Fréttir

11.9.2014

Klúbbþing Rótarýklúbbs Kópavogs

Fyrsta formlega klúbbþingið í langan tíma

Klúbbþing var haldið þann 11. sept 2014 á hefðbundnum fundarstað klúbbsins, Cafe Atlanta, Hlíðarsmára 3, Kópavogi.

Forseti setti þingið og ræddi „Af hverju klúbbþing?“ sem er haldið til að efla og tryggja gott klúbbstarf. – Hann fór yfir fyrirhugaða dagskrá þingsins.

Hallgrímur Jónasson ritari stjórnar fór í stuttu máli yfir aldursdreifingu klúbbfélaga og þörfina fyrir nýja félaga. Aðeins 5% eru konur en meðaltalið í umdæminu er 24%. – Eiríkur J Líndal f.h. Klúbbþjónustunefndar ræddi stöðu starfsgreina hjá klúbbnum og laust væri fyrir t.d. iðnaðarmenn, fjölmiðlamenn ofl. en aðalmálið væri að fá gott fólk. Hann taldi að e.t.v. ætti að bjóða konum saman í klúbbinn, þeim þætti það flestum þægilegra. Góðar umræður sköpuðust um þessi mál t.d. að bjóða 10-15 manns á fund til sjá og kynnast fundum okkar og fróðlega fyrirlestra sem þar eru. - Ásgeir G Jóhannsson ræddi um að til að efla klúbbstarfið og samstöðu félaga þyrftu/ættu nefndir að koma saman til funda, það þyfti að efna til leikhúsferða oþh eins og áður var gert. Hann vildi að fleiri bæjarfulltrúar væru í klúbbnum en almennt að vera með opinn huga gagnvart nýjum félögum. Ásgeir sagði frá umdæmisþinginu sem haldið var í Kópavogi 1996 þegar hann var umdæmisstjóri.

Ingólfur Antonsson form Fræðslunefndar fór yfir Rótarýstarfið á alþjóðavettvangi. Hann talaði um að það væri gaman að koma á fundi klúbbsins og mikið væri um góða og fróðlega fyrirlestra. Hins vegar væri erfitt að fá fólk til að koma og til þess lægju ýmsar ástæður.Tóku margir undir með honum um þessi mál. – Guðmundur Jens Þorvarðarson sagði frá því hvernig það atvikaðist að hann varð rótarýfélagi en hann hafði verið í félagsmálum um langt skeið.

Jón Emilsson form Starfsþjónustunefndar sagði frá fundi nefndarinnar sem hefði komið saman og rætt bæði nefndarstarfið og klúbbstarfið (Jón sendi fundargerð nefndarinnar til stjórnar) – Páll Magnússon frá Þjóðmálanefnd sagði frá starfi nefndarinnar og hvað væri fram undan. Hann lýsti yfir ánægju með fyrirlesara á fundum klúbbsins og einnig 3ja mín erindin.

Sævar Geirsson form Menningarmálanefndar taldi að stundum vantaði á að fyrirlesarar væru nógu metnaðarfullir, gæta þyrfti að því að fyrirlestrar yrðu ekki of leiðinlegir. Annars gott að vera rótarýfélagi. – Friðbert Pálsson form Ferðanefndar sagðist hafa verið lengi rótarýfélagi, mun lengur en dvöl hans í Rótarýklúbbi Kópavogs sem hann valdi að vel athuguðu máli. Tekur undir með öðrum um að efla starfið í klúbbnum, leikhúsferðir, gönguferðir, styttri og lengri ferðir saman. Reyna að skapa stemmingu fyrir því. – Ólafur H Ragnarsson form Laganefndar telur að engin þörf sé á lagabreytingum og menn ættu að flýta sér hægt með það. Hann nefndi hins vegar að gera þyrfti lögin aðgengilegri á netinu þ.e. á heimasíðu klúbbsins þyrfti að vera linkur til að komast auðveldlega beint að lögunum. – Eiríkur J Líndal sagði frá að unnið væri að því að finna rekstri Sunnuhlíðar eðlilegan farveg m.a. með viðræðum við Kópavogsbæ ofl..

Forseti, Helgi Sigurðsson sagði frá Rótarýdeginum sem fyrirhugaður er 26. febrúar 2015. Leiðbeiningar kæmu frá umdæminu en að rétt væri að við Rkl. Kóp. setti á laggirnar nefnd til fara með málið fyrir klúbbinn og gat þess að þegar hefði verið ámálgað við Geir A Guðsteinsson að fara fyrir slíkri nefnd.

Þá var komið að Svót greiningu ( Swot analysis ) sem Bryndís H Torfadóttir varaforseti undirbjó og stjórnaði. Skipt var liði á þrjú borð sem settu frá sér sínar meginskoðanir. Þessu var svo safnað saman og farið yfir.

Helstu niðurstöður svót greiningarinnar voru eftirfarandi:

Styrkleikar Rótarýklúbbs Kópavogs : > Klúbbbstarfið samfélag þar sem félagar eru samstíga í að láta gott af sér leiða. > Mikill mannauður í klúbbfélögum og á mentora eins og t.d. Ásgeir G Jóhannsson. > Góðir fyrirlestrar og 3ja mín erindi sem eru áskorun fyrir félaga.

Veikleikar Rótarýklúbbs Kópavogs: > Endurnýjun of lítil. > Kynjaskipting ekki í jafnvægi. > Of lítil samvera félaga utan funda. > Breidd í aldurssamsetningu.

Tækifæri Rótarýklúbbs Kópavogs: >Auka stolt Kópavogsbúa af bænum sínum. > Jafna kynjahlutfall. > Láta gott af sér leiða. > Veita verðlaun til Tónlistarskólans. > Efla kosti félaga í klúbbnum, við búum við öflugt atvinnulíf í Kópavogi. > Gera minnislykil sem klúbbfélagar geta fengið að láni til að nota til kynningar á klúbbnum og rótarýhreifingunni.

Ógnanir Rótarýklúbbs Kópavogs: > Það er litið á okkur sem karlrembur. ( vísað til t.d. freki karlinn eftir Jón Gnarr ) > Almenn deifð í félagastarfsemi í þjóðfélaginu.

Framtíðarsýn Rótarýklúbbs Kópavogs: >> Öflugt félagsstarf.