HK og íþróttastarf í Kópavogi
Hólmfríður Kristjánsdóttir
Rótarýfundurinn 9. júní var í umsjón ungmennadefndar. Fyrirlesari dagsins var Hólmfríður Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Einarsson flutti 3ja mínútna erindi.
Þriggja mínútna erindi flutti Vilhjálmur Einarsson.
Vilhjálmur hefur verið í Skipulagsmefnd Kópavogs og var erindi hans nú í beinu framhaldi af erindinu á síðasta ári þar sem hann fór yfir áætlanir nefndarinnar. Nú eru ýmis mál komin lengra og ræddi hann aðallega um Gustsvæðið þar sem úthlutun lóða stendur yfir, en skipulagsnefnd hefur núna fengið heimildir til að ganga lengra í að setja skilmála um útlit bygginga.
Vilhjálmur er nú hættur í skipulagsnefnd og kominn í félagsmálaráð og berst nú við vandamál af allt öðrum toga.
Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar og kynnti formaður hennar fyrirlesara dagsins, sem var Hólmfríður Kristjánsdóttir.
Hólmfríður er aðfluttur Kópavogsbúi. Hún æfði siglingar með siglingafélaginu Ými áður fyrr en flutti svo í Kópavoginn árið 2000. Hún starfar sem lögmaður hjá Juris lögmannsþjónustu.
Hólmfríður er gift Braga Halldórssyni og eiga þau 3 drengi 9, 13 og 17 ára gamla sem allir æfa handbolta og fótbolta með HK.
Framan af tók hún þátt í foreldrastarfi HK, en hefur nú verið í aðalstjórn í rúm 3 ár og var auk þess formaður knattspyrnudeildar tímabundið síðasta sumar.
Hólmfríður sagði að HK væri fjórða stærsta íþróttafélag landsins en meðal þeirra sem væru stærri væri Breiðablik. Í félaginu eru starfræktar 7 deildir og eru knattspyrna og handknattleikur lang fjölmennastar.
Um 2000 iðkendur eru nú hjá félaginu undir 20 ára aldri og mikil áhersla er lögð á starf þeirra yngstu þar sem þess er gætt að hafa menntaða þjálfara í öllum flokkum og eru 4 fullorðnir íþróttakennarar með 6. og 7. flokki auk yngri aðstoðarmanna.
Til að auðvelda yngstu börnunum að komast á æfingar hefur félagið skipulagt sérstakar strætisvagnaferðir til að koma þeim að og frá æfingarstöðum.
Hólmfríður sagði að ekkert sveitarfélag á landinu gæti státað af eins góðri aðstöðu til íþróttaiðkana og Kópavogur en samt væri öll aðstaða fullnýtt þar sem betri aðstaða þýddi meiri aðsókn.