Fréttir

14.10.2014

Íþróttastefna Kópavogsbæjar - barna og unglingastarf

Jón Finnbogason

Rótarýfundurinn 14. október var í umsjón Ungmennanefndar. Formaður er Geir A Guðsteinsson.  Gestur fundar og fyrirlesari var Jón Finnbogason form íþrótta- og tómstundaráðs Kópavogsbæjar og ræddi hann um íþróttastefnu bæjarins og áherslu á barna- og unglingastarf.- Þriggja mín erndi flutti Guðmundur B Lýðsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Guðmundur frá því að hann hefði ungur tekið ökukennarapróf og kennt á bíl í 10 ár auk annarra starfa. Hann sagði að strákar hefðu komið til að fá bílprófið, talið sig kunna að keyra. Annað mál var hins vegar með stelpurnar, þær vildu vita allt og spurðu um ólíklegustu hluti varðandi aksturinn. „Kvenlegt eðli – þarf að segja þeim allt“ sagði Guðmundur. Hann kenndi m.a. gamalli konu að aka bíl, allt gekk vel þangað til kom að prófi þá var hún svo taugaveikluð að allt stefndi í óefni. Guðmundur fékk þá prófdómara til að taka niður höfuðfatið og láta eins og hann væri bara tekinn upp í bílinn. Prófið gekk þá ljómandi vel hjá konunni, án nokkurra vandræða.

Guðmundur sagðist telja að mikil vitneskja og þekking væri til staðar meðal klúbbfélaga og því þyrfti ekki alltaf að fá utan að komandi fyrirlesara.

Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar, Geir A Guðsteinsson form kynnti fyrirlesara, Jón Finnbogason formann íþrótta- og tómstundaráðs Kópavogsbæjar. Jón er varabæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins en starfar sem forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni hf. og er jafnframt staðgengill framkvæmdastjóra. Hann hefur áður starfað m.a. hjá Íslandsbanka og verið forstjóri Byr hf. hann hefur starfað á fjármálamarkaði frá 1998. Jón Finnbogason er lögfræðingur að mennt. Hann var um langt árabil einn helsti forustumaður Gerplu og þjálfari hjá félaginu. Jón er kvæntur Lindu Björk Logadóttur og eiga þau fimm börn.

Erindi Jóns Finnbogasonar fjallaði um Íþrótta og æskulýðsstarf í Kópavogi.

Fram kom að 21 íþróttafélag væri í Kópavogi en mikið starf væri hjá stærstu félögunum, Breiðabliki, HK og Gerplu. Hann gat þess að stærstur hluti landsliðs kvenna í hópfimleikum kæmi frá Gerplu en þær ætla að reyna að verja Evrópumeistaratitil sinn í hópfimleikum nú í vikunni. Jón sagði að bókfærðar eignir Kópavogsbæjar í íþróttamannvirkjum væru um 9 milljarðar króna. Nýting þessara mannvirkja er nánast 100% seinnipart dags og á kvöldin en bjóða þyrfti t.d. eldri borgurum og/eða annari heilbrigðri starfsemi afnot af þessum mannvirkjum á öðrum tíma dagsins. Hann lýsti yfir ánægju yfirvalda í bænum með samstarf við önnur sveitarfélög ( Garðabæ ) sem tekist hefði mjög vel t.d. hjá hestamönnum með Hestamannafélagið Sprett og hjá golfurum í GKG.

Taldi Jón að efla þyrfti samstarf íþróttafélaganna en frumkvæði þyrfti að koma frá þeim. Nefndi hann t.d. ágætar rútuferðir á vegum félaganna Breiðabliks, HK og Gerplu en samstarf um þessar ferðir væri hins vegar ekki til staðar en með því væri hægt að auka hagkvæmni og minnka kostnað. Jón sagði að því væri ekki að leyna að átök væru í bænum milli stærstu íþróttafélaganna þ.e. Breiðabliks og H.K. – Hvernig á skiptingin að vera í bænum? Þetta varðar líka mannvirkin og aldursamsetningu osfrv. Jón sagði að nauðsynlegt væri að setja skýrar reglur og gagnsæjar um öll þessi mál. – Við erum með glæsilegustu íþróttamannvirki landsins en þegar litið er til framtíðar þyrfti að bjóða öðrum aðgang að þessum mannvirkjum á vissum tímum þótt stærstu félögunum væri falinn rekstur þeirra.

Jón sagði að stefnt væri að því að gera Íþróttahátíð Kópavogs opnari og sýna þannig bæjarbúum árangur afreksfólks í íþróttum á fjölmörgum sviðum. - Hann sagði að þótt starfið í stærstu félögunum væri áberandi væri ekki síður unnið mikilsvert starf í öðrum íþróttafélögum í bænum.