Fréttir

12.8.2014

Þinghóll og svæðið um kring - kvöldfundur úti í náttúrunni!

Rótarýfundurinn 12. ágúst var fyrsti fundur eftir sumarfrí. Þetta var kvöldfundur í umsjón Ferðanefndar.

Gunnar Marel frá Héraðsskjalasafni Kópavogs hitti hópinn kl. 18:00 við Steininn sem er rétt hjá Kópavogshælinu og leiðsagði félagana um svæðið.


Að kynningu lokinni var slegið upp pizzuveislu.


Makar voru velkomnir á kynninguna. Veður var með ágætum.

Þann 12. ágúst var haldinn 3. fundur starfsársins í Rótarýklúbb Kópavogs og 2697 fundur frá stofnun klúbbsins. Fundurinn var settur klukkan 18:00 í sumarblíðu við Þinghólinn í Kópavoginum. Þátttakendur voru 35, þar af 22 Rótarýfélagar ásamt 10 mökum þeirra og 3 gestum, þar af leiðsögumönnunum þeim Gunnari Marel frá Héraðskjalasafni Kópavogs og Þórði Guðmundssyni formanni sögufélags Kópavogs. Fundurinn var á vegum ferðanefndar en formaður henar er Friðbert Pálssson, sem kynnti efni fundarins.

Farið var að gamla þingstaðnum við Þinghólinn í botni Kópavogs og saga staðarins rakin. Auk þess sem gengið var um nærliggjandi svæði og rakin aðdragandinn að stofnun Kópavogs. Enn fremur var fjallað um aðkomu kvenfélagsins Hringsins að Kópavogs-hælinu og Kópavogsbúinu. 

Árið 1574 fyrirskipaði Friðrik II, danakonungur (Íslendinga,Vinda, Gauta, hertogi í Slésvík, Holsetalandi o.sfrv.) að Alþingis Íslendinga skuli flutt til Kópavogs. Íslendingar höfðu hins vegar skipan konungs að engu. Þingstaðurinn við Þinghól var áfram þingstaður suðvesturhornsins og dómstóll þess.

Árið 1662 er öllum þingfulltrúum landsins stefnt í Kópavog vegna breittrar stjórnskipan, erfðahyllingar og erfðaeinveldistöku konungs í anda Lúðvíks XIV frakkakonungs. Henrik Bjelke, aðmíráll, fulltrúi konungs, kom til Íslands á fund í Kópavogi til þess að fá íslenska höfðingja til að undirrita Erfðahyllinguna. Kópavogssamningurinn og afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga. Erfðaeinveldið gilti til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu eigin stjórnarskrá.

Sagnir um að Bjelke hafi hótað Íslendingum með herliði til að neyða Íslendinga til að samþykkja Erfðahyllinguna komust í hámæli eftir að tveir minnismiðar fundust í kistu Jóns Sigurðssonar sem sögðu frá því að Brynjólfur Sveinsson biskup hefði andmælt þessari löggjöf en Bjelke minnt hann á hermennina og að Árni Oddsson, lögmaður hafi tárfellt við undirskriftina. Þessari harmasögu var slegið upp í Þjóðólfi í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Ekkert í samtímaheimildum bendir hins vegar til annars en að hér hafi verið um annað að ræða en formlegt samþykki, en samþykki Alþingis á lögum konungs hafði um langt skeið áður verið sjálfvirk. Annálar minnast Kópavogsfundarins helst fyrir það að eftir undirskriftina var haldin mikil og vegleg veisla á vegum Bjelke hirðstjóra þar sem var „sungið og spilað upp á margs kyns hljóðfæri“ með flugeldasýningu og fallbyssuskotum.. 

Gunnar Marel rakti að fundurinn hefði kannski ekki verið með öllu neikvæður fyrir Íslendinga og að fundurinn hafi verri sess í augum okkar en hann á skilið. Í raun fylgdi breyttri stjórnskipan þó nokkur réttarbót og minnkaði völd þeirra þriggja íslenskra ætta sem í raun öllu til dæmis um skipan í helstu embætti í landinu.

Árið 1704 fór fram síðasta aftaka á Kópavogsþingi sem vitað er um. Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ voru tekin af lífi fyrir morð. Hann var höggvin en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1749 er síðasta skráða heimild um dómþing í Kópavogi og árið 1751 Kópavogsþing lagt af og í þess stað er þingstaðurinn í Reykjavík.

Árið 1903 hleður Erlendur Zakaríasson sem var ábúandi á Kópavogsjörðinni hús úr grágrýti með sama hætti og Alþingishúsið. Árið 1924 samþykkir Alþingi að Kvenfélagið Hringurinn fái bújörðina Kópavog, til að reisa þar Hressingarhæli. Á sólríkum degi sumarið 1926 er mikil hátíð á Kópavogstúni þar sem mæta 2000 manns og þar fer fram fjársöfnun og samhliða henni eru tónleikar á vegum Páls Ísólfssonar og ýmiss önnur veisluhöld, enn fremur happadrætti þ.e. tombóla, en bæjarstjórn Reykjavíkur hafði áður hafnað því að slík hátíð færi þar fram.

Hringskonur byggðu Kópavogshælið á stað sem þótti “óvistlegur, hreggviðrasamur og ljótur” en það verða að teljast öfugmæli miðað við hvernig svæðið lítur út í dag.

Árið 1926 er hressingarhælið tekið í notkun, en það var fyrsta hæli sinnar tegundar á Íslandi. Það ber einnig að hafa það í hávegum að það er um leið fyrsta fyrirtækið í Kópavogi. Þess má einnig geta að margs konar frumkvöðlastarf fór þar fram og má þar nefna að fyrsta vindrafstöðin á Íslandi er sett upp, sem sjá skyldi hælinu fyrir rafmagni, en hún var reist á Borgarholtinu þar sem Kópavogskirkjan er í dag. Einnig var fyrsti síminn í Kópavogi á Kópavogshælinu.

Auk leiðsögumanna tóku til máls Vilhjálmur Einarsson og Helgi Sigurðsson.

Fundinum lauk með pizzuveislu sem snætt var úti í sumarblíðunni við skógarlund í námunda við Kópavogshælið og lauk þessum kvöldfundi upp úr klukkan 19:30.