Fréttir

6.2.2015

Ferð til Skotlands í haust

Magnús Jónsson

Rótarýfundurinn 3. febrúar var á vegum Ferðanefndar. Formaður er Friðbert Pálsson. Fyrirlesari var Magnús Jónsson, sagnfræðingur, sem sagði frá fyrirhugaðri ferð til Skotlands í haust. Þriggja mín erindi flutti Jón Ögmundsson

3ja mín erindi Jóns Ögmundssonar fjallaði um húsnæðismarkaðinn á Íslandi m.t.t. fjármögnunar og sagði hann frá reynslu sinni í vinnu fyrir Búseta. Hann sagði að ungt fólk veldi ekki sameignaformið hér á landi. Jón sagði mikla erfiðleika á fjármögnun vera viðvarandi vandamál mikils þorra fólks, strangar greiðslumatsreglur bankanna og kröfur um eigið fé stæðu húsnæðismarkaði fyrir þrifum. Hann ræddi einnig óvissuna sem stöðugt ríkir á Íslandi um verðbólguþróun og efnahagsmál sem hafi svo víðtæk áhrif á líf flestra fjölskyldna..

Fundurinn var á vegum Ferðanefndar og kynnti formaður nefndarinnar, Friðbert Pálsson fyrirlesara Magnús Jónsson sagnfræðing. Magnús er fæddur 1941 og er þekktur fararstjóri. Hann hefur auk þess kennt miðaldabókmenntir við EHÍ sem nefnd er Menning, Land og Saga. – 

Erindi Magnúsar var um fyrirhugaða ferð á vegum Ferðanefndar til Skotlands í lok september og/eða byrjun október n.k.

Eftirfarandi er tillaga Magnúsar að ferðinni sem auðvitað ræðst af þáttöku Rótarýfélaga og gesta þeirra;

1-2 dagur. Reykjavík - Glasgow - Isle of Skye

Eftir flug til Glasgow liggur leiðin framhjá Dumbarton Rock, ævafornu keltnesku virki. Ólafur hvíti, hinn mikli sækonungur og maður Auðar djúpúðgu braut virkið undir sig um 870 og hneppti óhemju marga landsmenn í ánauð, sem minnir okkur á upphaf landnáms Íslands. Leiðin liggur meðfram Loch Lomond og norður um Dalriada en á því svæði hóf Kenneth McAlpín á 9. öld baráttu fyrir „sameiningu” Skotlanlands. Í Glencoe misnotuðu liðsmenn af Campbell-ættinni sér gestrisni MacDonaldanna árið 1692, tóku alla karlmenn af lífi en ráku konur og börn út á guð og gaddinn. Úti fyrir vesturströndinni liggja Suðureyjar, þar kom Kári Sölmundarson Njálssonum til bjargar á ögurstundu. Skye er einstaklega falleg og jarðfræðilega merkileg eyja og þar koma hinar þekktu skosku ættir MacLeod og MacDonald mikið við sögu. Báðar ættirnar rekja uppruna sinn til norrænna manna og kann Leod að vera dregið af Ljótur og ættin kennd við syni Ljóts. Hinn glæsilegi Dunvegan-kastali hefur verið höfuðsetur MacLeodanna um sjö hundruð ár. Þar er safn og margir merkir gripir. Ef til vill er hið svokallaða „Fairy Flag“ hvað þekktast, og rök hafa verið færð fyrir því að þar sé komin Landeyðan, hinn frægi gunnfáni Haralds konungs harðráða. Eftir ósigur Skota gegn Englendingum við Culloden um miðja 18. öld smyglaði Flora MacDonald hinum skoska Bonnie Prince Charlie, dulbúnum sem þjónustustúlku yfir til Skye. Þaðan komst prinsinn við illan leik undan herjum Englendinga í öruggt skjól til Frakklands, en Flora var hneppt í varðhald og flutt til London. Eftir Culloden varð gríðarleg breyting á skosku samfélagi og við rifjum upp „The Highland Clearances“, þegar landeigendur hröktu leiguliða sína á brott til að geta stundað sauðfjárrækt og ullariðnað á öllu landi sínu. Enn í dag má sjá yfirgefna dali og grasigróin tún sem bera vitni um þessa sorgarsögu. Gist í tvær nætur á Skye.

3. dagur. Isle of Skye - Inverness

Á leiðinni norður skoðum við Eilean Donan kastala, höldum um skosku Hálöndin, meðfram Loch Ness, hugum að skrímslinu, við minnumst á að nyrst á Skotland, þar sem Katanes heitir, hélt Auður djúpúðga til Íslands eftir fall Þorsteins rauðs, sonar síns og Ólafs hvíta, í leit að nýrri framtíð. Á Culloden heiði var síðasta stórorusta háð á breskri grund. Skotar biðu lægri hlut fyrir herjum Englendinga og mannfall þeirra var gríðarlegt en foringinn, Bonnie Prince Charlie komst undan á flótta. Í Culloden er einstakt safn. Inverness, höfuðborg Hálandanna er í næsta nágrenni, þar stóð kastali Mackbeths og þar gistum við næstu nótt. 

4. dagur. Inverness – Edinborg

Á leiðinni suður rifjum við upp sjálfstæðisbaráttu Skota. Sól Williams Bravehart Wallace reis hátt eftir glæstan sigur á Englendingum við Stirling Bridge árið 1297 en gekk hratt til viðar eftir ósigurinn við Falkirk ári síðar. Í framhaldi af sigri Skota undir stjórn Roberts Bruce á Englendingum við Bannockburn 1314 gengu Skotar og Englendingar að samningaborðinu og sjálfstæði Skota var viðurkennt en átökum við Englendinga var síður en svo lokið. Gist í Edinborg.

5. dagur. Edinborg - Glasgow - Reykjavík

Ekið á flugvöllinn við Glasgow og flogið heim um hádegi. 

Ferðanefndin mun leggja fram kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðrar ferðar og síðan könnun meðal rótarýfélaga um þáttöku.