Fréttir

12.10.2014

Guðmundur Jens tilnefndur umdæmisstjóri 2016-2017 á Rótarýþingi

Á Rótarýþinginu, sem haldið var í Garðabæ 10. og 11. október s.l., var félagi okkar Guðmundur Jens Þorvarðarson formlega tilnefndur umdæmisstjóri 2016-2017. Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, festi á Guðmund barmmerki, sem tilnefndir umdæmisstjórar í Rótarý bera.

Tilnefningin hófst með því að Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, bað þau hjónin Guðmund Jens og Svövu Haraldsdóttur að ganga fram og fékk Guðmundur barmmerki, sem tilnefndir umdæmisstjórar í Rótarý bera (sjá mynd að ofan).


Guðmundur Jens flutti síðan þingheimi stutt ávarp, sem hér fer á eftir:

Þingforsetar, Forseti Íslands, Umdæmisstjóri, Representatives of Rotary International, Forsetar aðildarfélaga

Kæru Rótarýfélagar og gestir.

Hér stend ég og get ekki annað.

Mér er það mikill heiður að standa hér, ásamt eiginkonu minni, á þessari stundu, sem tilnefndur Umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi starfsárið 2016 – 2017.

Mér eru efst í huga þakkir til félaga minna í Rótarýklúbbi Kópavogs fyrir það traust sem mér er sýnt með því að tilnefna mig sem Umdæmisstjóra 2016-2017 og treysta mér fyrir því ábyrgðarhlutverki.

Einnig vil ég þakka Valnefndinn það traust er hún sýnir mér með því að velja mig til þessara starfa.

Þar sem ég er aðeins starfsmaður á plani, varla kominn inn fyrir þröskuldinn  og á mikið ólært er það ekki ætlun mín að vera hér með einhverja stefnuræðu eða hvað ég hyggist leggja áherslur á í störfum mínum sem umdæmisstjóri.  Nú verður það hlutverk mitt næstu tvö ár að læra til starfans og mun ég þar njóta leiðsagnar góðra manna og kvenna.

Ég mun reyna að gera mitt besta í starfi mínu, þegar þar að kemur, til að Rótarý á Íslandi megi áfram vera sá vettvangur sem fólk er tilbúið að taka þátt í og láta gott af sér leiða og verða öllum til góðs.

Rótarý á að vera skemmtilegt.


Nokkrir félagar úr Rótarýklúbbi Kópavogs voru á þinginu og sýndu þannig verðandi umdæmisstjóra stuðning.

Taldir frá vinstri: Jón Emilsson, Guðbergur Rúnarsson, Jón Ögmundsson, Guðmundur Jens, verðandi umdæmisstjóri, Jón Höskuldsson, Jóhann Árnason, Þórir Ólafsson og Geir A. Guðsteinsson.