Fréttir

28.9.2015

Kynningarstarf Rótarý

Guðni Gíslason

Rótarýfundurinn 22. september var á vegum Rótarýfræðslunefndar. Ræðumaður dagsins var Guðni Gíslason kynningarstjóri Rótarý á Íslandi. Þriggja mínútna erindi flutti Guðbergur Rúnarsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu fjallaði Guðbergur Rúnarsson um atvinnnutækifæri tengd fiskeldi í Eyjafirði. Hann hafi gert sviðsmyndir um samhengi eldismagns, verðmæta og fjölda starfa sem fengist vegna eldisins . Forsendur væru fengnar frá Noregi.
Sé miðað við 5 þús tonna framleiðslu af laxi á ári myndist 83 störf og við 20 þús tonna framleiðslu gætu myndast 322 störf hið minnsta og tekjur allt að ellefu milljörðum króna. En mikil andstaða er við fyrirætlanir um fiskeldi frá lax- og silungsveiðimönnum og veiðirétthöfum.
Fréttaflutningur er oft ónákvæmur og villandi upplýsingar bærust oft til fjölmiðla og nefndi Guðbergur dæmi þar um. Andstaða magnaðist eftir því sem veiði gengi ver og bæri ekki mikið á neikvæðri umfjöllun um þessar mundir enda væri veiði í ám landins betri en dæmi þekkjast um.
Guðbergur nefndi í erindi sínu að fiskeldi væri valkostur sem bæri að skoða fordómalaust. Þetta væri ekki orkufrekur starfssemi en gæti skapað jafnmörg störf eins og áætlað er að PCC kísilverksmiðjan á Húsavík geri án þess að miklu sé kostað til innviða.

Bergþór Halldórsson kynnti Guðna Gíslason kynningarstjóra Rótarý á Íslandi en hann var aðalræðumaður fundarins.
Guðni rakti aðkomu sína að Rótarý en hann hefði kynnst hreyfingunni strax í æsku, gengið til liðs við Rótarý og fljótlega fundið sér hlutverk innan hreyfingarinnar.
Rótarý hefði frá fyrstu tíð unnið verk sín í hljóði. Þetta er ekki montin hreyfing, sagði Guðni en hún hefði unnið að mörgum góðum málefnum og nefndi að fjáraflanir væru unnar með öðrum hætti en hjá flestum öðrum félagasamtökum. Þannig kæmi sjálfaflafé oft úr vasa félagsmanna Rótarý en sá hátttur hefði vitanlega sínar takmarkanir.
Um baráttumál á alþjóðavettvangi nefndi Guðni átak gegn lömunarveiki. Guðni taldi að nú væri sú stund runnin upp að Rótarý þyrfti að vera sýnilegri og ættu félagsmenn óhikað að nota samfélagsmiðla til að láta vita af góðum verkum.
Almennt séð væri brýnt að rétta við kynjahlutfall innan hreyfingarinnar og nefndi hann sem dæmi að Rótarýklúbburinn Borgir hefði tekist það með eftirtektarverðum hætti. Hann taldi að meðal bestu verka Rótarýklúbbs Kópavogs væri að útnefna eldhuga ársins.
Næsta stóra verkefni væri Rótarýdagurinn 27. febrúar nk. en þar er lagt til að aðal þema dagsins verði fjölmenning.