Fréttir

29.4.2015

ADHD samtökin - Nýr félagi Viggó Einar Hilmarsson

Þröstur Emilsson

Rótarýfundurinn 28. apríl var í umsjón Þjóðmálanefndar. - Formaður er Jón Sigurðsson. - Ræðumaður dagsins var Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna. Þriggja mín erindi flutti Ólafur Tómasson.

Nýr félagi, Viggó Einar Hilmarsson var tekinn í klúbbinn. Starfsgrein hans er "viðskiptafræði - fjármál".

3ja mín erindi flutti Ólafur Tómasson. – Ólafur minnti á að fyrir 100 árum hefði hvorki verið sími né rafmagn og því hefðu bréfskriftir verið samskiptamátin. -Hann sagði að 120 ár væru frá fæðingu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Ólafur sagði frá því þegar hann ásamt skólafélögum á Akureyri fór blysför að heimili Davíðs í tilefni af 50 ára afmæli skáldsins.

Ólafur fór því næst með hið þekkta kvæði Davíðs Stefánssonar um Bréfið hennar Stínu, sem byrjar svona:

Eg skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,

og blaðið það er kryplað, og ljósið er að deyja.

En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað eg vil,

og veist, að eg er heima..

og í náttkjól meira að segja.


Þá var komið að inntöku nýrra félaga og kynnti Magnús Már Harðarson form. Klúbbþjónustunefndar nýjan félaga okkar, Viggó Einar Hilmarsson. – Eftirfarandi er ferilskrá eins og Magnús kynnti okkar nýja félaga:

Viggó er fæddur í Reykjavík 4.febrúar 1968. 

Menntun : 

Menntaskólinn á Akureyri , útskrift af náttúrufræðibraut 1988.

Háskóli Íslands B.A. Stjórnmálafræði með viðskiptafræði sem aukafag , útskrift 1994.

University of Essex , M. A. Political Economy , útskrift 1996.

Fyrri störf : 

Stundaði sjómennsku með námi , Bjartur NK og Tjaldur SH. Verkastörf í fiskvinnslu, neta gerð og almenn bankastörf að sumri.

1996 -2000 Verðbréfamiðlari Verðbréfastofan hf.

2000-2003 forstöðumaður Sjóðastýringar Búnaðarbanka Íslands.

2003-2006 Forstöðumaður Verðbréfamiðlunar Straums Fjárfestingarbanka.

2006-2008 Sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Landsbankans.

2008-2011 Ýmis ráðgjafastörf.

2012- 2015 Starfsmaður og meðeigandi byggingarfélaganna www.silfurhus.is og www.motx.is

Félagsstörf : 

Stofnaði félag Ungra sjálfstæðismanna í Neskaupsstað 1989.

Í varastjórn SUS 1991-1993. 

Aðalstjórn SUS 1993-1995.

Stjórn Sjálfstæðisfélags Kópavogs 2011-2012.

Sit í dag í stjórn Fulltrúarráðs XD Kópavogs og er í stjórn Kjördæmisráðs suðvesturkjördæmis.

Áhugamál : 

Saga , knattspyrna , skák , stjórnmál ofl.

Eiginkona Viggós er Elín Jóhannesdóttir MA í alþjóðastjórnmálum og eiga þau þrjú börn , Hilmar Óla 7 ára , Sigrúnu Önnu 5 ára og Val Ara 6 mánaða.



Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Ólafur H Ragnarsson fyrirlesara, Þröst Emilsson framkv.stj. ADHD samtakanna. – Þröstur er fæddur á Akureyri. Hann er rafeindavirki að mennt auk þess sem hann er menntaður í fjölmiðlafræðum. Hann hefur m.a. starfað hjá Pósti og síma, Ruv og Morgunblaðinu en er nú í fullu starfi hjá ADHD samtökunum.

„Skilningur skiptir máli – Stuðningur skapar sigurvegara“ Þessi eru meðal einkunnarorða okkar hjá ADHD samtökunum. Jákvæð viðhorf og skilningur eru meginforsendur þess að einstaklingur með ADHD geti notið hæfileika sinna til fullnustu. Skilningurinn og vitneskjan draga líka úr fordómu, fordómar spretta af þekkingarleysi en einstaklingar með ADHD hafa mátt búa við mikla fordóma í samfélaginu.

