Fréttir

7.11.2014

Betra peningakerfi

Frosti Sigurjónsson

Rótarýfundurinn 4. nóvember var í umsjón Alþjóðanefndar. Gestur fundarins og fyrirlesari var Frosti Sigurjónsson, alþingismaður og kallaði hann fyrirlestur sinn Betra peningakerfi.- Þriggja mín erindi flutti Guðmundur Þ Harðarson.

Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur Harðarson og var umræðuefni hans Smáþjóðaleikarnir í íþróttum en þeir verða haldnir í Reykjavík fyrstu viku í júní á næsta ári. Stofnað var til smáþjóðaleikanna undir merkjum Alþjóða ólympíunefndarinnar, þar sem keppnisrétt höfðu Evrópuþjóðir með íbúafjölda innan við 1 milljón. Mótin eru haldin á tveggja ára fresti til skiptis í þáttökuríkjunum en þau hafa frá upphafi verið 8 og var fyrsta mótið haldið í San Marino 1985. Árið 2011 bættist Svartfjallaland í hópinn sem níunda þjóðin. Með mótinu á Íslandi í sumar hafa allar 8 þjóðirnar haldið mótið tvisvar og nú eru umræður um að hafa leikana á fjögurra ára fresti.

Á Smáþjóðaleikunum er keppt í 6 einstaklingsgreinum: Frjálsum íþróttum, sundi, júdó, skotfimi, tennis og borðtennis og tveim hópíþróttum: körfubolta og blaki. Auk þess hafa mótshaldarar heimild til að bæta tveimur greinum við að eigin vali en þær verða golf og fimleikar á mótinu í Reykjavík.

Sigbjörn Jónsson kynnti fyrirlesara dagsins, Frosta Sigurjónsson alþingismann. Frosti er Reykvíkingur og lauk MBA-prófi frá London Business School 1991. Frosti hefur komið víða við í sínum störfum var m.a. markaðsstjóri Tölvusamskipta, fjármálastjóri Marels og forstjóri Nýherja. Hann var einnig stjórnarformaður CCP og síðar stjórnarformaður Datamarket. 

Frosti nefndi erindi sitt "Betra Peningakerfi". Hann gagnrýndi mjög harkalega það kerfi sem notað væri á Vesturlöndum, þar sem þjóðirnar lentu aftur og aftur í því að það yrði "hrun", misalverlegt, og þær slyppu misvel frá því en taldi ástæðuna í raun vera innbyggða í kerfinu. Bankakerfi á Vesturlöndum væru þannig að hver apaði eftir öðrum án þess að gagnrýnin hugsun kæmist þar að. Hann vitnaði svo í Mervyn King fyrrverandi Seðlabankastjóra Englandsbanka sen sagði að af öllum þeim leiðum sem til væru við að skipuleggja bankastarfsemi væri sú leið sem unnið er eftir núna verst.

Í stjórnarskránni okkar eins og víðast annars staðar er talað um þrískiptingu valds í löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald. Þar taldi Frosti að bæta hefði átti fjórða liðnum við sem væri peningavald. Hann setti fram kenningu um hvers vegna svo væri ekki, og sagði að við gerð stjórnarskrár Bandaríkjanna sem flest ríki hafa tekið til fyrirmyndar hefði þetta verið tekið fyrir en að kröfu Rockefellers, sem var einn höfundanna og taldi þann þátt eiga að vera hjá einkaaðilum, var því sleppt.

Frosti fór yfir starfsemi viðskiptabankanna sem flestir litu á að væru fyrst og fremst í því að taka við innlánum og að veita lán en sagði að þeir byggju hinsvegar til yfir 90% af peningum sem væru í umferð í kerfinu. Þeir peningar eru auðvitað aðeins til í rafrænu formi en stærsti hluti viðskipta landsmanna fer fram án þess að seðlar komi við sögu. Þessi starfsemi taldi Frosti að ætti heima hjá ríkinu þ.e. í Seðlabankanum og þá hyrfi líka röksemdin fyrir því að slíta í sundur viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Hann tók þó fram að þrátt fyrir þessa skoðun sína væri hann enginn kommúnisti heldur væri hann á móti svindli. Sérstaklega væri hann andvígur því að verið væri að ljúga að og svindla á almenningi. 

Frosti sýndi línurit þar sem fram kom þjóðarframleiðsla, peningamagn í umferð og verðbólga og sagði þar sjást svart á hvítu hversu mikil blekking það væri að segja að kjarasamningar og launahækkanir væri sá þáttur sem hefði helst áhrif á verðbólgu það væri í raun aðgerðir viðskiptabankanna með stýringu á peningamagni. Það væri í eðli einkarekinna banka að auka peningamagnið í samræmi við eftirspurn og magna þannig einnabólu en draga svo saman og gera kreppurnar óviðráðanlegri.

Frosti sagðist oft halda svona fyrirlestra fyrir hópa eins og okkar en samt var á honum að heyra að hugmyndir hans um svona róttæka breytingu á peningakerfinu fengju ekki góðan hljómgrunn hjá kollegum hans á Alþingi