Fréttir

8.10.2014

Kúluskítur í Mývatni

Haraldur Rafn Ingvason

Rótarýfundurinn 7. október var á vegum Menningarmálanefndar. Formaður er Sævar Geirsson. -Fyrirlesari, Haraldur Rafn Ingvason líffræðingur, sagði frá rannsóknum á Kúluskít í Mývatni. - þriggja mín erindi flutti Guðbergur Rúnarsson.

Þetta var tímamótafundur, því kona stýrði fundi í fyrsta sinn í 53ja ára sögu klúbbsins.

Í fjarveru forseta stýrði varaforseti Bryndís H Torfadóttir fundinum. Þetta voru ánægjuleg tímamót, því aldrrei áður hefur kona stýrt fundi í Rótarýklúbbi Kópavogs!


Á myndinni frá vinstrI: Berglind Svavarsdóttir, gjaldkeri - Hallgrímur Jónasson, ritari - Bryndís varaforseti - Helgi Ólafsson, stallari og Haraldur Rafn Ingason, fyrirlesari dagsins.


Þriggja mín erindi flutti Guðbergur Rúnarsson og nefndi hann erindi sitt; - Það er allt gott að frétta úr fiskeldinu á Íslandi.

„Eldið er að aukast, fjárfestingar eru í góðum gír og umfjöllun um fiskeldi hefur snarbreyst til hins betra. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að Stolt-Nielsen samsteypan Norska, myndi fjárfesta á Reykjanesi í eldi á Senigal flúru eða að pólskur athafnamaður fjárfesti í eldi á regnbogafiski með framlagi uppá 25 milljónir evra sem samsvara 4 milljörðum íslenskra króna. 

2003 fór ég vestur til að skoða þorskeldið fyrir vestan. Þá var þar heldur aumlegt um að litast. Húsin á Patró máttu muna betri tíð. Á leiðinni út Selárdal í Arnarfirði liggur leiðin í gegnum Bíldudal. Það var drungi yfir þorpinu og flutningabíll var við eitt húsið og fólk bar út búslóð í bílinn. Í bakaleiðinni, mörgum klukkustundum seinna var flutningabíllinn enn í þorpinu og enn var verðið að bera búslóð út í bílinn. Enga sjoppu fundum við á staðnum og bensínstöðin var lokuð. Það fyrsta sem skaut upp í kollinum á mér var „Hvað verður um þetta þorp. Er þetta búið?“ Yfirbragð þorpsins í Tálknafirði var mun betra og þar tjölduðum við. Vinnsla var í frystihúsinu, þorskeldiskvíar á firðinum, bleikju- og silungseldi brostu við okkur við komuna í þorpið og dittað var að húsum og ungmenni við hreinsunarstörf.

Sumarið 2013 fór ég vestur. Þá hafði staðan heldur betur breyst. Við komuna á Bíldudal var verið að skipa út hjá Kalkþörungaverksmiðjunni. Hjá Arnarlaxi hitti ég framkvæmdastjórann og hann sagði mér frá áformunum um að setja út laxaseiði vorið 2014 og uppsetningu á bitaverksmiðju fyrir laxaafurðir í neytendapakkningar. Nú, 250.000 laxaseið fóru í sjókvíar í vor og svipað magn fer núna út í haust. Bitaverksmiðjan er komin á Bíldudal og til stendur að byggja 3000 m2 húsnæði yfir hana þegar fram líða stundir. Slátrun hefst síðsumars 2015. Reiknað er með að 150 störf verði til á Bíldudal þegar laxeldið er komið í fulla stærð. Nú þegar hafa nokkrar fjölskyldur flutt vestur á Bíldudal og nú eru á Bíldudal t.d. þrennir tvíburar sem er nokkuð merkilegt. 

Umsvifin í fiskeldi aukast jafnt og þétt á Vestfjörðum. Á Tálknafirði eru starfstöðvar helstu fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Dýrfiskur sem er að byggja 15,000 fermetra seiðastöð í þremur húsum og Arnarlax með umfangsmikið seiðaeldi á Tálknafirði, Fjarðalax með laxeldi og þjónustustöð og Tungusilungur með eldi og vinnslu á bleikju og silungi á staðnum auk smærri aðila með þorsk- og kræklingaeldi.

Fjarðalax er komið lengst í sjókvíaeldi. Þeir hófu uppbyggingu sjókvíaeldis árið 2010 og hafa hafið eldi á fjórðu kynslóð laxa í sjókvíum. Fjarðalax framleiða nú rúm 3000 tonn á ári í þremur fjörðum; Patreksfirði, Tálknafirði og Fossfirði í Arnarfirði og eru með vinnslu á Patreksfirði.

Nú þegar eru starfandi 150 manns við fiskeldi á suðurfjörðum Vestfjarða. Mesta fjölgunin er frá 2010 en segja má að þá hafi orðið viðsnúningur í atvinnulífinu á svæðinu. Öll stærri fyrirtækin fyrir vestan stefna á 10.000 tonna eldi. Þessi fyrirtæki eru: Fjarðalax, Arnarlax, Dýrfiskur og Hraðfrystihúsið Gunnvör. Ef þessi áform ganga eftir, sem ég hef fulla trú á, verður framleiðslan í eldisfisk orðin 30 til 40 þúsund tonn eftir fáein ár fyrir vestan.