En hvað er ADHD? ADHD var fyrst lýst í byrjun 20.aldar en það var George Stil, taugalæknir frá London sem það gerði. Upp úr miðri 20.öldinni var talað um minniháttar heilaskaða (Minor Brain Damage) og einnig um misþroska. Það er ekki fyrr en um 1980 sem farið er að tala um ADHD / ADD og greiningarviðmið og aðferðir sem þekktust í geðlækningum voru nýtt til að greina fyrirbærið. ADHD er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt fram snemma á æviskeiðinu. Þetta sést stundum strax á leikskólaaldri en algengast er að greining fari fram í upphafi grunnskólagöngu. Röskunin getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð gáfnafari. 

ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder” eða athyglisbrest með ofvirkni. Orsakirnar eru líffræðilegar og stafa af truflun á boðefnum í stjórnstöð heilans. Erfðir útskýra 75-95% tilfella og þar af leiðandi glíma sumir foreldrar barna með ADHD einnig við röskunina þó slíkt sé ekki algilt. Aðrir þættir sem taldir eru hafa tengsl við ADHD eru áföll í meðgöngu og fæðingu, lág fæðingarþyngd og reykingar, áfengis- og vímuefnanotkun á meðgöngu. Hér er ADHD ekki skilgreint sem sjúkdómur en víða í kringum okkur er það svo. Ef við yfirfærum erlendar faraldsfræðilega rannsóknir yfir á íslenskt þýði þá má gera ráð fyrir því að um 5% fullorðinna séu með ADHD (um 1 2.000 manns) og a.m.k. 5- 7% barna sem þýðir 4.200 - 5.900 börn á Íslandi. Þetta er ekki svo lítið, 5,0-6,0% af heildarmannfjölda á Íslandi. En höfum í huga að þessar tölur gefa ekki til kynna hversu margir hafa fengið greiningu, þeir eru miklum mun færri. Þó má gera ráð fyrir því að það séu, að meðaltali, eitt til tvö börn í hverjum bekk grunnskóla með ADHD. Þar af leiðandi snertir ADHD allmargar fjölskyldur í landinu með einhverjum hætti.

Hvernig lýsir þetta sér eða birtist? Aðaleinkenni ADHD eru athyglisbrestur og ofvirkni. Einstaklingar með ADHD geta þó ýmist verið ofvirkir eða vanvirkir. Einkennin geta verið mjög mismunandi og mismikil og þau breytast með aldrinum. Þau geta m.a. verið erfiðleikar með að halda athygli við verkefni, erfiðleikar við skipulagningu, frestunarárátta, forðast verkefni sem eru flókin eða krefjast mikillar einbeitingar, týna oft hlutum, eru gleymin í athöfnum daglegs lífs, virðast ekki hlusta, eru fiktin, tala oft mikið, svara áður en spurningu er lokið, eiga mjög erfitt með að bíða eftir að röðin komi að þeim, o.s.frv.

Mun fleiri drengir en stúlkur hafa hingað til greinst með ADHD, sem orsakast að líkindum af því að hreyfiofvirkni er algengari í fari drengjanna. Fylgiraskanir eru algengar. Þeirra algengastar eru kvíðaraskanir (50%), Þunglyndi (40%) Reykingar/áfengis- og vímuefnavandi, námserfiðleikar, námsraskanir, árátta og þráhyggja, svefntruflanir, andfélagsleg hegðun, kipparaskanir (tourette) persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum.

