Fréttir

15.9.2015

Heimsókn umdæmisstjóra

Magnús B. Jónsson

Magnús B. Jónsson umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi var aðalfyrirlesari á Rótarýfundinum 15. september. Þriggja mínútna erindi flutti Eiríkur Jón Líndal.

Þriggja mínútna erindi flutti Eiríkur Líndal og fjallaði hann um sendiráð Íslands víða um heim og gildi þeirra fyrir landsmenn. Skiptar skoðanir væru um tilverurétt sendiráða Íslands með gagnrýnisraddir vísuðu gjarnan til kostnaðar en margoft hefði þó sannast að þau gagnast Íslendingum vel í vanda erlendis og er þá fátt tiltekið sem varðar hlutverk þeirra. Miklar umræður spryttu upp annað veifið um kostnað og rekstur húsnæðis en það kerfi sem við hefðum haldið úti áratugum saman hefði sannað gildi með ótvíræðum hætti var niðurstaða Eiríks.

Magnús B. Jónsson umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar
á Íslandi var framsögumaður þessa fundar. Hann fór vítt og breytt yfir sögu Rótarý bæði hér á landi og á alþjóða vettvangi, rakti sögu hreyfingarinnar sem er meira en 100 ára gömul og hófst upp frá Paul Harris í Chicago í Illinois- fylki og varð alþjóðleg hreyfing nokkrum árum síðar. Það gerðist í Winnipeg í Kanada og taldi Magnús ekki loku fyrir það skotið að þeir Íslendingar sem tilheyrðu fyrstu kynslóð landnema í Kanada hafi gegnt hlutverki þar, en Íslendingar nutu snemma mikils trausts á þeim slóðum. Á Íslandi var fyrsta Rótarý-félagið stofnað fyrir u.þ.b 80 árum. Í dag væru Rótarý-félagar í heiminum í kringum 1,2 milljón manns.

Magnús minnti á kjörorð hreyfingarinnar fælist í fjórprófinu en það segði eiginlega allt um hlutverk Rotary sem segja þyrfti. Það var enda haft eftir stofandanum Paul Harris að enginn ætti að ganga til liðs við hreyfinguna sem ekki væri tilbúinn til að vinna eftir kjörorðum þess. Gengi hreyfingarinnar snerist ævinlega um drifkraft hvers félaga og hvers einasta klúbbs. Grunngildin ættu að vera að fjölga félögum, gera hreyfinguna sýnilegri, efla sjóði þess sem kæmi þegar í stað fram í góðum verkum og styrkjum til einstaklinga, félagasamtaka og átaks-verkefna. Þá væri runnin upp sú stund að það þyrfti að netvæða klúbbana og hreyfinguna enn betur.

Magnús ræddi um einstök verkefni og nefndi t.d. baráttu gegn lömunarveiki sem Rótarý international hefði hrundið af stað árið 1985. Nú kæmi til viðbótar öflugt framlag frá sjóðum Bill Gates og konu hans. Þó að vel hefði tekist til með þetta verkefni sem lyki væntanlega árið 2018 hefðu komið upp tilfelli lömunarveiki upp í Afganistan, Pakistan og nýlega í Úkraínu.

Magnús minnti á slagorð Rótarý: Verum veröld gefandi. Hann ræddi ýmis vandamál sem steðjuðu að klúbbum innan Rótarý-hreyfingarinnar, t.d. hversu hægt gengi að fjölga meðlimum en nýr forseti alþjóðsamtakanna K.R. Ravindran frá Sir Lanka, einhver umsvifamesti tepokaframleiðandi í heimi, hefði sett sér það markmið að koma Rótarý-félögum upp í 1,3 milljón manns á heims vísu fyrir lok kjörtímabilsins. Víða í Asíu, einkum í Kína og á Indlandi væri fjölgun félaga mest um þessar mundir.

Grunntónninn í máli Magnúsar var að brýna félaga í Rkl. Kópavogs til góðra verka, veita viðurkenningar, taka vel á móti nýjum félögum, heimsækja aðra klúbba og sækja stórar samkomur á vegum samtakanna og minnti á að næsta haust fer fram á vegum Rótarýklúbbs Kópavogs umdæmisþing Rótarý-hreyfingarinnar.

Magnús afhenti forseta merki hreyfingarinnar m.a.oddveifu með hinu nýja slagorði en að afhendingu lokinni eða um kl. 13.15 fór forseti með fjórprófið og sleit síðan fundi.


Magnús hefur afhent Bryndísi Hagan, forseta klúbbsins, oddveifu með hinu nýja slagorði Rótarý. Á milli þeirra er eiginkona umdæmisstjóra, Steinunn S. Ingólfsdóttir.