Fréttir

13.10.2015

Æskulýðsmál

Árni Guðmundsson

Rótarýfundurinn 13. október var á vegum ungmennanefndar. Ræðumaður dagsins var Árni Guðmundsson, aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirmaður æskulýðs- og tómstundamála hjá Hafnarfjarðarbæ. Guðmundur Ólafsson flutti 3ja minútna erindi.

Guðmundur Ólafsson flutti 3ja minútna erindi og hélt áfram umræðunni um umdæmisþingið en hann er formaður þeirra nefndar sem mun skipuleggja þingið sem haldið verður að ári í Kópavogi. Hann sagði að hann myndi væntanlega stíga oftar í pontu á fundum klúbbsins á komandi ári en hann hefði gert áður, og lofaði að hann myndi ekki ræða um neitt annað en væntanlegt umdæmisþing. Hann tók undir þau orð forseta að þingið í Borgarnesi hefði verið vel heppnað en þar var í söguupprifjun farið allt aftur til miðalda. Guðmundur sagði að meðan hann var á þinginu hefðu ýmsar hugmyndir vaknað sem hugsanlega gætu nýst við okkar þing þó því færi fjarri að til stæði að kopiera eitthvað sem aðrir hefðu gert.

Guðmundur Þ Harðarson kynnti Árna Guðmundsson fyrirlesara dagsins sem er Uppeldis og menntunarfræðingur sem hefur hlotið sína menntun í Gautaborg , Kennaraháskóla Íslands og við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann var formaður samtaka norrænna félagsmiðstöðva UFN um 15 ára skeið, fulltrúi í Æskulýðsráði ríkisins og æskulýðs og tómstundafulltrúi í Hafnarfirði til margra ára.

Árni sagðist hafa varið allri sinni starfsæfi í vinnu við æskulýðsmál sem hann sagði að hefðu gefið sér mikið. Það hefur alltaf verið sagt að æskan sé á leiðinni í hundana en þangað er hún ekki komin ennþá þrátt fyrir margra alda spár. Í allri sinni umgengni við ungt fólk hefur hann reynt eftir mætti að verða ekki þessi leiðinlegi miðaldra karl sem maður þoldi ekki þegar maður var ungur. Þó að dómadagsspár um unglinga rætist ekki fer ekki hjá því að ný vandamál koma upp með nýrri þróun og nefndi hann hvernig einelti færðist yfir á nýtt stig með nýrri tækni á samskiptamiðlum. Hann benti þó á að orðbragð unglinganna væri þó oftast mun betra en það versta hjá þeim fullorðnu.

Árni benti á að æskulýðsstarfið hjálpaði mörgum unglingum vegna þess hvað það væri ólíkt skólakerfinu. Skólarnir raða nemendum upp í röð eftir frammistöðu í prófum, sem ekki hentar öllum. Margir einstaklingar blómstruðu í starfinu í félagsmiðstöðvunum, sem ekki hefðu almennilega náð að fóta sig í skólakerfinu.

Árni ræddi nokkuð um áfengisauglýsingar og aðgengi að áfengi og taldi óvéfengjanlegt að aukið aðgengi þýddi aukna neyslu. Hann taldi röksemdir þeirra sem vilja áfengi í matvörubúðir vera á villigötum og oft farið rangt með staðreyndir þar sem vandamál vegna unglinganeyslu væru oft meiri hjá þeim þjóðum sem hefðu farið þá leið.

Að lokum lýsti hann þeirri skoðun sinni að hann vildi færa kosningarétt niður í 15 ár.

Talsverðar umræður urðu að loknu erindis Árna..