Fréttir

15.7.2014

Slysavarnir í ferðamálum

Jónas Guðmundsson

Rótarýfundurinn 15. júlí var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður nefndarinnar er Jón Sigurðsson. Fyrirlesari var Jónas Guðmundsson ftr. hjá Landsbjörg og fjallaði hann um starf Landsbjargar, leit og björgun með sérstakri áherslu á starfið á hálendinu yfir sumartíman. Ásgeir Jóhannesson flutti 3ja mínútna erindi.

Dagskrá hófst með 3ja mín erindi Ásgeirs G. Jóhannessonar. Fjallaði hugvekja hans um traust í mannlegum samskiptum. Ásgeir gat þess að í hans uppeldi á Húsavík og í hans ungdæmi hefðu menn aflað sér trausts hjá t.d. bönkum, fyrirtækjum og stofnunum með heiðarleika í öllum samskiptum en nú væri öldin önnur, slíkt skipti ekki lengur máli, nefndi hann samskipti sín við viðskiptabanka þeirra hjóna sem krefði hann um skilríki og prókúrur við lítilvæg samskipti þó viðskipti þeirra hefðu verið þar snurðulaus í áratugi. Fékk hann m.a. höfnun á afgreiðslu af þessum sökum. Varpaði Ásgeir fram þeirri spurningu hvort ný gildi hafi tekið við í mannlegum samskiptum við þjónustuaðila þar sem t.d. regluverk bankakerfisins hafi yfirtekið og komið í stað þess trausts sem fólk ávann sér með atferli sínu.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar, formaður Jón Sigurðsson kynnti fyrirlesara, Jónas Guðmundsson fulltr. hjá Landsbjörg. Jónas er ferðamálafræðingur að mennt og hefur starfað að björgunarmálum hjá Landsbjörg í um 20 ár.

Erindi Jónasar fjallaði um „Slysavarnir í ferðamálum“. Sú mikla aukning sem orðið hefur á fjölda ferðamanna til landsins hefur kallað á kröfur um aðstoð og björgun á hálendinu. Jónas gat þess að hér áður fyrr hefði verið frí á sumrin en nú væri þetta háannatími björgunarsveitanna. Hann sagði að ferðamenn væru langflestir hið besta fólk sem bæri virðingu fyrir náttúru landsins en þar væru líka svartir sauðir auk slysa sem yrðu þrátt fyrir góðan hug og búnað. Nálægt 3 þús atvik áttu sér stað árið 2013. Um 2 þús manns eru á útkallsskrá Landsbjargar að sögn Jónasar sem njóta velvildar vinnuveitenda sinna, þó er greinilegt að heldur erfiðara er fyrir marga björgunsveitarmenn að hlaupa frá vinnu eftir hrunið 2008. Björgunsveitarfólk kostar sjálft allan sinn búnað.

Jónas sagði frá nýjum hugbúnaði sem miklar vonir væru bundnar við sem ber nafnið, „Safetravel“ -Fjöldi aðila kemur að gerð hugbúnaðarins. -Það hjálpar mikið ef ferðaáætlun er skilin eftir og með nýjum hugbúnaði og m.a. forritum fyrir snjallsíma er það alltaf að aukast. -Verið er að koma upp merktum stöðum þar sem ferðalangar skilja eftir gps staðsetningu (brauðmola) með einni færslu í snjallsíma. -Einnig stendur til að koma upp skjám á völdum stöðum með uppl. um færð og veður á hálendisleiðum osfrv. til að mæta þessari miklu aukningu ferðamanna í óbyggðum landsins. Jónas sagði að tryggingamál væru með þeim hætti hér á landi að ef t.d. ökutæki sem dregið væri úr ófærð yrði fyrir skemmdum við björgun væri það á ábyrgð björgunsveita að bæta slíkt tjón.