Verðmæti til framtíðar - Landsvirkjun 50 ára
Ragna Árnadóttir
Rótarýfundurinn 16. júní var í umsjón þjóðmálanefndar. Fyrirlesari dagsins var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.
Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Páll Magnússon gest fundarins og fyrirlesara, Rögnu Árnadóttur. –
„Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar er fædd í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Árni Björn Jónasson verkfræðingur (og fyrrum klúbbfélagi hér) og Guðrún Ragnarsdóttir framhaldsskólakennari. Maður Rögnu er Magnús Jón Björnsson tannlæknir. Og eiga þau tvær dætur. Ragna lauk stúdentsprófi frá MA 1986. Embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1991 og LL.M.-gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi árið 2000. -Lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991–1995. Sérfræðingur við skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn 1995–1999. Starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2002–2003. Starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 2003–2004. Deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 2001–2002. Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 2002–2009, auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra 2006–2009. Settur ráðuneytisstjóri í sama ráðuneyti apríl–október 2008. Stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2006–2008. Settur skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu janúar 2009. Dóms- og kirkjumálaráðherra 1. febr. 2009 til 10. maí 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra 10. maí 2009 til 2. sept. 2010. Formaður fjölda nefnda og starfshópa á vegum þess opinbera sem of mikið væri að telja upp hér. Ráðin aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar 2012 og hefur gegnt því starfi síðan“.
"Verðmæti til framtíðar – Landsvirkjun 50 ára á þessu ári" var forskrift erindis Rögnu. – Staldrað við og horft um öxl en einnig fram á veginn. Haldið til haga áratuga uppbyggingu í orkumálum á Íslandi á endurnýtanlegri orku. Ragna sagði mikil tækifæri í framtíðinni þegar aðrar orkulindir ganga til þurðar. Aflstöðvar eru vatnsafls- og jarðhitavirkjanir en einnig er í vaxandi mæli horft til vindorku. Fjármögnun ríkisins réð för hér áður fyrr allt þar til samningar voru gerðir við fyrsta stórnotandann sem var álverið í Straumsvík. – Grunnur var lagður við þröngar og krefjandi markaðsaðstæður þannig að samningar við stóra notendur eru með þeim hætti að fyrst eru gerðir samningar um orkukaupin og síðan ráðist í virkjanir sagði hún.
Hvers vegna er raforka verðmæt vara – hvað hefur gerst? – Það sem gerst hefur er að endurnýtanleg orka verður sífellt verðmætari. Samkeppnishæft verð og breytt lagaumhverfi ( skv. lögum frá 2003 ) þar sem ákveðið var að Landsvirkjun yrði rekin á samkeppnisgrundvelli. Annað umhverfi sem ekki er stýrt af stjórnmálamönnum lengur sagði Ragna Árnadóttir.
Hér áður voru virkjunarákvarðanir teknar af ráðuneytinu. -Nú eru ákjósanlegir virkjunarstaðir settir í flokka skv. umhverfismati, biðflokk, nýtingarflokk osfrv.
Ragna sagði að hlutverk Landsvirkjunar væri nú breytt. Nú á að reyna að hámarka afrakstur orkusölunnar. Orkusala undir kostnaðarverði heyrði sögunni til.
Ragna sagði að sæstrengur til Evrópu væri á algjöru forathugunarstigi. -Við erum komin á kortið hjá aðilum sem vilja kaupa rafmagn á meginlandinu. Hún sagði að þessi möguleiki hefði vakið mikla athygli erlendis en ljóst að þetta þarf að skoða mjög vel. Er mögulegt að fá ásættanlegt verð fyrir raforkuna sem flutt væri úr landi með þessum hætti? – Skoða þarf einnig áhættuþætti mjög vel. Einnig áhrif á umhverfið og atvinnuuppbyggingu. -Þarna væri um að ræða annan og allt öðru vísi viðskiptavin. Ragna sagði að helsta gagnrýnin væri sú að það þyrfti orku a.m.k. 2. Kárahnjúkavirkjana til að þetta væri raunhæft. Hún sagði þetta ekki rétt, það væri t.d. til staðar gríðarlegt magn orku sem ekki væri nýtt og nefndi hún árstíðabundnar sveiflur í því sambandi sem næmu jafnvel nokkrum teravatnsstundum.
Ragna sagði að grunnrekstur Landsvirkjunar væri sterkur. Góð afkoma varð á árinu 2014 í mjög krefjandi rekstrarumhverfi. Frekari fjárfestingar ásamt því að greiða niður skuldir væru á rekstraráætlun Landsvirkjunar. Jafnframt væri gert ráð fyrir að arðgreiðslur gætu aukist á næstu árum.
Hún lauk fróðlegu erindi sínu á stóru ágreiningsmálunum - hversu mikið á að virkja og ákvarðanir um virkjanir. Hún sagði það vera ábyrgðarhluta að nýta ekki orkuframkvæmdir sem eru til staðar. Rifrildið væri ofboðslegt og oft ekki málefnalegt. – „Sátt verður að nást um nýtingu og verndun sagði Ragna Árnadóttir“.