Fréttir

29.9.2015

Eþíópía, land og þjóð

Kristján Þór Sverrisson

RótarýfundurInn 29. september var á vegum alþjóðanefndar. – Gestur fundarins og fyrirlesari var Kristján Þór Sverrisson frá Sambandi Íslenskrra kristniboðsfélaga. Erindi hans nefndist; - Eþíópía, land og þjóð. Guðmundur Lýðsson flutti 3ja mínútna erindi.

Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur Lýðsson. Hann vildi segja félögum sínum í Rótyarý frá því hvað hann hefði aðhafst síðasta árið eða svo. Þannig væri mál með vexti að fréttir hefðu borist að útigangsmenn væru farnir að venja komur sínar í hús eitt við Barónsstíg sem stæði í næsta námunda við hina frægu Simmasjoppu og leituðu jafnvel næsturgistingar þar. Við svo búið hefði ekki mátt standa og ákvað Guðmundur að ráðast í framkvæmdir við húsið enda væri það hans þinglýsta eign. Nú væri það loksins íbúðarhæft. Á ýmsu hefði gengið á framkvæmdartímanum; iðnaðarmenn lofuðu gjarnan öllu fögru en efndir ekki alltaf í samræmi við fyrirheit og tímafrestir þandir til hins ítrasta. Þannig hefðu verið handsalað milli aðila að gluggar yrðu komnir í lag rétt fyrir jólaleytið í fyrra en eftir mikið japl, jaml og fuður væri nú á haustmánuðum loks búið að vinna það verk. Guðmundur kvaðst þessa dagana vera þess albúinn að flytja inná nýtt heimili reynslunni ríkari.

Aðalerindi fundarinn flutti Kristján Þór Sverrisson frá SIK, Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga á Íslandi og bar erindi hans yfirskriftina: Eþíópía, land og þjóð. Hallgrímur Jónasson kynnti Kristján fyrir fundarmönnum. Kristján fjallaði um starf sitt til fimm ára í Eþíópíu sem hefði þá sérstöðu meðal Afríkurþjóða að hafa aldrei verið nýlenda. Kristján flutti erindi sitt með því að sýna myndir frá starfi sínu. Hann ræddi um trúarbrögð innfæddra þar sem ein megináherslan væri að bægja í burtu hinu illa og væru til þess notaðar aðferðir sem sem gengu þvert á kristin gildi. Í Eþíópíu og víðar í Afríku hefðu fórnir á ungum börnum viðgengist lengi og eitt helsta hlutverk kristna trúboðsins væri að koma dauðdæmdum börnum til hjálpar og kæmi oft gjald fyrir.

Kristján fjallaði um þann aragrúa tungumála, 100 – 200 mál með afbrigðum, sem töluð væri á þessum slóðum, útskúfun óæðri kynstofna samkvæmt ráðslagi ættbálkaveldis og ræddi einnig miklar náttúruauðlindir Eþíópíu og nefndi að háslétta landsins væri í raun ein allsherjar matarkista. Kristján taldi að ýmis tækifæri væri fyrir íslenska aðila að hasla sér völl t.d. í tengslum við jarðvarmarannsóknir og beilsun fallvatna á þessum slóðum . Hann kvaðst hafa lært eþíópska málið og stafrófið og hefði þess vegfna geta nálgast verkefni sitt með fjölskyldu sinni mun betur fyrir vikið. Oft væri hjálp trúboðsins á þessum slóðum fólgið í matargjöfum en kærleikur yrði að fylgja með þar sem fólk væri oft hart leikið og hefði orðið að þola mikið harðræði og óréttlæti.