Á Austfjörðum er eldi á regnbogasilungi í Berufirði. Slátrun er hafin á Djúpavogi og framleiðslan mun aukast jafnt og þétt á næstu árum. Tvö helstu fyrirtæki í fiskeldi eru; Fiskeldi Austfjarða með aðstöðu í Berufirði og Fáskrúðsfirði og Laxar með leyfi í Reyðarfirði en þeir setja út seiði í sjókvíar vorið 2015. Miklar væntingar eru gerðar til fiskeldis fyrir austan og vona menn að þróunin verði svipuð og fyrir vestan.

Gefin hafa verið út rekstrarleyfi fyrir 43 þúsund tonnum í fiskeldi og fyrir liggja umsóknir um önnur 40 þúsund tonn hjá opinberum aðilum. Reikna má með afgreiðslu hluta þeirra leyfa síðsumar eða haustið 2015“



Fundurinn var í umsjón Menningarmálanefndar, formaður er Sævar Geirsson, sem kynnti fyrirlesara, Harald Rafn Ingvason líffræðing.

Haraldur lauk MS prófi í líffræði með rannsóknarverkefninu „Fæðuvistkerfi fyrir Slæðumýs í Mývatni“. –Haraldur er auk þess með sportköfunarréttindi, skipstjórnarréttindi f 30 tonn, fyrir seglbáta svo og vélstjórnarréttindi smábáta. -Að loknu námi hóf hann störf hjá Líffræðistofnun HÍ, aðallega að rannsóknum við Mývatn auk margskonar vettvangsvinnu. Hann hefur einnig sinnt kennslu í dýrafræði og vistfræði og verið sjómaður. Haraldur starfar nú á Náttúrufræðistofnun Kópavogs. 

Erindi sitt nefnir Haraldur. - Kúluskítur í Mývatni – upp á líf og dauða -.

Mývatn er 4. stærsta vatn landsins 37 km2, meðaldýpt vatnsins er ca 3 m. Vatnið er ísi lagt í u.þ.b. 190 daga ársins. -Mývatn er afar frjósamt en hins vegar eru miklar sveiflur í lífríki þess, straumar vegna vindvirkni eru að sumarlagi og sjá til þess að vatnið endurnýjar sig en að vetrarlagi snýst dæmið við, ís og snjór loka fyrir birtu og strauma..

Samspil lífvera og umhverfis í vatninu, -Rykmý eru einkennisdýr Mývatns (100-150 þús pr/m2). -Fjöldi lirfa er ca ½ millj. pr/m3. -Krabbalífverum fækkar mikið við að vatnið grynnist eins og raunin er nú..

Saga Kúluskítsrannsókna við Mývatn hófust 1977 þegar þörungurinn „fannst“, við upphaf langtímarannsókna við vatnið. – Hann hafði verið vel þekktur af heimamönnum lengi og frá þeim er nafnið komið. Straumhvörf verða svo árið 1999 þegar japanskur Kúluskítssérfræðingur kemur til Mývatns. Þá verða töluverðar rannsóknir og kortlagning í framhaldinu. – 

Kúluskít hnignar /fækkar svo ört með árunum og árið 2010 er ekki lengur hægt að veiða hann nánast blindandi og svo við skoðun árið 2012 sáust aðeins „fáeinir“ í stað milljóna áður.

Dánarvottorð Kúluskítssamfélagsins í Mývatni var svo gefið út vorið 2014..

Hvað er svo Kúluskítur? > Þörungategund sem vitað er að finnst í Japan og Úkraníu auk Íslands. ( þetta eru lönd þar sem hans hefur verið leitað ) Auk Kúluskíts eru Vatnadúnn og skófir, þörungar sem nefnast Vatnaskúfur í Mývatni og sem vex nokkuð víða á Norðurhveli jarðar.

Kúluskítur myndast sem smáir dúskar á steinum. Ekki er þörungurinn aldursgreinanlegur. Kúluskítur þarf birtu og næringu til að þrífast ásamt smá ölduhreyfingu, hann vex út frá miðju og ekkert er í miðju hans og því er hann grænn í gegn. Þótt Kúluskítur rifni tekur það hann bara smá tíma að lagast aftur í sama form. - Kúluskítsbreiður voru á Mývatni, en þróun þörungabreiðunnar hefur gengið upp og niður (sbr mælingar 1963-2000) 

Ástæður hnignunar Kúluskíts í Mývatni. > Nokkrir samverkandi þættir – mjög gruggugt v/lirfu – næringarefni þörunga – set botnfellur og felur myndun – birtuskortur og e.t.v. fleira…

Haraldur sagði aðspurður að Kúluskítur gæti fundist í fleiri vötnum á Íslandi ef eftir væri leitað. - Erindi Haraldar Rafns Ingvasonar var afar fróðlegt og skemmtilegt um þetta sérkennilega náttúrufyrirbrigði sem Kúluskítsþörungurinn er.



Haraldur kom með sýnishorn af kúluskít og á myndinni má sjá Bryndísi varaforseta og Helga stallara horfa hugfangin á fyrirbærið.