Hverjar eru lausnirnar? Fyrir það fyrsta þarf að greina vandann en þrjár meginleiðir eru til þess. Sérhæfð teymi annast greiningar, m.a. ADHD teymi Landspítala sem tók til starfa í byrjun árs 2013 og sinnir einstaklingum 18 ára og eldri. Þroska- og hegðunarstöð, Greiningarstöðin og fleiri, sinna börnum að 18 ára aldri. Sjálfstætt starfandi sálfræðingar sinna greiningum barna og fullorðinna og sömuleiðis geðlæknar, sem eru hverfandi fáir. Hvert sem litið er, sjáum við biðlista og þeir lengjast stöðugt. Biðtími hjá börnum eftir greiningu er sums staðar 2-3 ár og fullorðnir einstaklingar geta þurft að bíða í 15 mánuði eftir fullnaðargreiningu og ákvörðun um meðferð. Við erum eftirbátar nágranna okkar hvað þetta varðar og getum gert mikið betur. En sérstaða Íslands er líka nokkur þegar kemur að ADHD og málefnum einstaklinga með röskunina. Þar nægir að nefna þróunarstarf Mentis Cura, sem sérhæfir sig í notkun heilarita til greiningar á miðtaugakerfissjúkdómum eins og Alzheimerssjúkdómi (AS) og ADHD. Þar er Mentis Cura í forystuhlutverki og eftir því tekið um allan heim. Þar er um góða viðbót að ræða en heilaritinn mun ekki í sjáanlegri framtíð leysa af hólmi hina hefðbundnu greiningaraðferð. Greiningarferlið má hins vegar trúlega einfalda og stytta í mörgum tilvikum. Lyfjameðferð getur gefið góðan árangur en algengustu lyfin sem notuð eru, eru svokölluð metýlfenydatlyf. Þetta eru dýr lyf, auk þess sem fíklar sækja mikið í þau vegna vímunnar. Það hefur sýnt sig að bestur árangur næst, til lengri tíma litið, með samþættri lyfja- og atferlismótandi meðferð, t.d. HAM (Hugrænni Atferlis Meðferð) og viðlíka samtalsmeðferðum. Markþjálfun er að sanna sig betur og betur og Mindfullness eða núvitund hefur hjálpað mörgum.

Hvernig samtök eru ADHD samtökin? Samtökin voru stofnuð 7.apríl 1988 og hétu þá Foreldrafélag misþroska barna. Það ár voru um 90 félagar í samtökunum, en nú rúmum aldarfjórðungi síðar eru félagsmenn um 2300 talsins.

Hvert er markmiðið með starfseminni? Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum. ADHD samtökin eru til húsa að Háaleitisbraut 13 og er skrifstofan opin alla virka daga. Tveir launaðir starfsmenn vinna hjá samtökunum framkvæmdastjóri í 100% starfi og verkefnastjóri í 50% starfi. Sjálfboðið starf er líka gríðarmikið, bæði stjórnarmanna og annarra. AHD samtökin halda úti heimasíðu, tveimur fésbókarsíðum, gefa út nokkur fréttabréf á ári, standa fyrir fræðslunámskeiðum fyrir foreldra og fagfólk, bjóða upp á spjallfundi og fleira.

Fjármögnun – rekstur:

Rekstur ADHD samtakanna kostar 40-50 milljónir ári.

Reksturinn er fjármagnaður með ýmsu móti.

• Félagsgjöld skila um 7%

• Styrkir einstaklinga og lögaðila skila um 40%

• Styrkir vegna einstakra verkefna skila 13%

• Opinberir styrkir, þjónustusamningur o.fl. skila um 20%

• Vörusala, námskeiðstekjur o.fl. skila um 20%.

Lokaorð:

Ómeðhöndlað ADHD hjá fullorðnum getur reynst samfélaginu kostnaðarsamt vegna fylgikvilla röskunarinnar og þess að viðkomandi leita oftar en ekki í kostnaðarsamari úrræði í heilbrigðis- og félagslega kerfinu. Þeir verða þá skjólstæðingar félagsþjónusta sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar og annarra úrræða, eru á atvinnuleysisskrá og þar fram eftir götunum.

Þá eru 20-30% fullorðinna með ómeðhöndlað ADHD einnig með andfélagslega röskun. Hún getur birst í hærri tíðni þjófnaða, innbrota,líkamsárása, notkun vopna, vímuefnasölu, vímuefnanotkunar, handtöku og fangelsisdóma.

Um 50-65% fanga á Íslandi – annar hver fangi sem afplánar refsivist, er með ADHD, oftar en ekki ómeðhöndlað þar sem notkun ADHD lyfja er bönnuð í fangelsunum.

Röskunin áhrif á lífsgæði allra sem að viðkomandi standa og má því fullyrða að greining og meðhöndlun röskunarinnar snúist um almannaheill og lýðheilsu, að ógleymdum þeim fjárhagslega ávinningi sem skapast.

Með tiltölulega einföldum og úrræðum, sem kosta einhverja fjármuni, má spara gríðarmiklar fjárhæðir til lengri tíma. Sparnaðurinn nemur að minnsta kosti fimmfalt ef ekki tífalt þeirri fjárhæð sem sett verður í slík úrræði