Ástandið í Úkraínu og Rússlandi
Rótarýfundurinn 17. febrúar var í umsjón Alþjóðanefndar. Fyrirhugaður fyrirlesari boðaði forföll með skömmum fyrirvara og þriggja mínútna erindi féll niður af svipuðum ástæðum. Stjórnin greip til þess ráðs að setja á málþing um ástandið í Úkraínu og Rússlandi.
Friðbert Pálsson formaður ferðanefndar lagði fram tilboð í ferðina til Skotlands, sem kynnt var á fundinum 3. febrúar. Í tilboðinu er miðað við að ferðin sé frá 1.-5. október en tilboðið er einnig sent félögum í tölvupósti. Fljótlega fer fram könnun á áhuga félaga á að fara í svona ferð.
Fundurinn var í umsjón alþjóðanefndar en var með nokkuð óvenjulegu sniði þar sem fyrirhugaður fyrirlesari boðaði forföll með skömmum fyrirvara og þriggja mínútna erindi féll niður af svipuðum ástæðum.
Í stað hefðbundins fundar með fyrirlesara ákvað stjórnin því að hafa málþing um ástandið í Úkraínu og Rússlandi og fá nokkra félaga til að flytja örstutt framsöguerindi og hafa síðan umræður.
Helgi Sigurðsson, forseti klúbbsins, hóf umræðuna með því að vitna á konu sem var sjúklingur hjá honum á spítalanum og var frá Úkraínu og var af úkraínskum ættum, talaði úkraínsku og leit raunar út eins og svíi. Það er hún leit nákvæmlega út eins og við ímyndum okkur það fólk sem vill slíta öll samskipti við Rússland. Hún var hins vegar algerlega andsnúin því að Úkraína hallaði sér að Vestur Evrópu og taldi að evrópubúa skorti skilning á ástandinu og hugsunarhætti fólks í Úkraínu og Rússlandi. Pútín sem væri fyrirlitinn í vestrinu væri elskaður í Rússlandi, þar sem mikill meirihluti þjóðarinnar styddi hann og teldi að honum og þjóðinni væri sýnd vanvirðing. Þá benti Helgi á að vesturveldin sem nú telja ekkert athugavert við að innlima Úkraínu inn á sitt áhrifasvæði hótuðu að beita kjarnorkuvopnum þegar rússar voru að þeirra mati komnir með of mikil ítök á Kúbu.
Næstur talaði Jón Sigurðsson og hóf mál sitt á að benda á hvað rússar og íslendingar væru í raun líkir. -Þjóðirnar hefðu samskonar minnimáttarkennd sem brytist út á svipaðan hátt í þykkju og þótta gagnvart útlendingum. Síðustu aldirnar hafa rússar og úkraínumenn lengst af tilheyrt sama ríkinu og raunar var fyrsta slavneska ríkið á þessu svæði með Kiev sem höfuðborg stofnað af væringjum á níundu öld. Í margar aldir hafa átt sér stað mikil átök milli þjóða á þessu svæði og landamæri og ríki hafa stöðugt verið að breytast og óvíða hægt að benda á landamæri sem hafa haldist óbreytt um langantíma. Rússar hafa bent á að í þessum átökum öllum hafi þeir oft á tíðum verndað Evrópu fyrir ásókn frá þjóðflokkum úr austri og eigi fyrir það inni greiða hjá íbúum V-Evrópu í stað þess að vera meðhöndlaðir sem annars flokks þjóð, auk þess sem þeir telja sig hafa lagt fram stærri skerf í síðari heimsstyrjöld en eðlilegt var.
Bergþór Halldórsson talaði um Moldóvu en hann og Helgi Laxdal voru þar síðastliðið vor. Eftir fall Sovétríkjanna varð sovétlýðveldið Moldóva sjálfstætt ríki. Fljótlega eftir sjálfstæðið fór að bera á óánægju hjá þeim sem bjuggu austan árinnar Nistru (Dnjestr) en meirihlutinn þar voru rússar. Það jók á þessa óánægju að í upphafi sjálfstæðisins voru uppi raddir meðal moldova um sameiningu við Rúmeníu eins og verið hafði fyrir seinni heimsstyrjöldina. Þær raddir þögnuðu fljótt, en það brutust út vopnuð átök í Moldóvu árið 1992 sem stóðu í 3 mánuði og enduðu með vopnahléi, sem stendur enn. Svæðið austan Nistru sem nefnist Transnistra er núna rekið sem sjálfstætt ríki með sinn eigin gjaldmiðil en þar búa nú um 700 þús. manns. Spurningunni sem var varpað fram var hvort einhver svona lausn gæti hentað í austanverðri Úkraínu.