Fréttir

12.8.2015

Leit að týndum börnum

Guðmundur Fylkisson

Rótarýfundurinn 11. ágúst var á vegum Ungmennanefndar. Ræðumaður dagsins var Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. 3ja mínútna erindi flutti Grétar Leifsson

Meginmál

Þriggja mín erindi flutti Grétar Leifsson. Hann talaði um veru sína í Rótarýklúbbi Kópavogs og að hann hefði upphaflega komið fyrir orð Guðmundar Ólafssonar. Hefði golfiðkun félaga klúbbsins komið þar nokkuð við sögu og hann hefði fyrirvaralaust snemma verið settur í að skipuleggja golfviðburð á vegum félaga. Grétar kvaðst snemma hafa komist að því að ýmsar óskráðar reglur giltu um þennan ágæta klúbb sem hann hefði smátt og smátt lært að þekkja. Hann hefði eftir nokkurn tíma komist að því að mikill félagslegur auður fælist í fjölbreyttri reynslu og margháttaðri þekkingu félagsmanna. Grétar kvaðst afar ánægður með félagsskapinn en taldi að til bóta að nýjir félagar fengu smávegis leiðsögn um starfssemina, ýmsar hefðir og sérkennilegheit þegar þeir mættu á sína fyrstu fundi.


Aðalerindi fundarins var á vegum Ungmennanefndar og kynnti Hlynur Ingason fyrirlesarann Guðmund Fylkisson aðalvarðstjóra hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu en hann sem sér nú um þann málaflokk innan lögreglunnar er varðar leit að týndum börnum.

Honum berast á hverjum degi beiðnir um aðstoð vegna stroks af heimilum eða áfangastöðum eins og t.d. Stuðlum. Af einhverjum ástæðum virðist mars vera erfiðasti mánuður ársins í þessum málaflokki a.m.k. hvað varðar fjölda tilfella.

Meðaldur þeirra ungmenna sem leitað er að er 15 ár og börn mun yngri hafa einnig margoft komið við sögu í starfi hans. Stúlkur eru í meirihluta. Ávallt liggur grunur á að þessi börn dvelji í skuggaveröld við neyslu fíkniefna, megi þar þola endurtekin kynferðisbrot svo fátt eitt sé nefnt. Þessi ungmenni - sum hver með sömu greiningar og stór hluti fanga í fangelsum landsins - og fjölskyldur þeirra sem oft á tíðum eru sundraðar og brotnar og horfa fram á þunga dóma fyrir fyrir hvers kyns athafnir sem varða við lög.

Refsirammi mála getur náð allt að 16 árum. Í flestum tilvikum eru um afar veika einstaklinga að ræða og oftar en ekki helsjúkar fjölskyldur. Guðmundur kvaðst oft þurfa að eiga við aðila sem misnota þessi ungmenni en erkitýpan, þ.e.a.s. gerandinn, sé ekki einstaklingur á miðjum aldri eins margir virðast halda og vissulega eru til dæmi um, heldur miklu frekar ungur maður að giska 23 ára gamall sem hefur í mörgum tilvikum sjálfur verið fórnarlamb og þolandi harðýðgi, kynferðisbrota og fíkniefnaneyslu. Guðmundur rakti einnig hvernig leitin færi fram og hann gæti stundum reitt á sig aðstoð vina og félaga viðkomandi aðila. Álagið væri mest um helgar. Kostnaður við hvert mál væri stundum mikill og gæti hlaupið á hundruðum þúsunda króna. 


Að loknu erindi Guðmundar voru fyrirspurnir stóðu fjölmargir upp og spurðu Guðmund ítarlega um þennan málaflokk sem hvílir þungt á mörgum fjölskyldum. Meðal þess bar á góma var mismunandi umfjöllun fjölmiðla um útihátíðir og nefndi Guðmundur t.d. að hart hafi verið sótt að Þjóðhátíðinni í Vestmanneyjum en útihátíð ,sem fram fór í Reykjavík og nefnd var Secret Solstice eða Sólstöðuhátiðin, hafi fengið mun vægari opinbera meðhöndlun.