Landspítalinn og fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir
Jóhannes Gunnarsson
Rótarýfundurinn 27. janúar var á vegum stjórnar. - Gestur fundarins og fyrirlesari var Jóhannes Gunnarsson fyrrv. forstjóri lækningasviðs Landspítala. Jóhannes ræddi málefni spítalans og fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir, en hann á sæti í bygginganefnd. - Þriggja mín erindi flutti Jón Sigurðsson.
Í 3ja mín erindi sínu sagði Jón Sigurðsson frá Gottskálki grimma Nikulássyni sem var norskur biskup á Hólum í Hjaltadal 1496-1520. Gottskálk var af norskum aðalsættum, rak ættir sínar til Hákons gamla Noregskonungs á 13 öld sem einnig var konungur Grænlands og Íslands. Gottskálk hlaut nafngiftina grimmi fyrir harðfylgi í viðskiptum aðallega um jarðeignir fyrir biskupsstólinn. Jón sagði einnig frá Margréti Skúladóttur eiginkonu Hákons gamla, dóttur Skúla jarls sem einnig gerði tilkall til konungsdóms í Noregi.. Hann hvatti Rótarýfélaga til að kanna skyldleika sinn við Kristínu Gottskálksdóttur í Íslendingabók en rekja má þær ættir til Karls mikla sem sumir kalla föður Evrópu.
Fundurinn var í umsjón stjórnar og kynnti forseti Helgi Sigurðsson fyrirlesara, Jóhannes Gunnarsson fyrrverandi lækningaforstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss. Jóhannes er einn af mætustu mönnum í læknastétt og hefur lagt drjúga hönd á mörg framfaramál í heilbrigðismálum okkar Íslendinga. Hann situr í bygginganefnd fyrir nýjan Landspítala.
Jóhannes sagðist hafa lent í því að hætta þeirri skemmtilegu iðn að skera fólk og tekið að sér stjórnunarstörf í staðinn. Hann sagði frá stofnun félagsins „Spítalinn Okkar“ en að félaginu kemur fólk víða að úr þjóðfélaginu. Markmiðið er að knýja á um að ekki verði frekari dráttur á byggingu nýs spítala. Jóhannes sagði að við værum löngu fallin á tíma með þetta þjóðþrifamál. Aðstaða eins hún nú er stenst ekki kröfur um aðgengi sjúklinga og/eða starfsmanna t.d. að klósettum og sambýli á legudeildum er algjörlega óviðunandi.
Jóhannes sagði frá sameiningu sjúkrahúsanna og markmiðum með sameiningu þeirra sem er betri nýting og samhæfing, aukin afköst og hagkvæmari rekstur. Einnig aukinni samþætting í rannsóknum. -Þessum markmiðum verður ekki náð nema með byggingu nýs spítala -.
Hvers vegna nýjar byggingar; Aukin samhæfð starfsheild, til að standast kröfur og staðla um sjúkrahús, meiri sveiganleiki og pláss fyrir nauðsynlegan tækjabúnað. Kostnaðaráætlun fyrir byggingu á nýjum Landspítala er um 50 milljarðar króna fyrir utan kostnað við allan tækjabúnað. Jóhannes sagði miklu dýrara að velja aðra staðsetningu fyrir spítalann, það hefði verið margreiknað. – Hann sagði núverandi byggingar vera nær allar frá árunum 1955-1985 og alls ekki standast kröfur nútímans.
Jóhannes fór einnig yfir mannfjöldaþróun síðustu áratuga sem hefur verið mjög mikil. Ekkert hins vegar gert í tíma til að mæta þessari aukningu og svo er einnig fjölgun á eldri borgurum sem kallar eðlilega á auknar þarfir. -Engin fyrirhyggja hefur verið til að mæta þessum þörfum þjóðfélagsins á undanförnum allt of mörgum árum sagði Jóhannes Gunnarsson. -