Fréttir

28.10.2014

Gönguferð í Himalayafjöllum

Ingveldur Ævarsdóttir

Rótarýfundurinn 28. október var í umsjón Ferðanefndar. Gestur fundarins og fyrirlesari var Ingveldur Ævarsdóttir kennaranemi og fjallaði erindi hennar um gönguferð um fjallasvæði í Nepal í Himalayafjöllum. -Þriggja mín erindi flutti Guðmundur Jens Þorvarðarson.

Guðmundur Jens Þorvarðarson flutti 3ja mín erindi. Hann sagði frá því þegar hann var í háskólanámi og keyrði leigubíl, aðallega um helgar. Hann sagði að leiðinlegustu farþegarnir hefðu verið drukknir leigubílstjórar og lögreglumenn.. Guðmundur sagði frá ótrúlegri reynslu sinni af því að taka rútupróf en prófdómararnir voru staðráðnir í að láta hann, háskólamanninn, falla á prófinu. Fóru þeir með hann í torfærur og vegaleysur og lýstu því svo yfir að hann hefði fallið á prófinu.- Sáu svo eftir öllu saman, aðallega þegar þeir áttuðu sig á hver væri faðir Guðmundar, en hann var leigubílstjóri og reyndur prófdómari. Guðmundur Jens nefndi einnig nýliðið ársþing Rótarý á Íslandi og sagði það hafa tekist fádæma vel hjá Garðbæingum og mætti margt af þeim læra.

Benjamín Magnússon kynnti fyrirlesara, Ingveldi Ævarsdóttur. Hún er 25 ára og nemi við Kennaradeild Háskóla Íslands. Hún er einnig meðlimur í Hjálparsveit Skáta.

Fyrirlestur Ingveldar fjallaði um ferð 5 félaga í Hjálparsveit skáta til Nepal í október 2013. Ferðina fóru þau á eigin vegum og til að ganga 240 km leið umhverfis Annapurna fjallgarðinn í Nepal. Eftir flug frá Íslandi um Finnland hófst ferðin í Katmandu höfuðborg Nepal. Þau dvöldu þar í 5 daga og skoðuðu þessa merku borg, þ.m.t. hofið forna þar sem búa m.a. apar sem stela öllu steini léttara en ekki má amast við. – Gönguferðin hófst svo og lá leiðin eftir löngum dal, þau gengu um 20 km dagleiðir en tóku líka af og til hvíldardaga til að venjast súrefnisminnkun sem fylgir hækkandi landslagi. -Hæsti hluti leiðarinnar í Annapurna skarðinu er 5400 metrar og þar var verulega farið að gæta súrefnisskorts. Hrísgrjónaakrar og smáþorp voru víða á leið þeirra ásamt tignarlegu landslagi fjallanna. - Dalurinn langi sem þau gengu frá Katmandu hefur þjónað um aldir sem samgönguleið milli Nepal og Indlands. Ingveldur sagði frá því að breytingar á gróðurfari hefði vakið sérstaka athygli sína sem breyttist eftir hækkandi landslagi. Barrtré voru í miklum meirihluta þegar hærra var komið. Mjög alvarlegt slys varð á þessari leið fyrir fáum vikum þegar nærri 40 manns fórust. Ingveldur sagði að aðeins væri hægt að fara um hæsta hlutann í fáar vikur á ári vegna aðstæðna, ýmist vegna snjóalaga eða þá bleytu á Monsúntímanum. -Ferð fimmenninganna tók 20 daga og er lífsreynsla sem seint gleymist sagði Ingveldur Ævarsdóttir.