Pólitísk rétthugsun
Herdís Þorgeirsdóttir
Rótarýfundurinn 19. maí var í umsjón Klúbbþjónustunefndar. Formaður er Magnús Már Harðarson. - Gestur fundarins og fyrirlesari var Dr. Herdís Þorgeirsdóttir og nefndist erindi hennar, Pólitísk rétthugsun. - Þriggja mín erindi flutti Sigfinnur Þorleifsson.
3ja mín erindi flutti Sigfinnur Þorleifsson. – Hann nefndi í upphafi erindis síns þversagnir og/eða þverbresti sem væru í mannlegum samskiptum á mörgum sviðum.. Sigfinnur sagði frá dvöl sinni á hinni heilögu eyju Iona, sem er ein af Suðureyjum Skotlands og er talin vagga kristni á Bretlandseyjum. Hann sagði okkur frá því að Eurovision keppnin hefði verið haldinn á meðan á dvöl hans stóð og hefðu munkar og prestar ekki viðhaft bænakvak það kvöldið heldur frekar kyrjað Waterloo sem bar sigur úr bítum.. Einnig var konunglegt brúðkaup haldið og var öll kennsla að sjálfsögðu felld niður af því tilefni. -Sigfinnur nefndi að þetta hefði verið á dögum ´68 kynslóðarinnar og menn því almennt hárprúðir. - Það var og þannig þegar hann sem ungur prestur gekk inn kirkjugólfið í sinni fyrstu jarðarför í kirkju á Suðurlandi, að góður maður sagði svo vel heyrðist „er komin kvenprestur“.. -Sigfinnur endaði skemmtilegt og fróðlegt erindi sitt á þeim fleygu orðum – „Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið“.
Fundurinn var í umsjón Klúbbþjónustunefndar og kynnti formaður nefndarinnar, Magnús Már Harðarson fyrirlesara, Dr. Herdísi Þorgeirsdóttur;
Herdís Þorgeirsdóttir er lögmaður í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu, úr akademíu og atvinnulífi, starfar bæði hér og á alþjóðavettvangi. Hún var skipuð prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst 2004 og hefur einnig kennt við háskóla erlendis. Herdís er höfundur bóka og greina, sem hafa víða birst alþjóðlega.
Erindi Herdísar nefndi hún Pólitísk rétthugsun. Hún minnti á að í Hávamálum væri kennt að ástunda sjálfsgagnrýni. Það væri hins vegar ekki líklegt til vinsælda að gagnrýna og í mörgum löndum kveðið niður af stjórnvöldum með góðu eða illu. – Hún sagði að ofsóknir og hatursáróður væri bannaður skv. Mannréttindasáttmála Evrópu. – Málfrelsi er hins vegar algert í Bandaríkjunum. – Tjáningarfrelsið er verndað þó eitthvað sé sagt sem hneykslar. -Hún nefndi að ekki væri langt síðan það var í lögum á Íslandi að ekki mátti hallmæla embættismönnum. -Herdís ræddi jafnréttismál kynjanna og sagði frá því að þegar hún byrjaði að starfa sem blaðamaður voru konurnar ávarpaðar t.d. sem „Beauty“ eða eitthvað álíka sem ekki liðist í dag. Hún sagði það sína skoðun að heldur ómerkilegar væru nýlegar herferðir kvenna t.d. um frelsi geirvörtunnar og/eða endalausar umræður um samkynhneigð, en ekki barátta fyrir kjarna málsins sem er fátækt kvenna í heiminum..
Herdís sagði að ýmsar spurningar vöknuðu um svokallaða pólitíska rétthugsun. -Tjáningarfrelsið væri grundvöllur lýðræðisins, um það væri ekki deilt. -Það væri hins vegar mikil áróðursmaskína í mörgum löndum sem innrætti fólki svo kallaðar viðteknar skoðanir og þeir væru litnir hornauga sem andæfðu eða væru með gagnrýni á opinberum vettvangi. Slíkir aðilar væru ekki skipaðir í ýmis embætti s.s. embætti dómara. Umræðan væri þvinguð í þá átt sem talin væri pólitísk rétthugsun og gagnrýni drepið á dreif með ýmsum hætti og þar með gagnrýnni hugsun. Herdís lagði áherslu á að við ættum ekki að hlífa stjórnvöldum við gagnrýni en víða væri málum svo komið að það þyrfti miklu meira en hugrekki til að gagnrýna og nefndi hún t.d. Rússland í því samhengi. Hún sagði að auðmenn hefðu komið Clinton til valda í USA og í hans tíð hefði leiðin verið rudd fyrir stórfyrirtækin (Corporations ) að sölsa undir sig og stjórna efnahag í heiminum. Herdís taldi að þessi mikla samþjöppun væri gengin allt of langt og gæti ekki endað nema með uppreisn af einhverju tagi. Hún sagði að t.d. væru 50 milljón manns sem ekki eiga fyrir mat í Bandaríkjunum, einu auðugasta landi veraldar.
Dr. Herdís færði rök fyrir sínu máli með vísan til ýmissa þekktra fræðirita sem fjalla um lýðræðið og frelsið til að efla það.