Fréttir

2.6.2015

Í krafti sannfæringar

Jón Steinar Gunnlaugsson

Rótarýfundurinn 2. júní var í umsjón alþjóðanefndar. - Sigurjón Sigurðsson kynnti gest fundarins og fyrirlesara, Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann. - Jón Steinar ræddi um bók sína "Í krafti Sannfæringar" og réttarfar á Íslandi. 3ja mínútna erindi flutti Páll Magnússon.

Páll sagði í upphafi 3ja mínútna erindi síns að þegar hann fór að velta fyrir sér hvað hann ætti að tala um kom ekkert upp í hugann,“og ég veit ekki enn hvað ég ætti að tala um“. Það er ekki óþekkt að menn haldi langar ræður án þess að vita hvað þeir vilja segja. – Ég velti fyrir mér umræðum í þjóðfélaginu. Nú eru það ekki lengur umræðustjórnmál, heldur Umræðan ( m/stórum staf ) – Það er ekki skemmtilegt umræðuefni.

Ég ætla ekki að tala um lekamálið enda hélt ég að því væri lokið, en ólíklegasta fólk heldur því vakandi með dramatískum viðtölum í fjölmiðlum.

Nú stefnir allt í stóra stopp vegna verkfalla, nóg er nú það sem orðið er og engin lausn í sjónmáli. Ég hef áhyggjur af því að margt í samningum og kröfum sem ágreiningur er um er langtíma verkefni en ekki mál til að leysa í verkfalli. –Lagasetning er ekki lausn heldur heldur skammtíma frestur sagði Páll.

Búið er að fresta í nokkra daga að leggja fram frumvarp um afnám hafta, en það höfum við heyrt áður, það er líklega brýnasta verkefnið núna auk kjarasamninganna, að vel takist til og góð samstaða ríki með lausn haftanna. Vonandi gengur betur en að ljúka störfum alþingis þetta vorið.. –Mér detta í hug ýmsir frasar sem vinsælt er að slá fram. –hvað þýðir Metum menntun til launa. Á þá að telja mánuði í skóla og greiða laun í samræmi við það, óháð hvers eðlis starfið er? Sem dæmi, á bensínafgreiðslumaður með fimm háskólagráður að hafa hærri laun en læknir? – Vinsælasti frasinn sem fólk fær að heyra þegar það er flutt til í starfi er „Breytingar eru tækifæri“.. það á að sætta fólk við breytingarnar. Að ekki sé talað um nöfnin sem stjórnmálamenn gefa sínum gæluverkefnum –„norræna velferðarstjórnin“ er vel þekkt og „Í þágu heimilanna“. –Hvort þetta breytist þegar Píratar verða komnir með hreinan meirihluta ef fram fer sem horfir, veit ég ekki. –Svo ég haldi nú áfram úr einu í annað þá sá ég að Dagur borgarstjóri vill færa hátíðahöld 17. júní til 19. júní en þá er aldarafmæli kosningaréttar kvenna, sem er jú kannski ein ástæða þess að Dagur er borgarstjóri sagði Páll. – Meirihluti samgöngunefndar alþingis vill taka skipulagsvald yfir Akureyrarflugvelli af bæjarstjórn Akureyrar, ástæðan er sú að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík vill flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Er þetta ekki dálítið langsótt, sagði Páll Magnússon að lokum.


Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Sigurjón Sigurðsson gest fundarins og fyrirlesara, Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann.

Bók Jóns Steinars, Í krafti Sannfæringar kom út s.l. haust og vakti strax mikla athygli og umræður. – Hann sagðist hafa haft þörf fyrir að segja sögu sína eftir 8 ára setu sem hæstaréttardómari. Jón Steinar sagði að margt hefði á dagana drifið á sinni lögmannsæfi enda látið í sér heyra og oft fengið óvægna gagnrýni fyrir. Hann sagði að snemma hefði lífsskoðun hans mótast, frelsi mannsins til athafna en jafnframt til ábyrgðar. Það væri og hans sannfæring að frelsið væri best fyrir samfélagið til að vaxa og dafna. – Því miður væri það svo hjá okkur að fari eitthvað úrskeiðis sé leitað að sökudólg annarsstaðar en hjá sjálfum sér. -Jón Steinar sagði að oft væri hann gagnrýndur fyrir að vera „sannfærður um skoðun sína“ sem honum finnst undarlegt – hver er það ekki, sagði hann..

Jón Steinar sagði að ein helgasta stofnun landsins, Hæstiréttur Íslands, þyrfti að vera sem mest yfir alla gagnrýni hafin og að allir Íslendingar vildu hafa þessa stofnun í lagi. Svo væri hins vegar alls ekki, vinnubrögð hæstaréttar væru með þeim hætti að nauðsýnlegt væri að stokka þar upp. –Hann hefur m.a. lagt til breytta skipun dómara í embætti, þannig að ráðherra skipi hæstaréttardómara að fengnu samþykki alþingis. Einnig að það sé alltaf fjölskipaður dómur í hæstarétti og betur vandað til dóma réttarins.- Breytinga er þörf á flestum sviðum í Hæstarétti Íslands sagði Jón Steinar og ætlar að halda áfram gagnrýni sinni og reyna að benda á breytingar sem þarf að gera þar. 

Jón Steinar sagði frá því að þegar hann sótti um starf hæstaréttardómara hefði komið í ljós að 8 af 9 dómurum við réttinn voru á móti honum og reyndu að koma í veg fyrir að hann yrði ráðinn. Sú varð hins vegar raunin og óskaði hann eftir góðu samstarfi við meðdómara sína. Ekki gekk það þó eftir sagði Jón Steinar. Hann hóf störf sem hæstaréttardómari 2004 og eftir 8 ára starf árið 2012 gat hann hætt og haldið launakjörum skv. lögum þar um. Hann kaus að gera það og sagði m.a. í kveðjuræðu sinni að hann hefði komið þar inn til þess að knýja á um breytingar, sem hefði ekki tekist, því hætti hann nú..

Jón Steinar sagðist strax í námi hafa fengið mikinn áhuga á lögfræðinni og hefði ári eftir útskrift frá HÍ verið farinn að kenna kröfurétt sem hann hefði þó ekki haft sérstakan áhuga á fyrir. Hann starfaði síðan sem málflutningsmaður frá 1975 til 2004 er hann gerðist dómari um 8 ára skeið eins og áður sagði en hefur nú hafið störf að nýju sem málflutningsmaður. Starfs sem hann sagði dínamíst. Hann varð þekktur af að hika ekki við að gagnrýna dómstóla sem hann sagði lögmenn almennt vera hrædda við að gera, þeir teldu að þeim yrði refsað fyrir í málum síðar.

Jón Steinar sagði það vera nauðsýnlegt krydd í lífið og tilveruna að skiptast á skoðunum. Hann sagðist ekki þola valdníðslu af hálfu opinberra aðila ef efni stæðu ekki til þess að beyta valdinu og að hann myndi áfram vera hávær gagnrýnandi slíkra vinnubragða hvar sem þau væri að finna..

Jón Steinar sagði að hann tjáði sig mikið, hann viðurkenndi það. -Góður vinur hans og bridge félagi, Gylfi Baldursson sagði eitt sinn við hann „Jón minn, þú þarft ekki að vera hræddur um að kafna þó þú lokir munninum“.