Fréttir

18.9.2014

Rotary Norden

Markús Örn Antonsson

Rótarýfundurinn 16. september var í umsjón Rótarýfræðslunefndar. Formaður er Ingólfur Antonsson. Gestur fundarins og fyrirlesari var Markús Örn Antonsson, sem fjallaði um Rotary Norden og tengd mál.

Ritari flutti úrdrátt úr 7. fundargerð klúbbsins og sagði frá Klúbbþinginu sem haldið var 11. sept s.l. - Guðmundur Jens Þorvarðarson kvaddi sér hljóðs og minnti á umdæmisþingið sem haldið verður í Garðabæ 10. og 11. október n.k. -Einnig tók Jón Ögmundsson til máls um þingið og að klúbbfélagar fjölmenntu sérstaklega þegar útnefning næsta umdæmisstjóra verður kynnt á þinginu en það verður sem kunnugt er Guðmundur Jens Þorvarðarson.

Forseti sagði frá bréfi sem klúbbnum barst frá Skáksambandi Íslands um styrk til handa 12 ára Kópavogsbúa, Vignis Vatnars Stefánssonar til þátttöku á heimsmeistaramóti ungmenna í Durban í S- Afríku. - Vignir Vatnar er einn allra efnilegasti ungi skákmaður sem komið hefur fram hér á landi síðustu ár að mati skáksérfræðinga. -Styrkur Rótarýklúbbs Kópavogs að upphæð kr 120.000,- verður veittur. -3ja mín erindi féll niður að þessu sinni.

Fundarhlé var svo til kl 12.40.

Fundurinn var í umsjón Rótarýfræðslunefndar og kynnti form nefndarinnar, Ingólfur Antonsson fyrirlesara, Markús Örn Antonsson.

Markús Örn Antonsson fæddist í Reykjavík 25.maí 1943 og ólst þar upp. Hann var skiptinemi í Oregon í Bandaríkjunum, lauk stúdentsprófi frá MR 1965, hóf nám í lögfræði við HÍ en hélt síðan til þjálfunar í fréttamennsku og dagskrárgerð fyrir sjónvarp hjá ITN í Bretlandi og SVT í Svíþjóð.

Markús var blaðamaður og Ijósmyndari við Morgunblaðið á námsárunum, sinnti dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið 1963 og 1964, hóf störf hjá Sjónvarpinu í desember 1965 við undirbúning að fyrstu útsendingum þess og var þar fréttamaður og dagskrárgerðarmaður til 1970 auk þess sem hann hafði umsjón með fjölda sjónvarpsþátta. Hann var kynningarfulltrúi hjá Ferðaskrifstofu ríkisins 1971, ritstjórí tímaritsins Frjálsrar verzlunar og fleiri tímarita hjá útgáfufélaginu Frjálst framtak hf 1972-1983. Hann var útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1985-91 og gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík 1991-94. Markús var framkvæmdastjóri hljóðvarpssviðs Ríkisútvarpsins 1995-98 og útvarpsstjóri að nýju 1998-2005, sendiherra í Ottawa í Kanada 2005-2008 og forstöðumaður Þjóðmenningarhússins frá 2008 – 2013 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Markús var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1970-85, sat í borgarráði , var forseti borgarstjórnar og starfaði í ýmsum nefndum borgarstjórnar. Hann var varamaður og síðar aðalmaður í Útvarpsráði 1978-85 og formaður Útvarpsráðs 1983-85. Einnig sat hann í nefndum Evrópuráðsins um fjölmiðlun og kvikmyndagerð og var í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Íslands og í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Ísland. Hann var stofnfélagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt 1983 og forseti klúbbsins 1985. Hann er einn af ritstjórum Rotary Norden, tímarits Rótarýhreyfingarinnar á Norðurlöndum, og er ritstjóri heimasíðu íslenska rótarýumdæmisins.

Erindi Markúsar Arnar fjallaði um tímaritið „Rotary Norden“ og tengd mál, en hann er einn ritstjóra þess. Markús Örn gat þess að hann væri þriðji íslenski aðilinn til að gegna þessu starfi. Hann sagði að rótarýfélagar í heiminum væru u.þ.b. 1,2 milljónir. Rotary International gefur út glæsilegt tímarit „Rotarian“ , síðan eru svæðisbundin tímarit. Öll eru þau vönduð að öllum frágangi. Stærsta svæðisbundna blaðið mun vera gefið út í Japan, ca 108 þús eintök mánaðarlega. – The Rotarian er að hluta til útgefið í rafrænu formi og til stendur að auka þá útgáfu í framtíðinni.

Rotary Norden flytur fréttir af rótarýstarfi á Norðurlöndum og ýmsum málefnum sem rótarýklúbbarnir eru að vinna að í sínu nær-umhverfi. Markús Örn ritar fréttir frá íslandi á dönsku, þannig geta rótarýfélagar á hinum Norðurlöndunum fylgst með fréttum héðan. Margháttaður fróðleikur hefur þannig birst í tímaritinu frá Íslandi en blaðið er gefið út í ca 69 þús. eintökum hverju sinni.

Markús Örn sagði að of lítið væri um að hann fengi fréttir af viðburðum hjá klúbbunum á Íslandi, hann þyrfti meira og minna að afla þeirra sjálfur. Blaðauki er gefin út á ensku og rætt hefur verið um innan ritstjórnar Rotary Norden að auka við þann hluta. Einnig verði blaðið gefið út í rafrænu formi í meira mæli í framtíðinni. Könnun hefur leitt í ljós að um 60% íslenskra rótarýfélaga vilja fá ritið á netinu sem mun án efa flýta þeirri þróun.

Markús Örn gat þess að hann inni allt efnið í sérstökum hugbúnaði þannig að það væri í raun tilbúið til prentunar og/eða net útgáfu. Hvatti hann klúbbfélaga til að koma efni á framfæri ásamt myndum af klúbbstarfinu fyrir Rotary Norden og einnig væri mjög vel þegið að fá frásagnir af viðburðum í klúbbstarfi inn á rotary.org.