Heimsókn umdæmisstjóra
Guðbjörg Alfreðsdóttir
Rótarýfundurinn 23. september var í umsjón stjórnar. Guðbjörg Alfreðsdóttur, umdæmisstjóri Rótarýumdæmis 1360, heimsótti klúbbinn.
Þriggja mín erindi flutti Geir A Guðsteinsson og nefndi hann erindi sitt; „Lífið er saltfiskur"
Fjórðungur gjaldeyristekna þjóðarinnar kemur frá sjávarútvegi. Margir hafa tekjur af störfum við sjávarútveg, ekki síst íbúar á Snæfellsnesi og þar er hlutfall sjómanna af heildaríbúatölunni býsna hátt enda byggir atvinnulífið á landsbyggðinni á sjósókn og vinnslu sjávarafurða að stórum hluta. Sjávarútvegurinn er í dag á ofboðslega skemmtilegum tímapunkti þar sem þróun í afurðum er að skila okkur gríðarlega auknum tekjum. Þar má m.a. vísa í öra þróun í framleiðslu á lækningavörum og lyfjum úr afurðum á borð við slóg, rækjuskel, þörungum og roði, sem fyrir skömmu þóttu verðlaus úrgangur. Öll takmörkun á fjárfestingagetu sjávarútvegsins hefur áhrif á þetta. Ef við setjum þetta í samhengi og tökum veiðigjöldin eins og þau eru lögð á núna fyrir þetta ár og reiknum það upp og hugsum um sjávarútveginn bara eins og aðrar atvinnugreinar, sem við eigum að gera, þá er venjulegt fyrirtæki að greiða 20% í tekjuskatt. Ef við reiknum tekjuskattinn sem útgerðin greiðir og leggur veiðigjöldin ofan á útgerðarhlutann þá er sjávarútvegurinn að greiða um það bil 60% í tekjuskatt. Þetta hlýtur að hafa áhrif á vaxtarmöguleika sjávarútvegsins. Nauðsynlegt er að þjóðin setji ekki fjárfestingar í sjávarútvegi í þannig skorður að hann geti ekki áfram verið það flaggskip sem hann er í dag í alþjóðlegu samhengi. Sjávarútvegur myndi nú þegar skila samfélaginu miklum tekjum og hann ætti að fá að njóta sannmælis um það og í tengslum við allar aðrar greinar. Umræðan um veiðigjöldin á að snúast um aðferðarfræði, þannig að sjávarútvegurinn fái að dafna og skila þjóðarbúinu sem mestum tekjum. Við búum við ein fengsælustu fiskimið heims og státum okkur af besta fiski í heimi, hvorki meira né minna. Þess vegna eigum við að gefa sjávarútveginum aukin sóknarfæri, ekki skattleggja hann svo að endurnýjun sé illframkvæmanleg. Nú bendir hins vegar til að aukin sóknarfæri séu í spilunum og það má ekki síst merkja á því að nýsmíði fiskiskipa er að aukast, að vísu erlendis. Í Sölku Völku segir Halldór Kiljan Laxnes; -Þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram allt saltfiskur en ekki draumaríngl.
Forseti bauð Guðbjörgu Alfreðsdóttur umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi velkomna. Guðbjörg sem er lyfjafræðingur að mennt og hefur verið öflugur rótarýfélagi í Rótarýklúbbnum Görðum til margra ára. -Góð kynning er á Guðbjörgu á rótary.is.
Guðbjörg lýsti yfir ánægju með að vera gestur Rótarýklúbbs Kópavogs, greinilegt að um góðan og metnaðarfullan klúbb væri að ræða. Guðbjörg fór yfir fyrir hvað Rótarýhreyfingin stendur og einkunarorð hennar; „Service above Self“ eða „Þjónusta ofar eigin hag“.
Hún sagði frá alþjóðaforseta Rótarý 2014 - 2015, Gary C.K. Huang frá Taiwan og sérstökum áherslum hans fyrir starfsárið og einkunnarorð „Light up Rotary“ sem á íslensku er „Vörpum ljósi á Rótarý“: -Fjölgun félaga, - Sérstakur Rótarýdagur á árinu, - Naflaskoðun á klúbbstarfinu hjá hverjum og einum Rótarýklúbbi og Rótarýsjóðurinn, sem hefur framlengt Polio Plus (lömunarveiki) verkefnið til 2018 eru helstu áherslur alþjóðaforsetans og hann hvetur klúbbana til að leggja verkefninu lið með framlagi pr félaga áfram.
Guðbjörg gat þess að Rótarý á Íslandi hefði greitt um USD 800.000,- til Rótarýsjóðsins. Hún sagði frá nýjum möguleikum klúbba til að sækja um styrki til Rotary International til sérstakra verkefna.
Guðbjörg sagði frá stofnun Rótarý sem var í Chicago í Bandaríkjunum 23. febrúar árið 1905. Stofnandi sem kunnugt er Paul P. Harris. Rótarýfélagar í heiminum eru nú u.þ.b. 1.2 milljónir. Aðalskrifstofa samtakanna er í Evanston, Illinois en Evrópuskrifstofan er í Zurich í Sviss.
Á Íslandi eru nú 30 starfandi klúbbar og félagar alls 1250. Guðbjörg sagði frá markmiðum sínum á starfsárinu sem væri að fjölga rótarýfélögum m.a. með því að stofna nýja klúbba. Gera rótarý sýnilegra m.a. á Rótarýdaginn sem ákveðinn er þann 28 febrúar 2015. Þann dag myndu rótarýklúbbarnir hver í sínu nær umhverfi standa fyrir uppákomum og kynningum. Guðbjörg hvetur alla klúbba til að standa saman um að greiða 100 dollara pr félaga til Rótarýsjóðsins og efla þannig alþjóðastarf Rótarýhreyfingarinnar.
Hún sagði frá komandi umdæmisþingi sem haldið verður í Garðabæ 10. og 11. október n.k. en mikill metnaður er lagður í að gera þingið glæsilegt af félögum okkar í Garðabæ. Hvatti hún alla til að mæta. Vísast til að skráning er hafin á netinu en einnig hægt að hafa samband við skrifstofu Rótarý á Íslandi til að skrá sig. Einnig sagði hún frá að alþjóðaþing Rótarý yrði haldið í Sao Paulo 6. – 9. júní 2015.