Fréttir

30.9.2014

Sólin og norðurljósin

Gunnlaugur Björnsson

Rótarýfundurinn 30. september var á vegum Alþjóðanefndar. Gestur fundarins var Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans.

Forseti kynnti fyrirlesara Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing sem hann sagði vera einn okkar fremsta vísindamann en einnig lífskúnstner og húmorista.

Erindið nefndi Gunnlaugur „Sólin, Sólvindar, Norðurljós og áhrif þeirra á lífið á jörðinni“.

Sólin snýst um sjálfa sig á 27 dögum. Dökkir blettir sem stundum sjást á sólinni eru „kuldablettir“ þ.e. hitastig í þeim er um það bil 4000 stig í stað 6000 stiga sem er hitinn á yfirborði sólarinnar. 

Sólgos er rafgas kannski 1. milljón gráðu heitt sem þeytist frá sólinni og geta stórgos haft veruleg áhrif á mannlífið á jörðinni; -Valdið miklum rafmagnstruflunum ( spennar eyðileggjast m.a. ), einnig fjarskiptatruflunum og svo geta gerfitungl farið út af brautum sínum ofl. -Því eru vísindamenn að leggja mikið upp úr að lesa úr þessum sólgosum, spá fyrir um þau og finna viðbrögð við þeim.

Sólvindurinn er straumur rafhlaðinna agna frá sólinni. Hraði þeirra um 500 km/sek.

Norðurljósin stjórnast af sólinni og sólvindum frá henni og eru í 100 – 400 km hæð. Þau eru hraðfara segulstraumar, oft með fögrum litbrigðum. Grænn er algengasti litur Norðurljósa (súrefni) en síðan rauður (köfnunarefni). - Suðurljós eru við Suðurskautið með nákvæmlega sömu virkni og við Norðurskautið. 

Gunnlaugur sagði frá segulmælingastöðinni í Leirvogi en samspil sólar og segulsviðs sem mælt er þar, er sent út í línuriti sem aðilar í ferðaiðnaði nota mikið og fylgjast grant með grafinu, enda segir það til um líkindi á Norðurljósum. Vísindamenn reyna að kortleggja segulstrauma í háloftunum. - Bæði Japan og Kína hafa komið upp mælitækjum í þessum tilgangi hér á landi ( Augastöðum og Kárhóli ) og eru að auki með svipaðar mælingar á Suðurskautinu.