andsnúin því að breytingar á sölufyrirkomulaginu og vildi að reglum um bann við áfengisauglýsingim væri fylgt fastar eftir. Berglind sagðist vera algerlega ósammála henni um sölufyrirkomulagið.
Hins vegar voru þær ekki eins ósammála þegar kom að aðalefni erindis Sifjar sem snéri að ferðaþjónustinni og nauðsyn þess að vernda náttúruna fyrir ágangi stöðugt fleiri ferðamanna. Berglind taldi að það gætti of mikillar óþolinmæði hjá fólki þegar verið væri að komast að niðurstöðu um hvaða aðferð ætti að nota við gjaldtöku af ferðamönnum. Gistináttagjaldið hefði verið slegið út af borðinu allt of snemma en það mál hefði þurft að vinna miklu betur. Hún fór síðan yfir ýmsa lögfræðilega þætti sem gerðu þetta mál erfiðara en í lögum um Almannarétt kæmi skýrt fram að almenningi væri heimil frjáls för um landið. Gjaldtakan þyrfti því að miðast við að verið væri að taka gjald fyrir veitta þjónustu en ekki fyrir að fá að fara um landið. Það einfaldaði svo ekki málið að sumar náttúruperlur væru í eigu opinberra aðila á meðan aðrar væru í einkaeign og þa´oft í eigu margra aðila sem sjaldan væru allir sammála hvernig staðið væri að málum.
Guðbergur Rúnarsson formaður ferðanefndar kynnti fyrirlesara dagsins. Ólafur Haraldsson er fæddur 1947 og voru foreldrar hans Haraldur Matthíasson og Kristín S. Ólafsdóttir bæði kennarar á Laugarvatni. Ólafur lauk stúdentsprófi frá M.L. 1968 og prófi í sagnfræði, landafræði og jarðfræði frá HÍ og meistaragráðu í skipulagsfræðum frá háskólanum í Sussex á Englandi. Ólafur hefur gengt mörgum mismunandi störfum og var m.a. alþingismaður 1994 - 2003 og Forseti Ferðafélags Íslands.Erindi sitt nefndi Ólafur "Hvar á ný Valhöll að rísa" og vildi fá skoðanir klúbbfélaga á því máli sem væri nú í ákvörðunarferli. Áður en hann ræddi það mál kom hann aðeins inn á ágang ferðamanna og aðgerðir til að hlýfa náttúrunni. Hann kom nokkuð inn á sömu hluti og Berglind ræddi þ.e. að ekki mætti taka gjald fyrir annað en veitta þjónustu. Hann benti á að lagasetning væri úrelt og taldi mikilvægt að gera breytingar á lögunum. Ólafur sagði að ekki stæði til að byggja upp breiðari veg um svæðið þrátt fyrir aukna slysatíðni sem hann sagði yfirleitt vera vegna hraðaksturs íslendinga sem færu um svæðið í öðrum tilgangi en að skoða svæðið. Hann benti einnig á hvað aðgerðir eins og stígagerð væri áhrifarík til að hlífa náttúrinni og sagði að á góðum og vel afmörkuðum gangbrautum rynni ferðamannastraumurinn eins og sauðfé eftir brautunum og færi mjög sjaldan aðrar leiðir.
Fyrirhugað er að byggja nýja "Valhöll" sem ætti þó að hafa annað hlutverk en sú sem brann því alls ekki skyldi gert ráð fyrir hótelrekstri heldur yrðu þar veitingastaður í fínni kantinum og hugsanlega kaffitería. Hann fór yfir sögu gömlu Valhallar en fyrsta byggingin reis rétt fyrir aldamótin 1900. Húsið sem brann var í upphafi reist við norðurenda Almannagjár en var flutt þannig að það var dregið á ís veturinn 1928 - 1929 að þeim stað stóð svo í 80 ár. Ólafur nefndi einar 6 tillögur að staðsetningu og sagði að VSÓ hefði verið fengið til að fara yfir tillögurnar áður en Þingvallanefnd tæki endanlega afstöðu. Arkitektinn í klúbbnum spurði hvaða vit verkfræðingar hefðu á staðsetningu mannvirkja og greip fyrirlesari tækifærið og óskaði eftir hans skoðun sem kom fram vel rökstudd að reisa skyldi nýja Valhöll á Hakinu. Nokkrar umræður voru um þetta en enginn lýsti sig mótfallinn tillögunni.
Ólafur upplýsti að þessi tillaga hefði ekki verið svo fjarri hugmyndum verkfræðinganna hjá VSÓ en þakkaði mjög vel fyrir umræðuna sem hann sagði hjálpa sér mikið í framhaldinu og mátti með góðum vilja túlka það þannig að þarna hefði staðsetningin verið endanlega ákveðin þó einhverjir stimplar og önnur formlegheit yrðu sett á ákvörðunina síðar.