Starfsgreinaerindi
Kristinn Dagur Gissurarson
Rótarýfundurinn 13. janúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar. Formaður er Jón Emilsson og flutti hann einnig 3ja mín erindi dagsins. Kristinn Dagur Gissurarson var með starfsgreinaerindi sitt.
Jón Emilsson flutti eftirfarandi 3ja mín erindi; „Mig langar til að segja ykkur frá nokkuð skondnu atviki, sem kom uppá heima hjá mér skömmu fyrir jól. Þannig var að ég og öll fjölskylda mín vorum heima kvöld eitt og sátum inni í stofu, vorum að ræða málin eins og gengur og gerist, nema konan var eitthvað að sýsla frammi í eldhúsi, en kemur inní stofu til okkar með agnarsmáan hlut í hendinni og spyr hvort að höfum nokkuð týnt öðrum nefpúðanum af gleraugum okkar, það vantaði hvergi nefpúðann, en litla daman á heimilinu, 4 ára gömul, barnabarn mitt, og getur verið svolítið uppátektarsöm, nema hvað hún sat í fanginu á afa, þegar ég var að skoða þennan umrædda hlut, hún vildi endilega fá að skoða hann líka, ég lét hana fá púðann, hún virti hann fyrir sér og bar hann síðan að nefinu sínu og þefaði ákaft að honum og sagði að því loknu að ekkert okkar ætti þennan hlut. Þannig að þá var það bara útrætt mál, sú litla þykir nefnilega vera einstaklega þefvís á ótrúlegustu hluti, hún bókstaflega þefar af flestum hlutum, sem tengjast okkur, þetta hefur hún gert frá 2. ára aldri og það er svo skrítið að hún klikkar nánast aldrei þegar hún er látin meta hver á hvað. En svo er það daginn eftir, þá var ég að passa barnabörnin og við vorum bara ein heima. Bróðir þeirrar litlu, sem er 6 ára gamall og ég vorum að dunda okkur við að byggja eitthvað úr LEGÓ kubbum í rólegheitum, við vitum ekki fyrr en sú litla kemur hágrátandi framan úr eldhúsi og var mjög hrædd og átti mjög erfitt með að segja okkur hvað hafði komið fyrir hana, ég bað hana um að róa sig aðeins niður og reyna segja okkur hvað gerðist, loksins kom hún því skiljanlega út úr sér að hún hafi verið að þefa af einhverju og að það hafi síðan hrokkið inní nefgöngin og skorðast þar fast, það myndaðist að sjálfsögðu dálítið stressástand, um það hvernig ætti að bregðast við svona vandamáli, svo segir bróðirinn allt í einu, afi ég skal bara ná í blöðru og hann rauk strax inní herbergið sitt í blöðruleit ,en ég fór inn á bað og náði í pappír og bað þá litlu um að snýta sér kröftuglega í pappírinn, og þá kom út heilmikill hor, því að hún var ansi kvefuð og með honum kom út hluturinn, sem að hún var að þefa af, það var þá þessi sami gleraugnanefpúði, sem við vorum að spá í deginum áður, amman hafði nefnilega ekki hent honum heldur setti hann í skál, sem var á eldhúsborðinu, sú litla fann hann þar, hún vildi endilega rannsaka hlutinn aðeins betur og það tókst ekki betur til en svona. En nú er komið að því skondnasta. Hvað ætlaði bróðirinn að gera við blöðruna? Ég spurði hann að því og hvort að einhver hafi sagt honum að blaðra væri góður kostur í svona tilfelli, nei nei afi, ég var bara einu sinni, þegar ég var 5 ára gamall að blása upp blöðru og hún var orðin svolítið stór og ég hélt henni svolítið fast með vörunum og sleppti svo puttanum, sem ég hélt um stútinn með og þá fór allt loftið úr blöðrunni uppí munninn á mér og þá kom bara fullt af hor og lofti út um nefið, ég var svo kvefaður þá, þess vegna vildi ég reyna að ná hlutnum, sem fór uppí nefið á henni Bríéti systur minni, með þessari tækni, Þessi ótrúlega lýsing kom frá litlum 6 ára gömlum hugsuði, eins og ég vil kalla hann. Mér þótti þessi hugmynd alveg frábær og langaði þess vegna til að miðla henni til ykkar svona í gamni“.
Fundurinn var á vegum Starfsþjónustunefndar og kynnti Jón Emilsson, formaður nefndarinnar, Kristin Dag Gissurarson félaga okkar til að flytja starfsgreinarerindi sitt.
Kristinn Dagur sagði sér finnast eins og þetta væri einskonar busavígsla að koma í pontu og gera grein fyrir sjálfum sér. Kristinn Dagur er fæddur árið 1957, faðir hans ættaður úr Ölfusinu en móðir hans úr Húnavatnsýslu af Guðlaugsstaðaætt. Hann sagði skemmtilegar sögur af ættmennum sínum þaðan og kynnum sínum af þeim.
Kristinn Dagur sagði m.a. frá uppvaxtarárum í Kópavogi við bókalestur, frá áhugamálum sínum eins og snóker sem hann keppti í með góðum árangri. -Síðar þegar Kristinn Dagur starfaði við Blönduvirkjun lærði hann til einkaflugmanns og átti m.a. í flugvél um tíma. Svo tók hestamennska við og ferðalög á hestum víða um landið.
Þá er komið að starfsgreinaerindinu sagði Kristinn Dagur. - Hann sagðist vera hálfatvinnulaus viðskiptafræðingur í meistaranámi við HÍ í skipulagsfræðum. Hann hefur víða komið við í sínum störfum aðallega að ýmiskonar mannvirkjagerð, t.d. hjá steypustöð, hjá Mest og ýmsum öðrum byggingaverktökum við stjórnunarstörf og markaðsmál auk ráðgjafastarfa.
Kristinn Dagur sagði frá hugmynd sinni að stofna fyrirtæki um fiskþurrkun. Gekk það eftir með félaga sínum og gekk fyrirtækið vel þar til þeir misstu húsnæðið undir starfsemina, þá lagðist reksturinn af. - Kristinn Dagur beytti sér þá fyrir stofnun fiskþurrkunarfyrirtækis með aðkomu útgerðaraðila á Suðurnesjum. -Það fyrirtæki heitir Haustak og er stærst á sínu sviði á svæðinu í dag. - Þrátt fyrir frumkvöðlastarf hans átti hann ekki hlut í fyrirtækinu eftir stofnun þess.
Kristinn Dagur sagðist hafa starfað mikið að skipulagsmálum í Kópavogi síðustu misserin, hann hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum bæjarins og er m.a. í skipulagsnefnd. Hann er einnig í Kópavogsfélaginu sem beitir sér fyrir uppbyggingu menningarseturs á Kópavogstúni.
Aðspurður um skipulagsmál í Kópavogi sagðist Kristinn Dagur óttast að ef ekkert yrði að gert myndi Reykjanesbrautin skera sundur Kópavog. Hann sagði mikla gerjun í gangi í skipulagsmálum í Kópavogi víða í bænum m.a. á Kársnesi.