Fréttir

22.1.2015

Öryggismál sjómanna og árangur af starfi Slysavarnaskólans í 30 ár

Hilmar Snorrason

Rótarýfundurinn 20. janúar var á vegum Þjóðmálanefndar. Formaður er Jón Sigurðsson. Gestur fundarins og fyrirlesari var Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og skipstjóri á skólaskipinu Sæbjörgu. Erindi hans fjallaði um öryggismál sjómanna og árangur af starfi Slysavarnaskólans í 30 ár. - Þriggja mín erindi flutti Jón Höskuldsson.

Í upphafi fundar kvaddi Guðmundur Jens Þorvarðarson sér hljóðs og sagði frá fyrirhugaðri ferð til Moskvu ef Rótarýfélagar hefðu áhuga.

3ja mín erindi flutti Jón B Höskuldsson. – Jón sagði frá reynslu sinni og fjölskyldunnar á Alzheimer sjúkdóminum og erfiðleikum sem honum fylgja einnig fyrir aðstandendur sjúklingsins. Hann las nokkrar málsgreinar úr bók um heilabilun og ræddi einnig um nýútkomna bók Sally Magnusson, þar sem hún fjallar um hvernig sjúkdómurinn fór með móður hennar.

Geir A Guðsteinsson sagði frá fyrirhuguðum Rótarýdegi sem haldinn verður laugardaginn 28 febrúar n.k. Klúbbarnir í Kópavogi standa saman að Rótarýdeginum sem verður haldinn í Smáralind. Þar verða fánar og gögn um Rótarý, auk þess verða Rótarýfélagar með sérmerktar húfur og vonast er til að félagar geti mætt og verið til staðar til að svara spurningum oþh. – Tölvupóstur verður sendur á alla félaga með nákvæmri dagskrá þegar nær dregur deginum.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Björgvin S Vilhjálmsson fyrirlesara, Hilmar Snorrason skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna og skipstjóra á skólaskipinu Sæbjörgu. Hilmar hefur æðstu réttindi skipstjóra og víðtæka reynslu sem stýrimaður og skipstjóri. Hann hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín að öryggismálum sjómanna. – Erindi hans fjallaði um öryggismál sjómanna og árangur af starfi Slysavarnaskólans í 30 ár.

Hilmar sagði að betri búnaður og upplýsingar fyrir sæfarendur auk fræðsla sjómanna um öryggismál hefði gert að verkum að sjómennska væri ekki lengur slysamesta atvinnugreinin. Það hefði einnig skapað hugarfarsbreytingu hjá sjómönnum. Hilmar sýndi okkur niðurstöður rannsókna á á hvaða tíma sólarhrings er mest slysahætta. Kemur það mörgum á óvart að það skuli vera milli kl 10 og 11 og svo milli kl 14 og 15.. Hilmar sagði að um 40 þús hefðu sótt slysavarnaskólann um borð í Sæbjörgu sem hét eitt sinn Akraborg en fyrsta Sæbjörgin var varðskipið Þór. -Akraborgin fékkst gefins til skólans á sínum tíma sagði Hilmar.

Slysavarnaskóli sjómanna heldur margskonar námskeið s.s. skv. reglugerð og alþjóðareglum, grunnnámskeið og sértæk námskeið. Hilmar sagði að ágætt samstarf væri við tryggingafélög um fræðslu um áhættuþætti oþh.